08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í C-deild Alþingistíðinda. (1544)

197. mál, samvinnufélög

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Um þetta litla frv. þarf ég lítið að segja umfram það, sem tekið er fram í grg. þess á þskj. 197. Það er borið fram til þess að gera nokkur ákvæði samvinnufélagslaganna frá 1921 ítarlegri og gleggri. Það hefir nefnilega komið í ljós við framkvæmd laganna, að sum ákvæði þeirra eru óljós og tvíræð og þannig orkað tvímælis, hversu skilja beri einstök ákvæði þeirra, og fyrir þá sök hefir framkvæmd laganna verið nokkuð misjöfn hjá hinum einstöku samvinnufélögum á landinu. Sem dæmi þessa má nefna 24. gr. laganna, sem fjallar um varasjóðstillag félaganna og mælir svo fyrir, að það skuli vera 1% af „viðskiptaveltu“ félagsmanna. Þetta hefir sumstaðar verið skilið svo, að átt væri við samanlagða veltu út og inn, en annarsstaðar, að átt væri aðeins við aðra hlið veltunnar. Þetta frv. tekur nú af allan vafa um þetta atriði.

Annað atriði má nefna í þessu sambandi. Í lögin frá 1921 vantar ákvæði um það, hversu fara skuli að, ef fundur fellur niður af einhverjum ástæðum, og hvernig skuli koma honum á, ef hann ferst fyrir. Frv. þetta bætir úr þessum ágalla laganna, og eru um þetta tekin upp í frv. svipuð ákvæði og eru í hlutafélagslögunum.

Aðrar brtt. þessa frv. eru svo smávægilegar og ljósar, að engin þörf er á frekari skýringum. Miða breytingarnar sem sagt einungis að því, að eyða vafa og misskilningi um framkvæmd laganna og gera orðalag þeirra ákveðnara og fyllra í nokkrum atriðum, en hinsvegar er hér ekki um efnisbreytingar að ræða. En enda þótt málið sé einfalt í sjálfu sér, þá vil ég nú samt mælast til þess, að það verði athugað í nefnd, því að búast má við, að hv. þdm. hafi ekki athugað það fyllilega sjálfir enn sem komið er. Ég vil því leggja til, að málinu verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.