13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í C-deild Alþingistíðinda. (1546)

197. mál, samvinnufélög

Frsm. (Magnús Torfason):

Þetta frv. er yfirleitt hvorki langt né efnismikið. Það má heita aðeins lagfæring á þeim l., sem fyrir eru, til að gera þau ljósari. Aðalbreytingin er við 1. gr. Þar er bætt inn í orðinu „útgerðarfélög“ við upptalningu á samvinnufélögum. Og þar sem útgerðarfélög eru nú rekin með samvinnusniði, þá er þetta sjálfsögð viðbót.

2. gr. frv. orðar skýrar en gert er í l., hvernig ráðstafa á tekjuafgangi samvinnufélaganna. Í frvgr. er sagt svo fyrir, að þegar greidd hafa verið tillög til sameignarsjóða, þá skuli tekjuafgangi úthlutað til félagsmanna eftir viðskiptamagni þeirra. Áður var skilningur þessarar gr. nokkrum vafa bundinn. Er þetta sett til að taka af þennan vafa.

3. frvgr. er um það, að verði aðalfundur ólögmætur, þá megi boða til fundar að nýju innan 3 mánaða. Sé boðað til hans með tveggja vikna fyrirvara, og er hann þá lögmætur án tillits til þess, hve margir eru mættir. Venjan hefir verið sú, að viss tala er heimtuð til þess að fundur sé lögmætur, en það hefir oft reynzt illa. Mun þetta ákvæði frv. einkum koma að haldi þegar verið er að leysa upp félög, sem enginn áhugi er lengur fyrir.

4. og 5. gr. frv. eru aðeins skýrar og réttar orðuð ákvæði en nú er í lögunum. Með þessum aths. vil ég, fyrir hönd allsn., leyfa mér að mæla með því, að frv. sé samþ.