18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

79. mál, lögtak og fjárnám

Frsm. (Pétur Magnússon):

Samkv. lögum frá 1885 er það regla, að lögtaksbeiðnir séu birtar af stefnuvottum. Undanþágu frá þeirri reglu veita þó lögin, „þá heimtir skulu í kaupstöðum skattar til landssjóðs, brunabótagjöld, bæjargjöld og önnur opinber gjöld“. Má þá birta lögtakið með venjulegri auglýsingu. Þessi undanþága mun sett í lögin í tvennum tilgangi: til að létta innheimtumönnum opinberra gjalda starfið, með því að spara fyrirhöfnina, sem því er samfara að fá lögtaksúrskurð og láta stefnuvotta birta hann, og í öðru lagi geri ég ráð fyrir, að vakað hafi fyrir löggjafanum að létta af gjaldendum kostnaðinum við það að láta stefnuvotta birta lögtakið.

Frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því, að hlunnindin, sem þessi umrædda undanþága veitir, nái einnig til kauptúna og sveitarfélaga. Þegar frv. var borið fram í hv. Nd. af hv. þm. N.-Ísf., náði það aðeins til kauptúna, sem hafa yfir 300 íbúa. En í meðferð d. var því breytt á þá leið, að það nái einnig til sveitarfélaga. Allshn. fellst á frv. eins og það er nú. Álítur hún áhættulaust, að undanþágan nái til allra hreppsfélaga á landinu, og leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og hv. Nd. gekk frá því. Það eina, sem hægt er að hafa á móti því að láta frv. ná til sveitanna líka, er það, að venjulegar auglýsingaaðferðir séu þar ekki nægilega tryggar. En ég held, að ekki sé ástæða til að óttast það. Og þar sem enginn efi er á, að hér er um nokkurt hagræði að ræða, þá virðist einsætt, að frv. á fram að ganga.