31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í C-deild Alþingistíðinda. (1592)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Flm. (Jón Ólafsson):

Frv. þetta er flutt af meiri hl. allshn., en tveir hv. nm., þeir hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. V.-Sk., hafa ekki getað orðið samferða um að flytja frv., en þó munu þeir ekki vera málinu andstæðir eða a. m. k. ekki hv. þm. V.-Sk., enda fer það mjög að vonum, þar sem hér er um hið mesta nauðsynja- og nytjamál að ræða, svo sem menn munu komast að raun um við nánari athugun.

Mér þykir hlýða að fara nokkuð yfir sögu þessa máls, áður en ég kem að efnisatriðum þess. Málið hefir verið lengi á dagskrá hér í bæ, og hefir bæjarstjórn Rvíkur haft það til meðferðar í 3–4 ár og látið fara fram ýmiskonar mælingar og rannsóknir og áætlanir og nú loks á síðastliðnu ári tekið endanlega afstöðu í málinu og talið málið fullrannsakað og nægilega undirbúið til þess að hefjast handa um framkvæmdir. Það var sumarið 1927, sem byrjað var að gera mælingar í þessu skyni á vatnsorku í Soginu til virkjunar fyrir Rvík, og var þeim rannsóknum lokið sumarið 1928, með þeim árangri, að lagt var til eindregið að virkja svokallað Efra-Sog, nefnilega hann hluta Sogsins, sem liggur milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns. Bæjarstj. ákvað þegar að láta gera fullnaðaráætlanir um virkjun og leita kaupa á vatnsréttindunum. Var hið síðarnefnda gert, og því næst fengnir sérfræðingar til þess að gera frekari áætlanir og yfirfara þær áætlanir, sem þegar höfðu verið gerðar. Að þessu var unnið árin 1928 og 1929, og að þeim rannsóknum loknum, komst bæjarstj. að endanlegri niðurstöðu. Sá, sem einkum vann að þessum undirbúningi var norskur sérfræðingur frá vatnamálafélaginu í Noregi, maður með mikla kunnáttu og æfingu í slíkum störfum. Eftir að þessum undirbúningi var lokið, var verkið boðið út í nóv. 1929, með útboðsfresti til 10. júní 1930. Þegar sá tími var liðinn, voru komin tvö tilboð um virkjunina, en í tilboðinu var þess óskað, að einnig væri lánað fé til framkvæmdanna. Annað tilboðið var frá Svíum, og buðu þeir að leggja fram fé, ef um semdist að öðru leyti, og í því skyni voru sendir út þrír menn til frekari samninga við félag þetta. En í tilboði þeirra var settur ákveðinn frestur og skyldi bæjarstj. segja ákveðið um tilboðið innan þess frests. Einnig var það sett að skilyrði fyrir láninu, að ríkisábyrgð fengist fyrir því. Á fundi 10. des. í vetur tók bæjarstj. því næst ákvörðun um að fresta þessu máli, þar til Alþingi væri komið saman og þar til séð væri, hversu það tæki í þetta mál. En þar með var tilboði þeirra Svíanna hafnað, því að tilboð þeirra stóð ekki nema tiltekinn tíma.

Þannig horfir þá málið við nú. Verður ekki annað séð en að það hafi hlotið þann undirbúning, sem nauðsynlegur er í slíku stórmáli sem þessu, þar sem fyrir menn, bæði utan lands og innan, hafa fjallað um málið og rannsakað það til þrautar.

Þá vil ég næst lýsa því, hvernig þetta mál horfir við frá sjónarmiði Rvíkurbæjar. Elliðaárstöðin framleiðir aðeins 600 kw., sem vitaskuld verður og er að verða allt of lítið fyrir bæinn. Þessi raforka gerir ekki meira en nægja til ljósa handa bænum, en að engu leyti til suðu, hitunar né iðnaðar. Hún er þess vegna öldungis ófullnægjandi nú þegar, hvað þá heldur í framtíðinni. Eigi að síður eru þær tekjur, sem bærinn hefir af þessari litlu stöð, um eða yfir 1 millj. kr. árlega. Það hefir þótt hlýða að hafa verð orkunnar hátt, til þess að geta skrifað fyrr niður verð stöðvarinnar, til þess að geta virkjað meira síðar í viðbót við það, sem nú er búið að virkja. Orka Elliðaárstöðvarinnar hefir verið ca 55 w. á mann, en ef Sogið yrði virkjað, er lært ráð fyrir, að orkan yrði ca fjórum sinnum meiri á hvern bæjarmann, sem sízt er ofmikið, ef horft er nokkuð fram í tímann; auk þess ber þess að gæta, að ef Sogið yrði virkjað, þá kæmi Hafnarfjörður hér inn í, sem er nú í hinum mestu vandræðum með rafmagn. Og þótt ekki væri byrjað á að virkja nema 5000 kw. í Soginu, þá mundi sú orka ásamt Elliðaárstöðinni nægja þessum bæjum og héruðum í langan aldur.

Þá rís því næst sú spurning, hvort Sogsvirkjunin beri sig fjárhagslega. Allur kostnaður við byggingu stöðvarinnar er axlaður 6 til 7 millj. kr. Núverandi verð á Elliðaárstöðinni, ásamt umbótum á bæjarleiðslukerfinu vegna nýrrar virkjunar, nemur ca. 3,5 millj. kr. Þetta verða c. 10 millj. kr. til samans, sem bærinn hefði lagt í þessi fyrirtæki. Fyrir litlu stöðina við Elliðaárnar hefir bærinn yfir 1 millj. kr. tekjur, en ef Sogið yrði virkjað til viðbótar, þá þyrfti að auka þessar tekjur um 500 þús. kr., til þess að geta séð fyrir afborgunum, vöxtum og fyrningum á þessum mannvirkjum. Álögurnar á bæjarbúa vegna rafmagnsins myndu þannig vaxa um þriðjung, en raforkan myndi aukast um tvo þriðju hluta, miðað við þegar búið er að virkja Sogið. Með þessu álagi ætti bærinn að vera búinn að eignast stöðina skuldlausa eftir 25 ár.

Ég hefi vonandi skýrt þetta nægilega fyrir hv. dm., hve mikið fjárhagsatriði er hér um að ræða fyrir bæjarfélagið. Hér mundi skarast allur sá mikli innflutningur á kolum, sem átt hefir sér stað, því bærinn mundi nota rafmagnið til hita og suðu. Og mundu því kol alveg hverfa úr sögunni. Þegar svo Reykjavík og Hafnarfjörður þurfa meira rafmagn, þá er því svo fyrir komið, að ekki þarf annað en bæta við vélum. Stofnkostnaðurinn er kominn. Og það er nokkurn veginn víst, að eftir að vélum er bætt við, muni rafmagnið lækka, því að kostnaðurinn við viðbót vélanna er hverfandi lítill.

Þetta er í stuttu máli sú hlið, sem snýr að bæjarfélagi Rvíkur.

Þetta mál ásamt fleirum hefir verið tekið til athugunar af raforkumálanefnd. N. Þessi er skipuð af ríkisstj. og hæstv. núv. fjmrh. á sæti í henni. Tók n. sér sérstaklega fyrir hendur að rannsaka Sogið í sambandi við raforkumál nærliggjandi héraða, og hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að ódýrast sé að taka þar rafmagn til Vestmannaeyja, Rangarvalla- og Árnessýslna, sem auðvitað liggja vel við. N. áleit ennfremur, að ódýrast væri að taka rafmagn úr Soginu handa Gullbringu- og Kjósarsýslu og Mýra- og Borgarfjarðarsýslu.

Í þessari n. eru sérfræðingar, sem komizt hafa að þeirri niðurstöðu, að betra sé að leiða rafmagnið 300–400 km. um svæði, þar sem 14–15 þús. manns búa, en að virkja önnur vatnsföll í grennd við þau hvert í sínu lagi. Þeir athuguðu og, á hvern hátt bezt mætti tryggja þessi héruð í sambandi við Sogsvirkjunina til Rvíkur. Þeir álitu sjálfsagt að setja þetta í frv., til þess að þessi héruð á sínum tíma gætu komið og sagt við Rvík: Nú viljum við fá að vera með í rafmagninu. Þið virkið Sogið, en við göngum inn í fyrirtækið samkv. frv. og borgum kostnaðarverð að viðbættum 10%.

Aðalefni frv. er, að þau héruð, sem þar eru nefnd, geti komið þegar þau eru tilbúin og gengið í samband við Rvík. Það er mjög hætt við, að þessi héruð ættu erfitt með að koma slíku á stofn hjá sér, hvert út af fyrir sig. En aftur á móti er það mjög hægt fyrir þau, ef þau eru í sameiningu við Rvík, enda er hægara fyrir Rvík að beita sér fyrir þessu en fyrir smáhéruð, sem eiga við fátækt að stríða. Þessi sýslufélög geta svo snúið sér til bæjarins, þar til þessi hálfa virkjun er búin, og þá er Rvíkurbær skyldugur að virkja án ábyrgðar þeirra, allt samkv. frv.

En ríkissjóður, sem á helming virkjunarinnar, getur samið um hitt eða haldið áfram virkjuninni, þegar bærinn hefir fullvirkjað sinn hluta Sogsins.

Vegna þess að ég býst við að hafa tækifæri til þess að tala í þessu máli síðar, skal ég ekki fara lengra út í einstök atriði nú. Vil ég fastlega vona, að hv. dm. taki frv. vel. Ýmsir kunna að vísu að segja, að það sé áhætta fyrir ríkissjóðinn að ganga í ábyrgð fyrir svo stóru láni. Þó er hér um það að ræða að auka framleiðslu landsins og bæta afkomu manna og auka þar með gjaldþol þegnanna. Og ég verð að segja það, að ef ríkinu ætti að vera það hættulegt að ganga í ábyrgð fyrir Reykjavík, býst ég við, að lítið yrði úr þjóðfélagsheildinni, svo lítið, að ég þori ekki einu sinni að hugsa um það.

Þetta getur ómögulega verið fjárhagslega hættulegt, heldur þvert á móti eykur það velmegun mikils hluta þjóðarinnar, svo að þeir menn, sem þessa fá að njóta, verða að sama skapi betri borgarar, standa betur undir þeim byrðum, sem þjóðin leggur þeim á herðar og verða á allan hátt nýtari borgarar.