31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í C-deild Alþingistíðinda. (1595)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Af því að þetta mál kemur nokkuð skyndilega á dagskrá deildarinnar, langar mig til að fá að vita dálítið nánar um fyrirætlanir þeirra, sem frv. flytja. Hefði mál þetta komið inn í þingið sem frv. til 1. aðeins um fyrirkomulag á virkjun Efra-Sogsins til þarfa Rvíkur og Hafnarfjarðar, þá hefði það horft dálítið öðruvísi við. Ég er, eins og flestir, sem búsettir eru hér í Rvík, munu vera, fylgjandi því, að Sogið verði virkjað hið fyrsta, er kringumstæður og undirbúningur leyfa. En nú er málið flutt á dálítið öðrum grundvelli. Það er ekki sérstaklega talið hagsmunamál Rvíkur, eins og það er þó, heldur er nú sagt, að það snerti allan suðvesturhluta landsins.

Málið hefir nú verið talsvert rannsakað að því er Reykjavík snertir, en aðrar hliðar þess, þær, sem snúa að landshluta þeim, sem frv. ætlar að vera félaga í fyrirtækinu, eru lítt rannsakaðar. Málið hefir ekki verið rannsakað með tilliti til sveitanna. Það, sem mig langar að heyra um frá hv. flm., er það, hvað þeir hugsa sér um þá hlið málsins.

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að landsmenn allir gangi í ábyrgð fyrir láni til framkvæmda, sem ekki er skynsamlegt að álíta, að komi öðrum en Rvíkingum og Hafnfirðingum að notum fyrst um sinn. Ég er hræddur um, að flm. frv. geri sér það ekki fyllilega ljóst, að eigi þetta verk að ná til hagsmuna sveitanna, verður að liggja fyrir annar undirbúningur en nú er til. Þær rannsóknir, sem fram hafa farið á rafvirkjunarmálum þjóðarinnar, hafa ekki leitt til glæsilegrar niðurstöðu fyrir sveitirnar.

Það kom fram frv. hér um árið, sem laut að því að spenna raftaugar um allar sveitir landsins, frv. um rafmagnsnotkun sveitanna. Um það var mikið deilt, og það kom í ljós, að slíkar framkvæmdir gátu kostað landið um 80 millj. kr. Ætlazt var til að ríkið legði fram fé þetta að miklu leyti, bæði með beinum framlögum og með útvegun lána. Var því ljóst, að úrslit þess máls gátu haft talsverð pólitísk áhrif út á við. Jafnvel þó að gert hefði verið ráð fyrir, að þessi fyrirtæki mundu bera sig, var vafasamt, hvort ríkið hefði getað útvegað svo stórar fjárhæðir, sem þarna var um að ræða, án þess að verða um of háð öðrum þjóðum.

Síðan hefir rafmagnsmálinu verið haldið vakandi. Fjórir verkfræðingar voru skipaðir í nefnd til að rannsaka það. Þeir hafa komizt að raun um, að umrætt frv. frá 1928 var byggt á röngum grundvelli. Það eina, sem n. veit um þá hlið rafmagnsmálsins, er að sveitunum snýr, er það, að raftaugar yrðu þar svo dýrar í hlutfalli við íbúana, að stórum rafvirkjunarfyrirtækjum væri ekki hægt að uppihalda fjárhagslega, nema með framlögum einhversstaðar frá. Þetta kom athugulum leikmönnum alls ekki á óvart; því var þegar haldið fram 1928. Þá kom til greina, hvort ríkið var fært um að útvega fyrst lán til virkjana og bera síðan þann kostnað, sem vanta mundi upp á, að þær gætu borið sig.

Hinir fjórir verkfræðingar hafa þannig kveðið upp dauðadóm yfir því, að eins og nú er komið tekniskri þekkingu, sé gerlegt að koma upp stórum raforkuveitum í sveitum landsins. Þetta getur að vísu breytzt með tímanum, vegna framfara í rafmagnsiðnaðinum eða nýrra uppgötvana, t. d. ef menn kæmust upp á að senda rafstraum langar leiðir gegnum loftið, eða ef raftaugar verða svo ódýrar, að viðráðanlegt sé að nota þær, þó að um strjálbýli sé að ræða. Við verðum að vona, að slík breyting verði á, áður en langt um líður. En eins og nú standa sakir, geta stórar rafvirkjanir ekki orðið sveitunum til hagræðis, nema þar, sem svo hagar til, að þær geta notið góðs af línum, sem lagðar eru til stærri þarfa. Þannig gæti t. d. Mosfellssveit notið Sogsvirkjunarinnar, og talið er, að það mundi borga sig að leggja leiðslur yfir á Akranes, þó að það yrði gífurlega dýrt, af því að þar er allmargt fólk fyrir. Aftur halda menn, að ekki muni borga sig að leiða rafmagn um Kjósina; þar er of strjálbýlt. Eftir því er óhugsandi, að Árnessýsla geti nokkurt gagn haft af virkjun Sogsins, nema ef hægt væri að leggja í að leiða rafmagnið til Eyrarbakka og Stokkseyrar; þá mundu nokkrir sveitabæir komast inn á þær línur. Eins mundi eitthvað af bæjum í Rangarvallasýslu komast í nábýli við strauminn, ef raforka væri leidd frá Sogstöðinni til Vestmannaeyja. Það er eftirtektarvert, að rafmagnsmálið er fyrst borið fram sem málefni sveitanna. Síðan eru liðin þrjú ár, og á þeim tíma hafa orðið endaskipti á þessu. Nú er búið að gefa sveitirnar upp á bátinn, nema sem smávægilega viðbót, þar sem línur liggja um þær milli þéttbýlli staða. Nú er fyrst og fremst að ræða um rafveitu handa Reykvíkingum. Eitt millistig er þó rétt að geta um. Í Skagafirði hefir farið fram nokkur athugun á því, hvort gerlegt væri að leiða rafmagn heim á flesta bæi um miðbik héraðsins. Niðurstaðan varð sú, að þó að alstaðar væri sparað sem mest, yrði rafaflið svo dýrt, að ekki væri hugsanlegt að nota það nema til ljósa. En það er vitanlega ekki sízt nauðsynlegt fyrir sveitirnar að fá rafmagn til suðu og hitunar, þar sem víða er skortur á eldsneyti. Það hefir miklu meiri þýðingu heldur en þó rafmagn fáist til ljósa.

Þetta held ég, að hv. flm. frv. skjótist yfir, að menn eru þegar komnir að þeirri raunalegu niðurstöðu, að sveitirnar hafa ekkert við stór raforkuver að gera, að það eru hlutir, sem þær hafa ekki bolmagn eða aðstöðu til að færa sér í nyt. Það hefði verið miklu hreinlegra að orða frv. þannig, að þetta væri rafvirkjun fyrir Rvík og Hafnarfjörð. Það er auðvitað gott fyrir framgang málsins, ef fulltrúar þeirra héraða, sem hafa gagn af þessum framkvæmdum vilja trúa, að svo verði og styðja frv. af þeirri ástæðu. En það er ekki hægt að búast við af neinum skynsömum manni, að hann geri það.

Ég vil minna hv. flm. á eitt athugavert atriði í þessu máli. Vatnsfallið, sem frv. gerir ráð fyrir að virkja, er að hálfu leyti í eigu Rvíkur, en að hinum helmingnum í eigu landsins. Hv. flm. dettur víst í hug, að Rvík geti byggt öðrum landeigendum út og tekið vatnsfallið til notkunar án þess að tala við hinn eigandann, landið (HV: Hver er „landið?“

Er hér kannske einhver Mussolini, sem sækja þarf til?). Hv. þm. er nú víst nógu hræddur við stjórnina, þó að hann geri hana ekki stærri en hún er.

Ég er viss um, að Árnesingar láta ekki taka þegjandi frá sér land og vatnsafl. til Sogsvirkjunarinnar, án þess að þeim sé veitt um leið sérstök aðstaða. Og taki landið sinn hluta af vatnsréttindunum frá Árnesingum handa Rvík, þá er þar um vafasamt réttlæti að ræða. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, hvað málið er illa undirbúið af hálfu flm.

Þegar nú sýnt er, að þetta mál er borið fram aðeins fyrir Rvík og Hafnarfjörð, er mjög vafasamt að ætla ríkinu að leggja veg vegna virkjunarinnar, sem ríkið hefir annars ekkert með að gera. Sogsvirkjunin er Reykjavíkurmál, vegurinn ekki síður en aðrir hlutar framkvæmdanna.

Þá kem ég að þeim þætti málsins, þar sem mér finnst mest missmíði á undirbúningnum. Í frv. er gert ráð fyrir, að Rvík sé ekki einfær um að leysa þetta mál. Ég las nýlega í Alþingistíðindunum þau ummæli eftir togaraeigenda, að það væri metnaður togaranna að veiða sem mest þó að þeir þyrftu til þess í landhelgi. Það á að vera metnaðarmál Rvíkur að leysa þetta mál án þess að binda um leið öðrum landsmönnum byrðar. Þegar búið er að gleðja sveitirnar með því að segja þeim, að þær geti ekki fengið raforkuveitur frá stórum rafstöðvum, að þær verði að vera án rafmagns, þar sem einstaklingarnir geta ekki reist smástöðvar, þá á að láta þær ábyrgjast lán til virkjunar fyrir þann hluta landsins, sem bezta aðstöðu hefir til að afla sér rafmagns. Þeim er ætlað að láta lánstraust sitt í té fyrir þann aðila, sem ekki ætti að þurfa á því að halda.

Blöð þau, sem styðja flokk hv. 1. flm., héldu því fram um skeið, að ríkið hefði ekkert lánstraust. Þegar taka þurfti lán til að rétta við lánsstofnanir landsbúa, sögðu þau, að stj. gæti það ekki, því að ríkið hefði enga tiltrú. Eftir að þessu hafði verið haldið fram, gerðist tvennt. Ríkið fær lán, og gengur það fremur vel. Það væri æskilegt, að Rvík gengi eins vel að fá lán án ábyrgðar ríkisins. Þrátt fyrir fádæma níðingshátt, sem fram kom gegn lánstrausti landsins, tókst stj. að útvega lán á þann háatt, að hún hlaut öfund þeirra manna, sem verri kjörum verða að sæta, þegar þeir þurfa að útvega lánsfé.

Svo þegar Rvík, sem hefir við þá aðstöðu að búa, sem fjármálastefna hv. 1. flm. og flokks hans hefir skapað, þegar höfuðborgin þarf að fá lán, verður hún strax að flýja til ríkisins til að fá hjálp. Íhaldsmenn hafa alltaf haft meirihlutavald í Rvík, þeir hafa mótað líf hennar og tiltrú. Þegar svo þessir menn þurfa út fyrir landsteinana til að útvega bænum lán, gefast þeir upp eftir fyrstu tilraun og hverfa bónleiðir til búðar. Rvík þarf að fá ábyrgð ríkisins, segja þeir, hún hefir enga tiltrú. Ríkisins, sem þeir höfðu fyrir skömmu haldið fram, að útlendingar þyrðu ekki að trúa fyrir svo miklu sem fimm aurum. Ég segi ekki, að hv. 1. flm. hafi sjálfur tekið þátt í lánstraustsróginum; ég hygg, að svo hafi alls ekki verið, en það voru hans nánustu samherjar, sem að þeim ódrengskap stóðu.

Forráðamenn Rvíkur hafa sýnt eftirtektarvert kjarkleysi og þolleysi við að útvega lán til Sogsvirkjunarinnar. Sem Rvíkingur vil ég algerlega mótmæla því, að Rvík geti ekki fengið lán án ríkisábyrgðar. Ég hefi þá trú, að Rvík geti sjálf leyst það mál, sem hér er um að ræða, og að hún eigi að gera það. Það er bænum til minnkunar, ef hann þarf að leita til annara um lánstraust.

Nefnd sú, sem send var út til að útvega Rvíkurbæ lán til Sogsvirkjunarinnar, leitaði ekki fyrir sér nema í einu landi, Svíþjóð. Þar segist hún hafa fengið þau svör, að þeir vildu ekkert eiga við Reykjavík, nema hún fengi ábyrgð ríkisins. En því leitaði hún þá ekki til Englands, Frakklands eða Bandaríkjanna? Það var engin ástæða til að gefast upp, fyrr en búið var að reyna í þessum þremur aðalpeningamarkaðslöndum heimsins.

Núverandi ríkisstj. var búin að undirbúa það í þrjú ár að taka 12 millj. kr. lánið. Hún gerði ráðstafanir til, að athugaðar væru markaðshorfur á peningamarkaði heimsins og grennslaðist eftir skilyrðum til lántöku á ýmsum stöðum.

Svo beið hún eftir heppilegum tíma. Því geta ekki forráðamenn Rvíkur farið eins að? Eða vilja þeir heldur fara að eins og þeir, sem tóku ókjaralánið mikla 1921? Lánið, sem hv. 1. þm. Skagf. var neyddur til að taka, gegn vilja sínum. Það lán var tekið of fljótt. Ef þá hefði verið farið að eins og núverandi stj. gerði, tekið fyrst bráðabirgðalán og beðið með aðallántökuna til heppilegri tíma, þá hefðu sennilega fengizt betri kjör.

Ég álít það jafnmóðgandi fyrir Rvíkinga, að leitað er eftir ríkisábyrgð fyrir þeirra hönd, eins og það er óheppilegt fyrir aðra landshluta að taka ábyrgðina á sig. Bergen, sem er ekki nema þrisvar sinnum stærri en Reykjavík, tók nýlega stórt lán, sem mjög hefir verið vitnað til hér, hvað hagstætt hafi verið. Ekki þurfti hún ríkisábyrgð. Ætti það að vera Reykjavík hvöt til að halda ótrauð í sömu átt og þessi frændborg hennar.

Ég er viss um, að hv. 1. flm., sem er talinn mikill fjáraflamaður og sem auk þess er bankastjóri, er vel kunnugt um það, að allar ábyrgðir eru meira en formsatriði. Honum er eflaust ljóst, að ef ríkið gengur í ábyrgð fyrir þessum 7–8 millj., verður á heimsmarkaðinum lítið svo á, að ríkið sjálft hafi tekið þær að láni. Það hafa sumir mikið talað um, hvað ríkisskuldirnar séu orðnar óhæfilega miklar. Með þessu frv. er gerð tilraun til að hækka þær. Út á við verða þau lán, sem ríkið gengur í ábyrgð fyrir, ekki talin annað en ríkisskuldir. Lánstraust landsins hlýtur að minnka um það, sem þeim upphæðum nemur.

Menn munu segja, að það sé mikill munur á að taka lán handa stofnunum, sem búizt er við að beri sig, og það er vitanlega rétt. En utanlands eru þau lán samt sem áður talin til ríkisskuldanna. Útlendum fjármálamönnum er mjög vel kunnugt um, hvað skuldir íslenzka ríkisins eru miklar, þó að þær hafi ekki allar verið taldar í landsreikningunum.

Það er í rauninni ekkert smámál, sem hér er um að ræða. Og ég er hissa, að hv. þm. Dal., sem allra manna flest orð hefir haft um það, að verja frelsi Íslendinga, skuli ekki nú láa sérstaklega til sín heyra. Því að hér er eiginlega um að ræða spor í áttina til þess hættulegasta innlimunarmáls, sem komið hefir til umr. á seinni árum. Það er ekki aðeins ábyrgð á þessum 8 millj. handa Rvík, sem hér kemur til greina. Ef hún er veitt, verður einnig að útvega nærliggjandi kauptúnum lán til að stækka aflstöðina og leiða rafmagnið til sín, þegar þau krefjast þess. Svo koma hinir kaupstaðirnir og segja: Við höfum tekið á okkur ábyrgð fyrir Rvíkinga, nú heimtum við líka ríkisábyrgð fyrir láni til virkjunar. Síðan koma nýjar kröfur víðsvegar um land, kjósendur hv. þm. í Dölunum og allir aðrir landsmenn og heimta hjálp til að fá rafmagn. Allir hafa nóg af fossum til að virkja og þörfina fyrir rafmagn, en fjármagnið vantar. Kröfum þessara manna getur Alþingi ekki með neinni sanngirni neitað, ef það hefir skyldað þá til að taka á sig byrðar vegna rafveitu handa Reykvíkingum, sem langbezta aðstöðu hafa til virkjunar. Ber þá að sama brunni og 1928, 80 millj. kostnaður fyrir landið.

Þá er komið að því, að landið er í svikamyllu, sem ekki getur stöðvazt nema á tvennan hátt; enginn vill lána, eins og nú er komið fyrir Rvík, eða þá að héruðin fengju lán, unz byrðin er orðin svo mikil, að landið sligast undir henni, verður gjaldþrota. Ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. skilur, að ef Rvík og Hafnarfjörður fá ábyrgð, þá er ekki hægt að neita öðrum um hana. Ég vil segja það um hv. 1. landsk., að hann reyndi að halda í þessu horfi og beitti sér á móti ríkisábyrgð, og álít ég, að hann hafi réttilega skilið þetta þá, hvað sem hann vill núna. Það er ekki spurningin, hvort þetta borgar sig fyrir Rvík, heldur hvort þingið getur tekið þetta á sig, því að það er ekki víst, hvort það borgar sig fyrir Rvík að taka 7 millj. kr. lán. Ég veit, að enginn þm. vill hindra Rvík í að taka lán, sem hún sjálf vill og getur risið undir.

Ég vil skjóta því fram, að ég tel þessa játningu hættulega, einkanlega ef hv. þm. vissu um þær tilraunir, sem Rvíkingar hafa gert til að afla sér smálána, og ekki fengið viðunandi kjör. Og að sögn hefir einn erl. lánveitandi bæjarins heimtað að fá að láta fylgjast með í reikningum bæjarins, ef hann hækkaði lánið. Ég tel óviðunandi, að firma, sem hefir skipt við bæinn, skuli ekki hafa meira traust á Rvík en svo, að það fer að tala um, að ekki sé þorandi að veita henni smávægilegt lán til bæjarins þarfa. Þetta er móðgun, sem enginn ætti að láta bjóða sér, en bærinn má búast við móðgunum af slíku tagi í framtíðinni, og er það óþolandi fyrir landið. Hv. flm. verður að gæta þess, að Rvík hefir ekki verið vel stjórnað, og þegar flokksmenn hans í bænum koma og biðja samborgara sína úti á landsbyggðinni að hjálpa sér út úr þessu feni, sem þeir eru í, þá er það harður dómur fyrir Rvík, þegar viðskiptamenn þeirra treysta þeim ekki. Ég býst við, að menn muni segja, að ef bænum væri vel stjórnað, væru þeir fúsari á ganga í ábyrgð, en Rvík hefir sýnt, á hún hefir ekki traust. Það, sem hv. flm. verða að gæta að, er það, að verkin tala móti íhaldsstjórninni á Reykjavík.

Þetta ástand Rvíkur og óstjórnin, sem er á fjármálum hennar og sem væntanlega heldur áfram, er stórt atriði viðvíkjandi þessari ábyrgð. T. d. ef maður kæmi til hv. 3. þm. Reykv. og bæði hann að skrifa upp á víxil fyrir sig, þá mundi hv. þm. kynna sér efnahagsastæður mannsins, og væru þær viðunandi, þá mundi hann skrifa upp á víxilinn; að öðrum kosti ekki.

En viðvíkjandi þessu fjármálahelsi, sem þjóðin er beðin að binda sér með skuldum, sem hún getur ekki risið undir, vil ég taka dæmi, sem ég skoða ekki sem neitt leyndarmál, og sýnir það, hverja ánægju beztu fyrirtækin hafa af því, er þau komast í miklar skuldir. Þetta dæmi er Eimskipafélagið. Það skuldar 2 millj. kr. í Khöfn og hollenzkum banka. Eimskipafél. hefir tryggt skipin í Khöfn, en við þá breytingu, sem orðið hefir á framkvæmdarstj. félagsins, var farið að leita fyrir sér um betri kosti í Englandi, og niðurstaðan varð sú, að fél. gat fengið betri kjör, sem svaraði 30 þús. kr. á ári, en þegar Eimskipafél. lét lánardrottna sína vita, að það ætlaði að skipta um, þá tilkynnti danski bankinn mjög elskulega, að auðvitað gætu þeir skipt, en þeir yrðu þá að borga skuldina upp — 2 millj. kr.

Sennilega verður Ísland í þetta sinn að beygja sig fyrir kúguninni; peningamennirnir leggja sverðið á metaskálarnar, og skuldunauturinn verður að lúka skuldinni. Landið hefir einu sinni verið kúgað, í sambandi við enska lánið, en það er ekki vafi á því, að ef landið heldur áfram að ganga óskynsamlega í ábyrgð og uppéta sitt lánstraust, þá kemur að því, að það fær sömu aðstöðu og Rvík hefir nú.