31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í C-deild Alþingistíðinda. (1605)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Sigurður Eggerz:

Það var hæstv. dómsmrh., sem gaf mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð. Hann sneri sérstaklega máli sínu til mín og spurði, hvort aðstaða mín í sjálfstæðismálum þjóðarinnar væri bara glamur, og vildi setja það fast í samband við þetta frv. Nú langar mig til þess að segja það, að í þessum virkjunarmálum er orðin merkileg stefnubreyting. Ég barðist á sínum tíma á móti því, að einstökum erlendum félögum væru veitt stórkostleg einkaleyfi til þess að koma hingað inn hundruðum milljóna, því að ég áleit það hættulegt fyrir sjálfstæði landsins. Hæstv. dómsmrh. stóð ekki á verði gegn þessari hættu, varaði ekki við henni með einu orði.

Sú hugsun, að vilja vinna ljós og hita úr vatnsföllum landsins fyrir eigið fé, er eðlileg. Hitt er allt annað mál, hvenær maður fer af stað og hvernig maður fer af stað. Það þarf að meta eftir verkfræðilegum rannsóknum og fjárhagslegri aðstöðu. Ástæðan til þess, að ég greiddi atkv. með því, að þetta mál væri nú tekið á dagskrá, er sú, að ég veit, að þessi hugsjón, að raflýsa bæi og sveitir, sem fyrst var borin fram af Sjálfstæðisflokknum, hefir bergmálað í öllum flokkum og meðal allrar íslenzku þjóðarinnar. Og þegar slíkt mál kemur fram, þarf að taka það sem fyrst fyrir, til þess að það verði íhugað vel og ekki kastað til þess höndunum. Þetta er eitt af þeim stórmálum, sem öll þjóðin fylgir með áhuga, og þótt komið hefði till. um að flytja það fyrr inn á dagskrána, þá hefði ég greitt atkv. með því.

Mér er ljóst, að sú leið er holl, sem er mörkuð með þessu frv., að landsins börn vinni sjálf á sinn kostnað vatnsöflin, sem bezt eru, til þess að leiða ljós og hita inn í byggðirnar. Ég hefi komið á bæi, sem áður voru ekki raflýstir, en eru það nú og aldrei hefi ég séð eins mikinn mismun. Þeir, sem hugsa um að stöðva hinn óholla straum úr sveitunum í kaupstaðina, mega vara sig á því að standa á móti því að skapa þau þægindi, sem ein geta stöðvað slíkan straum. Það er engin önnur leið en þessi, til þess að sveitirnar haldi áfram að vera sveitir.

Hæstv. dómsmrh. talaði í sambandi við ummæli sín um mig og sjálfstæðismálin um Eimskipafélag Íslands og vátryggingar þess. Ég hafði heyrt lausasögur um það í bænum, en þar sem hæstv. dómsmrh. hefir leitt það hér inn á Alþingi, óska ég eftir frekari upplýsingum um málið.

Eftir því, sem ég hefi heyrt, víkur málinu þannig við, að Eimskipafélagið hafði boðið út flota sinn til vátryggngar, og lægsta tilboð, sem kom, var frá Sjóvátryggingarfélagi Íslands. Munurinn á því og hinu næsta fyrir ofan var 37 þús. kr. Fyrir Eimskipafélag Íslands skiptir auðvitað ákaflega miklu máli að geta sparað 37 þús. kr. árlega í vátryggingunni. Þegar félagið ætlar svo að ganga að þessu boði, kemur Handelsbankinn, sem félagið skuldar, og segir: Ef þið takið þessa tryggingu, þá segjum við upp lánum hjá ykkur!

Hefir hæstv. dómsmrh. athugað, hvað hér er á ferð? Það er hvorki meira né minna en það, að danskur banki segist hafa svo mikla ótrú á Sjóvatryggingarfélagi Íslands, að ef flotinn er vátryggður þar, þá segir hann upp lánum sínum. Og þó hefir áður verið vátryggt hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands, en þá var dönsk endurtrygging á bak við, en nú var komin ensk baktrygging, sem er þó sterkari. En bara fyrir það, að þessi trygging er komin í staðinn, neitar bankinn að taka þetta gilt. Svo er sagt, að stj. hafi gengið í málið og niðurstaðan orðið sú, að vátryggingunni var skipt þannig, að Eimskipafélagið vátryggði helminginn hjá dönsku félögunum og helminginn hjá Sjóvatryggingarfélagi Íslands. En félagið verður samt að borga háa iðgjaldið, því að þegar Sjóvátryggingarfél. fékk aðeins helminginn, gat það ekki boðið lægra gjaldið. — Fyrir danska kúgun verður Eimskipafélagið að tapa 37 þús. kr. á ári!

Nú vil ég spyrja hæstv. stj., hvernig standi á því, að hún í þessu tilfelli reynir ekki að rétta hjálparhönd. Hæstv. dómsmrh. vildi nota þetta til þess að sýna, að Eimskipafelagið sé svo skuldum hlaðið, að það hafi orðið að beygja sig. Það er ekki von, að það sé svo sterkt, að það geti greitt fyrirvaralaust skuld sína til Handelsbankans, sem nam hér um bil 1200000 kr. En þegar á að beita félagið, óskabarn þjóðarinnar, slíkri kúgun, hví reynir stj. sjálf þá ekki að útvega því lán annarsstaðar, svo að það gæti tekið þessa vátryggingu? Og hvað hugsa Englendingarnir, þegar danskur banki tekur ekki gilda vátryggingu hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands? Þetta er bein árás á lánstraust þjóðarinnar.

Þess vegna vil ég beina alvarlega þeirri spurningu til stj., hvort hún hafi skilið, hvað hér er á ferðinni, og hvort hún hafi gert skyldu sína til þess að bjarga Eimskipafél. og virðingu ísl. þjóðarinnar. Mér virtist á hæstv. dómsmrh., að þetta hefði átt að vera ósigur fyrir Eimskipafélagið, en það er ósigur fyrir þjóðina. Og hæstv. stj. hefði átt að skilja, að henni bar skylda til þess að koma í veg fyrir slíka kúgun sem þessa, að svo miklu leyti sem hún gat. Sæmra var það heldur en að nota þetta til að gera lítið úr getu Eimskipafélagsins.