02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (1614)

66. mál, verslunaratvinna

Flm. (Jón Ólafsson):

Eins og grg. þessa frv. ber með sér, er það samið og undirbúið af Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur og Verzlunarmannafél. „Merkúr“ í Rvík. Við flm. höfum ekkert farið höndum um frv., en okkur þykir rétt að flytja það fyrir svo fjölmenna stétt, en erum óbundnir um breyt. á því.

Í lögum um verzlunaratvinnu frá 1925 er gert ráð fyrir, að af þeim, sem þessa atvinnu stunda, sé ekki krafizt annarar þekkingar en að þeir hafi vit á bókfærslu og vörum. En í þeim lögum er gert ráð fyrir, að nánara sé tiltekið um þetta í reglugerð, sem setja átti í samráði við Verzlunarráð Íslands og Samband ísl. samvinnufélaga. Auglýsing var sett um þetta efni, en verzlunarmönnum þykir þar ekki nógu langt gengið; sérstaklega varð þeim það að vonbrigðum, að ekki var þar gengið eins langt og lögin heimiluðu eða munu hafa ætlazt til.

Breytingar þessa frv. eru allvíðtækar og munu koma til með að orka nokkuð tvímælis. Í stað þess, að áður þurfti aðeins þekkingu á bókhaldi og vörum, er hér gert ráð fyrir, að menn hafi verzlunarpróf frá ekki lakari skólum en Verzlunarskólanum í Reykjavík eða Samvinnuskólanum. Auk þess er ætlazt til, að ef menn hafa ekki fengið þessa menntun, þá hafi þeir unnið ekki skemur en 3 ár við skrifstofu- eða verzlunarstörf og þá fengið vottorð 2 manna, sem skipaðir eiga að verða til þess að dæma um hæfni þeirra til verzlunarrekstrar. — Í þriðja lagi er menntaskólamönnum gert þetta kleift, ef þeir sanna þekkingu sína í bókfærslu.

Ég get verið sammála um það, að nauðsyn beri til þess, að menn séu sem bezt menntaðir í þessari stétt, því að þeir þurfa bæði að kunna það verklega og bóklega.

Annars er engin ástæða til þess að fara um þetta fleiri orðum. Málið verður sjálfsagt rætt ítarlega síðar í sambandi við annað frv., sem væntanlega kemur fyrir hv. d. og mun eiga hér samleið með. Ég óska, að málinu verði vísað til allshn., að umr. lokinni.