01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í C-deild Alþingistíðinda. (1621)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Gunnar Sigurðsson [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Árn. hefir fengið hjá mér þann hluta af ræðu minni um lög frá 1925 um vatnsorkusérleyfi, sem ég ætla að minna á. Ég ætla að ganga ítarlegar inn á málið.

Ég var einn meðal þeirra, sem börðust fyrir því, að hugsað var um rafmagn til virkjunar. Það var þegar ég bauð mig fyrst fram til Alþingis. Þá var ég utanflokka, en hafði þá sameiginlegt mál við Framsókn og hafði hennar stuðning; það var þetta rafmagnsmál. Mitt „program“ hefir að þessu leyti ekkert breytzt. Ég veit um áhuga manna á öllu Suðurlandi fyrir þessu máli, sem þrátt fyrir það, hvað tímarnir eru erfiðir, á framtíð fyrir sér.

Það er ekki hægt að deila um það, að ef á að byrja á virkjun í stórum stíl, þá á að byrja á Soginu, og Rvík á að byrja. Ekkert vatnsfall í Evrópu er eins vel fallið til virkjunar og Sogið. Ég skil þess vegna ekki, að menn geti verið andvígir virkjuninni, og enda þótt mér finnist anda kalt frá hæstv. fjmrh. og hæstv. dómsmrh., þá er það ekki meining þeirra í raun og veru að leggja stein í götu virkjunarinnar; það er ábyrgðin, sem er þeim þyrnir í augum, en að henni vík ég síðar.

Ég er sammála um það, að ég Rvík of seint hafa hafizt handa um það að taka Sogið sem aflgjafa, og tel það líka smámunasemi, ef frv. verður ekki breytt, þannig, að okkur Sunnlendingum verði það einnig til hagsmuna. Ég er sannfærður um, að Alþingi ætti að fagna því, að Rvík hefir loks hafizt handa.

Ég vil minnast á eitt atriði, sem er ef til vill stærsta atriði: Hver áhrif virkjunin geti haft á iðnaðinn í landinu. Við höfum skilyrði til iðnaðar á margan hátt, en undirstaðan er rafmagnið.

Það er feikna mikið atriði, hvernig unnt verður að draga úr fjarkreppunni, sem nú er; en það verður, til að draga úr vandræðunum, að veita peningastraum inn í landið, og er ég sammála þeim mönnum, sem tala í þá átt. Það getur aldrei verið óráð að ráðast í fyrirtæki, sem bera sig. Ég tala ópólitískt um þetta, en af því að pólitík hefir blandazt hér inn í, þá ætla ég að segja, að stj. hefir oft ráðizt í fyrirtæki, sem ég vil þakka henni fyrir. Sem dæmi nefni ég Arnarhvál, en hér er um miklu stærra fyrirtæki að ræða, sem miklu meiri hagnaður er af, a. m. k. óbeint, ef ekki beint.

Það er eitt atriði enn í þessu máli, sem máske er ekki svo vinsælt, vegna þess að það snertir hreppapólitíkina, en sem ekki verður gengið framhjá, að þetta verður til þess, að menn taka svæði til ræktunar og lifa við hagstæð kjör í sveitunum; sveitabúskapurinn færist saman í hvirfingu, fólkið flytur saman í heildir, t. d. í Þykkvabæ lifa menn bezt allra manna þar um slóðir.

Ég tek undir með hv. 1. þm. Árn., að leitt sé að hafa ekki nákvæma áætlun, en veit af þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið, að það munar ekki miklu þó að veitt sé rafmagni um Rangárvallasýslu, og ég veit með vissu, að ef Sogið verður virkjað, fáum við rafmagnið verulega ódýrt, og verður það miklu ódýrara en að virkja frá einstökum fossi, t. d. Tungufossi.

Ég vil aðeins berja niður þann ótta hjá hæstv. stj., að ekki komi til mála að ráðast í fyrirtæki eins og þetta á þessum tímum. Það er gott að fara varlega, en það má fara of varlega. Mér finnst þetta svartsýni og þykir leiðinlegt, að hér í d. skuli vera svo mikil bölsýni á hag þjóðarinnar. Auðvitað eru krepputímar, en þá ríður mest á að missa ekki kjarkinn og halda öllu í horfinu.

Ég vil benda á eitt dæmi. Ég man eftir ótrúnni, þegar síminn var lagður, en þegar ein stöð var komin, þá breiddist síminn út um allt land.

Það, sem ríkisstj. er mestur þyrnir í augum í þessu sambandi, er ábyrgðin, og skil ég það vel. Það er bezt að vera laus við hana. En þegar búið er að taka ábyrgð á tveimur bönkum, og jafnvel þeim þriðja, þá er ekki mikið að taka ábyrgð á þessu láni fyrir Rvíkurbæ, eingöngu til að létta á vöxtunum fyrir bæinn.

Ef Rvík færi á hausinn, þá getum við eins vel hætt að tala um fjármál hér á Alþingi, því að landið kemur þá strax á eftir.

Þó að ég sé frekar hlynntur sveitunum, þá finnst mér meiningarlaust að hatast við kaupstaðina, því að það kemur niður á öllu landinu; ef bæjunum gengur illa, þá gengur öllum landsmönnum illa.

Ég ætla ekki að koma með neina ákveðna till., heldur greiða málinu atkv. við 3. umr. og vita, hvort Rvík gæti ekki sýnt sveitakauptúnunum, sem að standa, meiri lipurð og sanngirni. — Ég óska að lokum, að Rvík auðnist að koma þessu máli í framkvæmd, hvort sem hún hefir ábyrgðarheimild eða ekki, því að þetta hefði hún átt að gera fyrir löngu.