01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í C-deild Alþingistíðinda. (1625)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Flm. (Jón Ólafsson):

Ég vil minnast á aths. hv. 1. þm. Árn. og hv. 2. þm. Rang. um, að það liti út fyrir, að réttur þeirra sýslna væri fyrir borð borinn. Ég get sagt, að í þessu frv. er ekkert, sem gengur á þann rétt, sem þessar sýslur eiga samkv. lögum til þessa fallvatns. Þess vegna er alveg óþarft fyrir forsrh. að ljósa yfir því, að hann færi ekki fram yfir það, sem lögin ákveða. Það er hans skylda, og hygg ég megi treysta því, að hann geri það ekki.

Aftur á móti var hv. 2. þm. Rang. að tala um það, hvort ekki væri hægt að breyta frv. þannig, að Rangæingar fengju meiri réttindi en nú felast í því. Kem ég ekki auga á það í bili, hvað hægt er að gera í þessa átt, en benda vil ég á það, að samkv. frv. er heim héruðum, sem liggja að Soginu, heimilt að ganga inn í virkjunina og fá þaðan rafmagn án þess að leggja einn eyri fram til virkjuninnar sjálfrar, og ef auka þarf virkjunina frá því, er hún var í fyrstu, til þess að þessi héruð geti fengið rafmagn, er Rvíkurbæ skylt að framkvæma aukninguna á sinn kostnað. Það er því engin ástæða fyrir Rangæinga eða önnur þessara héraða að vera að kvarta yfir því, að réttur þeirra sé fyrir borð borinn.

Það kom fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., að honum þótti rafmagnsmáli Rvíkinga hafa verið stýrt af lítilli fyrirhyggju. Verð ég að vera þar á öðru máli. Það er hægt að leggja of mikið undir sig, og ef hér hefði verið virkjað strax í upphafi meira en þörfin var fyrir, hefði af því getað leitt, að vaxtagreiðslur og afborganir hefðu numið meiru en kostnaðinum af nauðsynlegri viðbótarvirkjun. Hefði það verið að öllu leyti óhyggilegt, ef þetta hefði strax í byrjun verið sniðið fyrir aldna og óborna, eins og hver maður sér í hendi sinni, enda eigum við Íslendingar ekki þeim manni að má í fjármálum, að féð liggi hér í hrúgum arðlaust.

Þá sný ég mér að hæstv. dómsmrh. Hann var að tala um Rvíkurbæ og hversu illa málum bæjarins hefði verið stjórnað undanfarið. Skal ég ekki fara að þræta við hæstv. ráðh. um þessi efni, enda mun það tilgangslítið, en benda vil ég hæstv. dómsmrh. á það, að ef hann vildi rannsaka þetta nánar, mundi hann komast að raun um, að farið hefir verið gætilega í sakirnar í þessu máli sem öðrum málum bæjarins.

Hæstv. ráðh. breiddi sig mikið út yfir það, hve andstaða sjálfstæðismanna gegn Sogsvirkjuninni hefði verið mikil í fyrstu. Andstaða okkar sjálfstæðismanna beindist gegn allri fljótfærnislegri afgreiðslu á svo miklu máli, og mér virðist, sem hæstv. ráðh. hafi nú tekið að sér okkar hlutverk, því að það kom greinilega fram í ræðu hans, að hann vill ekki flana að neinu í þessu mali. En það er eins og hæstv. ráðh. athugi það ekki, að nú er um ekkert flan að ræða, því að nú hefir þetta mál verið rannsakað til það fullrar hlítar, að hægt er að samþ. það.

Þá komst hæstv. ráðh. inn á það í dag, eins og í hinni grautarkenndu ræðu sinni í gær, að borgarstjórinn hér í Reykjavík hefði farið þannig með fé bæjarins, að ástæða hefði verið til að höfða á hann sakamálsrannsókn. Ég hélt því fram þá, og held því fram enn, að þetta hafi verið gert að illa athuguðu máli og af slæmum vilja. Það var pínd fram kæra á hendur borgarstjóranum fyrir meðferð hans á fé bæjarins, og hún send til hlutaðeigandi yfirvalds, sem svo ekki sá sér fært að hreyfa málinu, enda var þess ekki að vænta, því að kæran var tilhæfulaus með öllu og aðeins fram komin í ákveðnum pólitískum tilgangi. En engu að síður spillti þessi kæra fyrir lánstrausti bæjarins, því að það þótti vitanlega tíðindum sæta, þegar sjálfur borgarstjórinn hér í Reykjavík var dreginn undir sakamálsrannsókn fyrir illa meðferð á fé bæjarins, og gaf það ekki neitt glæsilegar hugmyndir um fjármálastjórn bæjarins. Í framhaldi af þessu lét hæstv. ráðh. þess svo getið, að við sjálfstæðismenn hefðum mikla tilhneigingu til að hilma yfir hluti eins og þessa. Drap hæstv. ráðh. í því sambandi á Hnífsdalsmálið. Skal ég engu svara þessum aðdróttunum hæstv. dómsmrh. nú, enda snerta þær ekki þetta mál, en ef til vill gefst mér tækifæri til þess sínar. Þó vil ég geta þess, að þessi illa stjórn í fjármálum Rvíkurbæjar, sem hæstv. dómsmrh er alltaf að útmála, er ekki verri en það, að 1920 voru skuldlausar eignir bæjarins 5 millj. kr., en í árslok 1929 námu þær 10 millj. og 77 þús. kr. Sýnir þetta, að sæmilega hefir verið haldið á fjármunum bæjarins. Nú nema eignir bæjarins 19 millj. kr., en skuldirnar eru 9½ millj kr. og standa fyrir hafnarmannvirkjum, rafmagni, gasi o. fl. Gefa flestar þessar skuldir þannig margfaldan arð og borga sig niður hröðum skrefum. Sé tekið tillit til alls þessa, sjá menn, að þetta er einhver glæsilegasti „status“ nokkurs bæjar- eða sýslufélags á öllu landinu. En hæstv. dómsmrh. hefir aldrei getað unnað Reykjavík sannmælis fyrr né síðar og reynir stöðugt að rægja hana í augum þjóðarinnar. Er orsökin sennilega sú, að Rvíkingar hafa aldrei farið gálauslega með fé bæjarins, en sú stefna í fjármálum passar illa við eyðslustefnu hæstv. núverandi stj. og þykir því sjálfsagt að setja hornin í Reykjavík.

Ég held, að ég geti látið þessar aths. nægja enda hafa ekki komið fram neinar nýjar röksemdir gegn þessu máli frá því, er ég áður talaði. Að síðustu vildi ég aðeins beina nokkrum orðum til hæstv. forseta, hv. 1. þm. Árn. Hann virtist vera hræddur við málið vegna þess, að það hefði ekki verið nægilega rannsakað. En ég get fullvissað hæstv. forseta um það, að þetta mál hefir verið það vel rannsakað, að hann á ekkert á hættu fyrir kjördæmi sitt, þó að það nái fram að ganga. Verkfræðinganefndin, sem vinnur að þessum málum, mun bráðlega senda álit sitt um þessa virkjun sérstaklega, og eftir því, sem ég veit bezt, telur n., að það muni verða aðgengilegra fyrir þessi héruð, sem liggja að Soginu, að ganga inn í virkjunina síðar. Ég vænti þess því, að hæstv. forseti ljái málinu fylgi sitt.