01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í C-deild Alþingistíðinda. (1628)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Hákon Kristófersson:

Ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta lítilsháttar misskilning, sem kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh. í gær, þegar hann fór að bera þessa ábyrgð saman við ábyrgð, sem ríkið hefði átt að ganga í fyrir Patreksfjarðarhrepp á sínum tíma. (Dómsmrh.: Það var allt sagt í velviljuðum tón). Það má vel vera, enda var ekki við öðru að búast, þar sem hæstv. dómsmrh. er, en ég veit ekki til þess, að ríkið hafi gengið í nokkra ábyrgð fyrir Patreksfjarðarhrepp. (Dómsmrh.: Hefir það aldrei gert það?). Ekki svo ég viti til, en það skyldi gleðja mig, ef sú ábyrgð, sem Barðastrandarsýsla á sínum tíma gekk í fyrir Patreksfjarðarhrepp, á nú að færast yfir á ríkið. En hvað sem þessu líður, er þetta í engu sambærilegt því máli, sem hér liggur fyrir. Hæstv. dómsmrh. veit ósköp vel, að það þrengdi að Patreksfjarðarhreppi á stríðsárunum, vegna raflýsingar, sem hreppurinn var að koma upp hjá sér, af því að kostnaðurinn af þeim framkvæmdum þrefaldaðist. Leiddi þetta til þess, að sýslan varð að ganga í ábyrgð fyrir hreppinn. — Að öðru leyti skal ég ekki fara að blanda mér inn í þessar umr., en það verð ég þó að segja, að mér kemur það undarlega fyrir sjónir, ef ríkið á að fara að kippa að sér hendinni og neita sjálfri höfuðborginni um ábyrgð, sem vonandi yrði aðeins að formi til, til að koma á fót fyrirtæki, sem gefur af sér mikinn arð, þegar einstakar sýslur taka á sig meiri og minni ábyrgðir fyrir þá hreppa, sem til þeirra teljast.