01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í C-deild Alþingistíðinda. (1648)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er sjaldgæft að heyra hv. 2. þm. G.-K. víkja að málefnum landbúnaðarins, enda verður ekki annað sagt en að hann hafi gert það á þann hátt, sem við mátti búast. Aðalinntak ræðu hans var, að allt, sem gert hefði verið fyrir landbúnaðinn til þessa hefði verið unnið fyrir gíg. (ÓTh: Vitleysa!) Ef hv. 2. þm. G.-K. er alvara með þetta, byggist þetta á ákaflega miklum ókunnugleika og misskilningi.

Engum þeim, sem til þekkir, dylst, að aðstaða sveitanna hefir stórum batnað hin síðustu ár og framfarahugur þar aukizt. Allir vita, að í sæmilegu árferði mega sveitirnar vænta mikilla framfara. (ÓTh: Ég var einmitt að víta hæstv. dómsmrh. fyrir svartsýni). Og kreppa sú, sem nú stendur yfir, hefir til þessa komið alvarlegar við sjávarsíðuna en sveitirnar.

Hv. 2. þm. G.-K. talaði um, að við framsóknarmenn værum að gera rafmagnsmálið að kosningamáli og brá okkur um loddaraskap í því sambandi. Ég held, að þau ummæli ættu betur við hv. þm. sjálfan og hans flokk, ef farið er að nota þau hér. Í sambandi við þetta mál hafa skeð undarlegir og eftirtektarverðir hlutir, sem þörf er á, að þjóðin athugi áður en hún gengur til næstu kosninga.

Fyrir 2–3 árum kom flokkur hv. 2. þm. G.-K. fram með sitt stóra mál: rafveitur í sveitum. (MG: Ekki stóðu kosningar þá fyrir dyrum). Landskjörið átti að fara fram árið eftir, og svo var gott að hafa tímann fyrir sér með tilliti til næstu almennu kosninga. Hv. 1. landsk. þar málið fram, og mikið veður var gert úr þessu máli í blöðum Íhaldsins. Sveitum var lofað ljósi og hita inn á hvert heimili, ef þær vildu fylgja Íhaldinu. Frv. var mjög flausturslegt og af vanefnum gert, sem eðlilegt var, þar sem það var eingöngu borið fram vegna skorts á vinsælum stefnumálum Íhaldsflokksins. Við framsóknarmenn reyndum að bæta um þennan vanskapnað, og stjórnin skipaði nefnd til að taka rafmagnsmálið í heild til athugunar. Hjá okkur var því engum loddaraskap til að dreifa. Í þessari nefnd átti hv. 1. landsk. sæti, meðal annara. Nefndin tók málið til athugunar. Síðan var skipuð undirnefnd í málið. Hv. 1. landsk. átti einnig sæti í henni. Frá henni kemur svo þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og hvað er svo farið fram á í þessu frv.? Er það hiti og ljós handa sveitunum? Nei, það er hiti og ljós handa Rvík. (MG: Vitleysa!). Það á samkv. frv. að gefa Rvík 7 millj. kr. ábyrgð fyrir láni til rafveitu, en alveg gengið framhjá sveitunum. Þetta kemur frá hv. 1. landsk. Frv. gengur ekki út á annað en þetta, þótt einhverjar bollaleggingar um rafveitur í næstu sýslum sé í grg. frv. Í frv. er beðið um sérleyfi handa Rvík einni, og þar með er gengið á móti anda sérleyfislöggjafarinnar, eins og hv. 1. þm. Árn. og hv. 2. þm. Rang. hafa þegar bent á. Í sérleyfislöggjöfinni er ætlazt til, að sérstakt tillit sé tekið til þeirra héraða, sem fallvötnin eru í. Nú er ætlazt til, að ábyrgð sé tekin á 7 millj. kr. fyrir Rvík eina til rafvirkjunar. Þetta er einhver sá hlægilegasti og óviturlegasti loddaraskapur í pólitík, sem sögur fara af hér á landi. Og að þessu standa hv. 1. landsk. og flokksmenn hans. Herópið gamla: Hiti og ljós handa sveitunum! er orðið: Hiti og ljós handa Rvík einni og ekki handa sveitunum. (JAJ: Hæstv. ráðh. treystir því, að menn hafi ekki lesið frv.). Er máske verið að sækja um sérleyfi og ábyrgð fyrir héruðin í frv.?

Auðvitað kemur ekki annað til mála en að fylgja sérleyfislögunum í þessu máli og tryggja rétt héraðanna, sem frv. vill bera fyrir borð, áður en nokkur ábyrgð eða sérleyfi verður veitt.

Ég tel gott, að Íhaldsfl. skyldi sýna sitt sanna innræti í þessu máli fyrir kosningarnar.