01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í C-deild Alþingistíðinda. (1649)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þetta mál virðist vera borið fram af miklu kappi, og þótt undarlegt sé, virðast það einkum vera fylgismenn málsins, sem tefja fyrir því, að það komizt sem fyrst gegnum þessa umr. (HV: Hæstv. ráðh. mundi fyrir löngu var búinn að tala sig dauðan, ef hann yrði að fylgja sömu reglum og aðrir). Ég mun ekki láta hv. 2. þm. Reykv. ráða því, hvað ég segi hér. Og þótt honum hafi tekizt með ofríki að koma þessu máli á dagskrá nú, er ekki þar með sagt, að hann geti beitt ofríki til að koma því fyrr gegnum þingið en ella mundi hafa orðið. Hæstv. forsrh. hefir svo rækilega svarað aðdróttunum hv. 2. þm. G.-K. til Framsóknarflokksins um loddaraskap í þessu máli, að ég hefi þar engu við að bæta. Hv. 2. þm. G.-K. er oft óheppinn, er hann grípur til skemmtilegra orðatiltækja, því að þau vilja gjarnan koma í koll honum sjálfum seinna.

Það er einkennilegt, hve fylgismönnum þessa frv. hefir orðið tíðrætt um ljós og hita fyrir sveitirnar í sambandi við það, einkum þó hv. þm. Dal. Ég er hræddur um, að lítið ljós kvikni í Dölum vestur af þessu frv. (SE: Mesti misskilningur).

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um í gær, að leiðslan frá Soginu lægi yfir Árnessýslu á stóru svæði og mikill hluti Árnessýslu mundi njóta góðs af þessu. (HV: Ég minnist ekki að hafa sagt þetta). Ég fer þó rétt með þetta, af því að ég skrifaði þetta hjá mér. Þetta er auðvitað ekkert annað en lokleysa hjá hv. þm., því að enginn bær í Árnessýslu hefir gagn af þessari leiðslu. Það hefir ennfremur verið talað um línu frá Soginu niður á Eyrarbakka og Stokkseyri og jafnvel út í Vestmannaeyjar. Auðvitað myndu kauptúnin njóta góðs af þessu, en þetta kæmi ekki nema örfáum sveitabæjum að notum. Þótt leiðsla af aðallínu sé ekki nema einn km., verður hún svo dýr, að varla er viðlit fyrir nokkurt sveitaheimili að standa straum af slíku. Þetta verður ekki hrakið, enda hefir þetta verið athugað í rafmagnsnefndinni.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að línurnar kæmu af sjálfu sér, þegar búið væri að samþykkja þetta frv. og Sogsvirkjunin væri komin í gang. En það þarf áreiðanlega meira til en samþykkt þessa frv., að svo verði.

Hv. 2. þm. G.-K. fór að bera saman fjárhag Rvíkur og ríkissjóðs. Ég hafði ekki gefið honum tilefni til þess samanburðar. Það hefir vitanlega ekkert gildi, þó að hann slái fram órökstuddum fullyrðingum um þessi efni. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem þessi hv. þm. hleypur með Gróusögur til að gera fjárhagsástand ríkissjóðs tortryggilegt, bæði utanlands og innan. Hann talaði um veðsetningu í sambandi við síðasta lán og gaf í skyn, að stj. hefði gefið einhver loforð, sem meinuðu henni að takast á hendur þessa ábyrgð fyrir Rvík. Ég hefi lagt samningana um lánið fyrir fjhn. Nd., og um það eru engir aðrir samningar til en þeir, sem n. hefir fengið. Ég má segja, að hv. 2. þm. G.-K. er í n. (ÓTh: Ég hefi lesið samningana og séð, að tekjur og eignir ríkissjóðs eru veðsettar). Það eru vísvitandi tilhæfulaus ósannindi, að nokkur veðsetning sé fólgin í samningnum. Hv. þm. veit þetta ósköp vel, en honum er sízt of gott að þjóna lund sinni með því að reyna að koma þessu inn hjá fólki, sem ekki hefir aðstöðu til þess að kynna sér þetta af eigin rammleik, en vita skal hann það, hv. þm., að ekki mun honum stoða að hlaupa með þvílíkar staðhæfingar inn fyrir vébönd þingsins, því að samningurinn hefir verið látinn af hendi við fjhn. þingsins, og þar geta þeir hv. þm., sem meta sannleikann nokkurs, kynnt sér þetta mál af eigin raun. Samningurinn er ekkert launungarmál; allt er í honum skráð, sem varðar rétta mál, og ekkert undan dregið. Þar geta menn fengið að vita allt hið sanna og rétta um þetta mál. En um hv. 2. þm. G.-K. vil ég að öðru leyti segja það, að framkoma hans í þessu máli er svo sem ekkert einsdæmi, því að hann hefir jafnan gengið ótrauður fram fyrir skjöldu þeirra manna og flokka hér á landi, sem ekki hafa svifizt þess að rægja og spilla áliti og trausti landsins út á við á hinn lúalegasta hátt, í þeim tilgangi að gera núv. stj. erfiðara fyrir um að afla þess lánsfjár, sem þingið hafði lagt fyrir hana að útvega. Það er annars óþarfi að ræða um þetta atriði í sambandi við það mál, sem nú er á dagskrá, því að það mun síðar og í öðru sambandi koma til frekari umr., og gefst þá hv. 2. þm. G.-K. kostur á að svara til sakar fyrir afskipti sín og flokksmanna sinna af þessum málum.

Ég get ekki betur séð en að þetta mál sé svo stórt og viðurhlutamikið, að full ástæða væri til þess að vísa því til n. til frekari athugunar. Ég get heldur ekki séð, að það sé forsvaranleg afgreiðsla á málinu, þótt einhver hluti n. taki við því af öðrum mönnum utan þings og flytji það hér í þinginu, ef það má ekki fá sérstaka athugun í n. sem önnur mál. Slíkt brjótur algerlega í bág við eðli og anda þingskapanna. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleirum orðum um þetta mál, að svo stöddu. Ég get vel búizt við því, að hv. flm. þykist eiga eitthvað ósagt enn, en tæplega neitt það, er gefi sérstaklega tilefni til andsvara, og mun ég því láta útrætt um þetta mál, þar til við síðari umr.