25.02.1931
Efri deild: 9. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í C-deild Alþingistíðinda. (1665)

36. mál, einkasala á tóbaki og eldspýtum

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir um einkasölu á tóbaki, er ekki nýr gestur hér í þinginu. Það hefir einnig verið á dagskrá undanfarandi þinga, og það alllengi.

Þetta mál á sér nokkuð aðra þingsögu en ýms önnur, eða jafnvel flest önnur mál. Allir flokkar þingsins hafa talið sig stuðningsmenn þess á einhverjum tíma, og talið málið sitt mál. Einkasalan var lögleidd á þinginu 1921. Þá átti hún sterkast fylgi hjá íhaldinu í þinginu, og var það fjármálaráðherra þess, sem þá bar frv. um einkasölu á tóbaki fram til sigurs. Einkasalan stóð svo þar til hún var afnumin á þinginu 1925. Var það Framsóknarflokkurinn, sem fastast stóð á móti því, að lögin væru afnumin. Þá voru það fyrstu feður þessarar hugmyndar, sem fastast stóðu að drápinu. Jafnaðarmenn eru þeir einu, er sýnt hafa þessu máli fulla tryggð, að því er virðist. Þeir hafa borið frv. um einkasölu á tóbaki fram á síðustu þingum. En Framsóknarflokkurinn hefir í síðari tíð ekki virzt vera eins einhuga um að fylgja þessu máli fram til sigurs eins og hann var ákveðinn í mótspyrnunni gegn því, að einkasalan væri lögð niður 1925.

Þegar frv. um þetta efni var borið fram á þinginu 1929, mælti fjmrh. á móti því, að frv. væri gert að lögum á því þingi. Ástæðan var sú, að hann vildi bíða eftir till. mþn. í tolla- og skattamálum, sem þá hafði ekki lokið störfum. Vildi hann heyra tillögur þeirrar nefndar um þetta mál. En sú ástæða var niður fallin á síðasta þingi, því þá hafði n. lokið störfum og meiri hl. hennar, fulltrúar framsóknar- og jafnaðarmanna, lagt til, að tóbakseinkasala væri upp tekin, til þess að afla ríkissjóði tekna. En frv. um það á síðasta þingi fékk þó þá einkennilegu afgreiðslu, að eftir að búið var að koma því í gegnum Nd. og samþykkja það við tvær umr. í Ed., og aðeins 3. umr. var eftir hér til þess að það yrði að lögum, þá dagar það uppi, eða er látið gera það. Afgreiðsla þess þurfti þó ekki að taka nema nokkrar mínútur. Þetta var gert með vilja Framsóknar og vitanlega með sterkum vilja Íhaldsins.

Nú hafa jafnaðarmenn borið þetta frv. fram enn á ný, í því trausti, að þingið fallist á þá og fylgi þeirri skoðun, sem virzt hefir ríkja hjá öllum flokkum, a. m. k. ákveðnum tímabilum. Í grg. frv. frá 1921 er tekið fram, að tilgangurinn með frv. sem. a. sá, að létta skattana — ég geri ráð fyrir, að þar sé einkum átt við óbeinu skattana — og afla ríkinu tekna á þennan hátt. Sú ástæða er enn í fullu gildi, og engu síður nú en þá. Nauðsyn þess að létta á óbeinu sköttunum er mest, þegar atvinnuleysi og þrengingar vega að almenningi. Óbeinu skattarnir koma jafnan harðast niður á fátækustu mönnunum, og það jafnt, þótt hart sé í ári. — Ég vil í þessu sambandi minna á orð þau, sem hæstv. fjmrh. lét falla í fjárlagaræðu sinni, er hann vék að kreppu atvinnuveganna. Hann sagði, að annarsvegar væri hátt kaupgjald, en hinsvegar lagt verð á framleiðsluvörunum. Það má líka segja, að hin vinnandi stétt verði fyrir kreppunni á tvær hliðar. Annarsvegar er atvinnuleysi, hinsvegar eru þungir neyzlutollar. Þingið ætti því að gera sitt til að létta tollana, eftir því sem föng eru a. Og það getur nokkuð að gert til að létta erfiðleikana hvað skattálögurnar snertir, þótt það ráði ekki yfir verði framleiðsluvaranna.

Á undanförnum þingum hefir nokkuð verið um það deilt, hverjar tekjur verða mundu af einkasölu á tóbaki. Engin gild rök hafa þó verið færð gegn því, að hægt væri að ná tekjum með einkasölu á tóbaki. Og þótt þær tekjur næmu eigi meiru en 200 þús. kr., sem að vísu er ekki há upphæð miðað við þarfir ríkisins, þá er það þó fúlga, sem rétt er að hirða.

Þá höfum við einnig lagt til, að tekin væri upp einkasala á eldspýtum. Ætti sú sala að auka tekjurnar að nokkrum mun.

Þar sem mikið hefir verið rætt um efni þessa frv. á undanförnum þingum, sé ég eigi ástæðu til að lengja mál mitt við þessa umr., nema tilefni verði gefið. — Legg ég svo til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til fjhn.