25.02.1931
Efri deild: 9. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í C-deild Alþingistíðinda. (1666)

36. mál, einkasala á tóbaki og eldspýtum

Jón Þorláksson:

Ég vil, þar sem hv. flm. hefir haldið nokkuð langa ræðu um þetta frv., aðeins minna á, að á fyrri þingum hafa bæði í umr. og nál. verið færð bæði skýr og ótvíræð rök fyrir því, að einkasala á tóbaki mundi ekki verða til að auka tekjur ríkissjóðs. Um einkasölu á eldspýtum hefir ekki verið að ræða fyrr en nú. Um það atriði er því engar upplýsingar að sækja í meðferð málsins á undanförnum þingum. Fyrsta eða fyrstu árin eftir að einkasölufyrirkomulag væri tekið upp, mundi það jafnvel skerða tekjur ríkisins að miklum mun. Er það alveg augljóst mál og ómótmælanlegt. — Ég vildi aðeins minna á þetta, án þess að fara lengra út í þetta mál að sinni.