27.02.1931
Efri deild: 11. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í C-deild Alþingistíðinda. (1675)

51. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum o. fl.

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv. um forkaupsrétt á hafnarmannvirkjum o. fl. hefir legið fyrir hv. d. fyrr en nú. Fyrst var það borið fram á þinginu 1927, og þá var það afgr í d. með nokkrum breyt., sem allshn. lagði til, en í henni sátu þá hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) og hv. þm. Vestm. (JJós). Í Nd. fékk þetta frv. þá allgóðar viðtökur, því að meiri hl. allsh. þeirrar d. lagði til, að það yrði samþ. með litlum eða engum breytingum. En þrátt fyrir það dagaði það uppi. Árið 1929 var það samþ. óbreytt frá Ed. og með litlum breyt. frá allshn. í Nd., en varð ekki útrætt. Í fyrra var málið borið fram í Nd. og fellt. En þar sem frv. hefir fengið svo góðar undirtektir, sérstaklega í þessari hv. d., þykir vera gild ástæða til að vona, að nú sé loks hægt að koma því fram.

Dálítil breyt. hefir verið gerð á frv. frá því að það var samþ. hér síðast. Sett hefir verið inn ákvæði um forleigurétt. Það virðist full ástæða til að heimila bæjarstjórnum og sveitarstjórnum að ná einnig forleigurétti, þar sem svo stendur á, að lönd eru leigð til langs tíma, jafnvel um tugi ára, eins og mun eiga sér stað í kaupstöðum og sjávarþorpum víða hér á landi.

Af því að frv. er svo kunnugt og hefir fengið svo góðar undirtektir í hv. d., ætti ekki að þurfa að mæla lengi með því að svo stöddu. Og að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til allshn., sem það hefir legið fyrir á undanförnum þingum.