18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í C-deild Alþingistíðinda. (1680)

51. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Eins og nál. á þskj. 167 ber með sér, hefi ég ekki getað orðið sammála hv. meðnm. mínum í allshn. um afgreiðslu þessa frv. Ég hefi ekki getað komið auga á neina knýjandi nauðsyn eða rök fyrir því, að setja þurfi lög um þetta efni.

Þetta frv. er nú svo oft búið að koma fyrir Alþingi áður, þar sem þetta mun nú vera í fimmta skiptið, sem það er borið fram, að það sýnist ástæðulaust að hafa langar umr. um það. Þær yrðu ekki annað en endurtekningar á því, sem áður hefir verið sagt um málið. Þó vil ég með örfáum orðum gera grein fyrir skoðun minni á frv. og hvernig á því stendur, að ég hefi ekki séð mér fært að fylgja því. Eins og kunnugt er, er mælt svo fyrir í 63. gr. stjskr., að einstaklingar séu skyldir að láta af hendi eignir sínar, ef almenningsþörf krefst þess, enda komi fullt verð fyrir. Þetta ákvæði hefir jafnan verið skilið mjög frjálslega. Ef hið opinbera hefir farið fram á að fá einhverja eign samkv. þessu ákvæði, þá hefir sjaldan verið krafizt, að mjög sterk rök væru færð fyrir almenningsþörfinni. Víða er með lögum gefin almenn heimild fyrir eignarnámi á tilteknum stöðum, en sé slík almenn heimild eigi til, mun að jafnaði auðvelt að fá samþ. sérstaka eignarnámsheimild, svo framarlega, sem um raunverulega þörf er að ræða. Ætla ég, að bæjar- og sveitar-félögum nægi þessi réttur til þess að þau geti komizt yfir þær eignir innan sinna lögsagnarumdæma, sem þeim er þörf að ná eignarhaldi á.

Hitt tel ég aftur á móti, að geti orðið varhugavert, að stuðla til þess með lögum, að hið opinbera, hvort það eru bæjar- eða sveitarfélög, fari að „spekulera“ í því að kaupa fasteignir í þeirri von, að gróði verði af þeim einhverntíma í framtíðinni, sem vitanlega gæti brugðið til beggja vona með.

Ég vil nú ekki halda því fram, að mikil hætta stafi af því, þó frv. þetta næði fram að ganga. En lög á nú fyrst og fremst því aðeins að setja, að einhver þörf sé fyrir þau. og að öllu athuguðu hygg ég auk þess, að ógagn það, er lögin mundu gera, yrði meira en sem nemur kostunum. Það er ekki alveg óhugsandi eins og nú er háttað um stjórnmál hér á landi, að meiri hl. í bæjarstjórn notaði aðstöðu sína til þess að láta bæjarfélagið ná yfirráðum yfir eignum í þeim tilgangi að gera pólitískum andstæðingum erfitt fyrir með atvinnurekstur. Þá má og benda á ýms óþægindi, sem af því gæti leitt, ef seljendur og kaupendur fasteigna vissu ekki um þær kvaðir, sem á eignunum hvíldu, en eins og frv. er nú úr garði gert gæti hæglega svo farið. Vil ég benda n. á það, ef útlit er fyrir, að frv. verði að lögum, að nauðsynlegt væri að bæta inn í það ákvæði um, að skylt væri að þinglesa samþykktir bæjar- og sveitarstjórna samkv. 1. gr. frv.

Að endingu vil ég benda á það, að forkaupsrétturinn er oft þýðingarlítill, því eins og mönnum er kunnugt, þá tíðkast það nokkuð, að eignir séu boðnar hærra verði þeim, er forkaupsrétt hafa, heldur en þær raunverulega eru seldar fyrir. Ég er hræddur um, að Akureyrarkaupstaður, sem þetta frv. mun vera miðað við og samið með ákveðið tilfelli fyrir augum, hefði ekkert verið betur farinn, þó þessi lög hefðu verið til á þeim tíma, þegar sú eign var seld, sem miðað er við í frv., og ég er sannfærður um, að Akureyrarkaupstaður hefði aldrei fengið eignarráðin fyrir sama verð og eignin var seld fyrir.

Það er ekki eðlilegt að búast við því, að bæjar- og sveitarfélög hafi betri aðstöðu til að „interessera“ sig fyrir slíkum efnum heldur en einstaklingar. Með því væri gengið of langt í því að leggja höft á eignarrétt og atvinnufrelsi manna.