18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í C-deild Alþingistíðinda. (1682)

51. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Hv. flm. hóf mál sitt á því að segja það, að ég væri algerlega mótfallinn því, að bæjarstjórnir gætu náð í og látið bæinn kaupa lendur og lóðir. En þetta er alger misskilningur. Ég gaf ekkert tilefni til þess, að hv. þm. gæti eignað mér þessa skoðun, heldur þvert á móti. Ég taldi einmitt, að slíkt gæti verið nauðsynlegt undir ýmsum kringumstæðum. En ég taldi, að þessu mætti ná með ákvæðum gildandi laga, sem hafa viðtekið eignarnámsheimild í þessu skyni. Þá er og önnur leið til að sama marki, sem hv. þm. gekk alveg fram hjá. Hún er sú, að bæjarfélögin geti náð eignarrétti á því, sem í frv. greinir, án eignarnámsheimildar og án forkaupsréttar, á venjulegan hátt, með frjálsum samningi eins og hver annar kaupandi. Hv. þm. taldi upp eignir, sem væru til sölu á Akureyri, sem gæti verið til hagsmuna fyrir bæinn að eignast. Ég sé nú ekki, að til þess að eignast þessar eignir þurfi bærinn annað að gera en að semja um kaup á þeim við eigendurna. Ég held, að bæjarfélögin eigi yfirleitt betri skilyrði fyrir því að ná kaupum á fasteignum heldur en einstakir menn. Þau eru venjulega betri kaupendur en einstaklingar, eiga hægra með greiðslur o. s. frv. Það er sannfæring mín, að ef um það er að ræða, að bæjarfélög þurfi að ná kaupum á fasteign, sem er til sölu, þá sé hagkvæmari leið að semja við seljanda heldur en þó það hefði rétt til að ganga inn í þau tilboð, sem aðrir hafa gert. — Það má víst heita svo, að það sé næstum föst regla, að farið sé í kringum forkaupsréttarákvæðið, með því að hækka verðið frá því, sem kaupandi hefir boðið.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. þekkir nokkurt dæmi þess, að neitað hafi verið um eignarnámsheimild fyrir kaupstað eða kauptún á lendum, sem hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélag hefir talið sér nauðsynlegt að ná eignarrétti yfir. Ég efast um, að slíkri beiðni yrði nokkurntíma neitað, ef færð væru sæmileg rök fyrir því, að hagsmunum bæjar- eða sveitarfélagsins væri betur borgið með því, að það ætti landið, fremur en einstaklingar. Og ég efast ekkert um það, að í einstökum tilfellum væri hægt að færa góð rök fyrir þessu. Ég fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því, að bæjarfélögin eignist fasteignir. Ég veit, að í nánari eða fjarlægari framtíð getur komið sér vel fyrir bæjarfélögin að ráða yfir vissum eignum innan lögsagnarumdæmisins. — Í sambandi við það skal ég minna á, að það er ekki alveg skýrt tekið fram í frv., að forkaupsrétturinn nái eingöngu til fasteigna innan lögsagnarumdæmisins. Ég mun hafa haft það á orði við n., að þetta þyrfti að taka skýrara fram, ef frv. verður samþ.

Ég minntist á í fyrri ræðu minni, að bæjarstjórn gæti notað þessa heimild, til þess að útiloka vissan mann til þess að ná kaupum á fasteign. Hv. flm. sagði, að það kæmi því aðeins fyrir, að um einokunaraðstöðu væri að ræða, og þá væri slík aðstaða betur komin hjá bæjarfélaginu. En þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Það gætu verið ýmsar aðrar fasteignir til, sem hægt væri að nota við samskonar atvinnurekstur, þótt þessi sami maður hefði engin tök á að ná umráðarétti yfir þeim. Ég sé heldur ekki, að það þurfi að vera umhyggja fyrir almenningsheill, sem jafnan lægi bak við ákvarðanir bæjarstjórnar, þegar slíkt væri gert. Það gætu allt eins verið önnur sjónarmið, sem lægju að baki þeim ákvörðunum.

Hv. þm. þarf ekki að ásaka mig fyrir það, þótt ég kæmi ekki fram með brtt. við frv., enda þó ég benti á, að þess væri þörf. Til þess er ekki hægt að ætlazt af mér, þar sem ég álít, að það eigi að fella frv. Það verk er því hinna, sem ætlast til, að það verði samþ. — Ég sé svo enga ástæðu til að ræða frekar um þetta mál.