18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í C-deild Alþingistíðinda. (1684)

51. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á, að ekki er hægt að bera saman eignarnám og forkaupsrétt. Hv. þm. sagði, að það væri betra að fá í eitt skipti fyrir öll úrlausn á þessum málum, heldur en að verða að vísa því til þingsins í hvert sinn. En hann verður að gæta þess, að eftir ákv. þessa frv. geta bæjarfél. því aðeins náð kaupum á eign, að það eigi að selja hana. Annar kaupandi verður að hafa fengizt og getur þá viðkomandi bæjarfélag gengið inn í kaupin. Annað skilyrði fyrir því, að fært sé að ganga inn í kaupin, er, að verðið sé hæfilegt. Þetta frv., þótt að l. verði, veitir því enga tryggingu fyrir því, að bæjarfél. fái þær eignir, er það þarfnast. En beiðni um eignarnámsheimild er stíluð á ákveðna eign, sem þörf er talin á fyrir bæjarfél. að eignast. Sé heimildin veitt, þá meta dómkvaddir menn eignina til verðs og á með þessu að vera fengin trygging fyrir því, að hið opinbera geti eignast þau lönd eða mannvirki, sem það raunverulega þarf að hafa umráð yfir, fyrir sannvirði.