27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í C-deild Alþingistíðinda. (1730)

88. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Ég tók það fram í ræðu minni, sem hv. þm. Ísaf. var að spyrja um. Sú aðferð, sem hér er stungið upp á að viðhafa, hefir verið viðhöfð áður. Ef hv. þm. flettir upp þingtíðindunum frá 1925, þá sér hann, að þá var Þjóðverja einum veittur ríkisborgararéttur með þessu skilyrði. Það hefir verið siður og á þannig að vera, að menn fái ekki ríkisborgararétt fyrr en vist er, að þeir eru lausir við hann þar, sem þeir eru fæddir. (HG: Ekki mun þetta skilyrði hafa verið sett á þingi í fyrra). En ætli þá hafi ekki legið fyrir yfirlýsing um, að þeir, sem þá öðluðust ríkisborgararétt, hafi gert ráðstafanir til að leysa sig undan honum annarsstaðar ? Aðferðina frá 1925 er hyggilegt að taka upp sem reglu. Það getur ekki heldur kostað menn mikla fyrirhöfn að útvega slíka yfirlýsingu.