30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í C-deild Alþingistíðinda. (1739)

88. mál, ríkisborgararéttur

Jón Auðunn Jónsson:

Mér barst hingað suður með síðasta pósti frá Ísafirði beiðni frá hr. Gunnari Axelson verzlunarstjóra á Ísafirði, um að honum verði veittur ríkisborgararéttur hér á landi. Ég hefi borið þessa beiðni undir hv. allshn. og hefi nú fengið samþykki allra nm. um hana. Brtt. fer fram á hin sömu réttindi fyrir þennan mann og aðra, sem nefndir eru í frv. um ríkisborgararétt. Þessi maður er fæddur í Noregi og fluttist hingað í ársbyrjun 1925. Hann er giftur íslenzkri konu, kann og skilur íslenzka tungu. Með umsókninni fylgir vottorð um, að hann hafi eigi þegið af sveit, sé áreiðanlegur maður og vandaður. Vænti ég þess, að hv. d. sjái sér fært, þar sem allshn. hefir fallizt á að taka hann með í frv., að samþykkja, að hann fái umbeðin réttindi.