16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í C-deild Alþingistíðinda. (1763)

137. mál, fimmtardómur

Jón Þorláksson:

Ég tek til máls aðallega vegna þeirra ummæla hv. 4. landsk., að nú væru burtu numin úr frv. þau ákvæði, sem verið höfðu í því í fyrra og brytu í bága við stjórnarskrána. Þetta verð ég að álíta vafasamt. Ég vil leiða athygli hv. dm. að því, að ef ákvæði 4. liðs 8. gr. frv. á að skilja svo, sem næst liggur, að ekki megi eldri dómarar en sextugir eiga sæti í réttinum, þá er alls ekki hægt að samræma það stjskr. eins og hún er nú. Sérstaklega er ákvæði þetta í fullu ósamræmi við stjskr., þar sem ákvæði vantar í löggjöfina um það, hvað verða skuli um þá dómara, sem verða að víkja úr dóminum vegna þess að þeir eru orðnir sextugir. Stjskr. tryggir sjálfstæði dómaranna, þar sem þar er ákveðið í 57. gr., að eigi sé hægt að víkja þeim úr embætti án saka, og að þeir skuli ekki bíða neitt fjárhagslegt tjón, er þeir víkja úr dóminum.

Ef á því að skilja þetta ákvæði frv. þannig, að dómarar megi ekki eiga sæti í dóminum eldri en sextugir, þá vil ég benda á það, að engin ákvæði eru til í löggjöfinni, sem tryggi það, að dómendur verði þá eins sjálfstæðir gagnvart umboðsvaldinu og þeir eru nú, engin ákvæði, sem tryggi það, að fjárhagur dómaranna verði eigi skertur.

Ég vildi aðeins taka þetta fram út af ummælum hv. 4. landsk. Hinsvegar skal ég taka það fram, að ef samkomulag fengist um að breyta 4. lið 8. gr. í það horf, að dómurum séu eigi veitt þessi embætti eldri en sextugum, þá hefði ég ekkert við það að athuga.

Nokkur deila hefir orðið hér um það, hvort skylda eigi dómara í hæstarétti til þess að ganga á námsskeið í siglingafræði. Hæstv. dómsmrh. hélt því fram, að það ætti ekki að vera neinum erfiðleikum bundið fyrir menn að taka próf í siglingafræði. Væri það ekki nema eins árs nám og óendanlega auðvelt nám fyrir menntamenn, sem numið hefðu öll undirstöðuatriði þessarar greinar.

Ég hefi ekki numið siglingafræði, en ég hefi numið undirstöðuatriði hennar, t. d. þríhyrningafræði og ýmsar aðrar greinar stærðfræðinnar. Og ég get sagt það, að jafnvel þó að einhver gæti lokið námi í siglingafræði á einum vetri, þá yrði honum sá lærdómur gagnslaus með öllu, nema hann fengi daglega tækifæri til þess að beita þekkingu sinni á þessu sviði. Ég veit það með vissu, að það er óhugsandi fyrir mann í öðru starfi en því, er að siglingum lýtur, að halda við og geyma þekkingu sína á siglingafræði, svo að hún geti komið honum að nokkru haldi. Mér dettur ekki í hug, að samvizkusamur dómari, sem tekið hefði próf í siglingafræði á þennan hátt, myndi leyfa sér að setja sjálfur mælingar á kort, sem svo ættu að skera úr um dómsúrslitin. Þau sönnunargögn, sem dómararnir verða að byggja á, fá þeir yfirleitt utan að frá. Og sú venja mundi sennilega vera áfram, þótt lögleitt yrði námskeið í siglingafræði. Slíkt ákvæði yrði aldrei annað en dauður bókstafur.

Þá vil ég aðeins minnast á fimmtardómsnafnið, enda þótt flest það, sem um það er hægt að segja, með eða móti, hafi komið fram á síðasta þingi. Hæstv. dómsmrh. bar fram þá gamalkunnu röksemd, að hann vildi með þessari nafnbreyt. tengja saman nútíð og fortíð. Benti hann í því sambandi á nafn Alþingis. En eins og hv. 4. landsk. er búinn að sýna fram á, hafði Alþingi hið forna sömu aðstöðu í þjóðlífinu og Alþingi nútímans, nema að því leyti, sem þjóðlífið var öðruvísi þá en nú. Það var því eðlilegt að tengja þar saman fortíð og nútíð. En þetta á ekki við um fimmtardóminn, eins og hv. 4. landsk. sýndi fram á. Þó má ef til vill finna eitt atriði, er gæti verið hliðstætt í þessum tveimur dómstólum. Fimmtardómurinn forni átti fyrst og fremst að dæma þau mál, sem ekki urðu útkljáð í fjórðungsdómum, en svo var bætt við flokk mála, um þingsafglöp og mútur, sem eingöngu var vísað til fimmtardóms. Nú teldi ég það vel viðeigandi, að upp úr þessu frv. risi dómstóll, hliðstæður hinum forna, sem hefði það hlutverk að dæma um þingsafglöp, því að flutningur samnefnds frv. í fyrra eru hin mestu þingsafglöp, sem orðið hafa hér á Alþingi. Ef hæstv. dómsmrh. heppnast að koma fimmtardómsnafninu á dóminn, þá verður sú breyting í meðvitund þjóðarinnar óleysanlega tengd við þingsafglöp hæstv. dómsmrh. Annars er nafnið á dómnum lítilfjörlegt atriði, og skal ég ekki tala meira um það.

Þegar frv. þetta var lagt fyrir Alþingi, þá lagði ég það til hliðar án þess að lesa grg. þess, vegna þess að ég hafði þá öðru að sinna. En þegar ég kom út í bæinn, var ég alstaðar spurður, hvort ég hefði lesið grg. fimmtardómsfrv. og hvort nokkurntíma hefði verið lagt svo hneykslanlegt skjal fyrir Alþingi. Ég kvaðst ekki hafa lesið það, en ég tryði því varla, að hæstv. dómsmrh. gæti komizt öllu lengra í skorti á velsæmi en hann hefði áður komizt. En það verð ég að játa nú, er ég hefi lesið grg. frv., að hún tekur öllu öðru fram í skorti á velsæmi, sem sézt hefir frá hendi hæstv. dómsmrh., vegna hinna niðrandi ummæla um dómstóla erlendra ríkja, ásamt öðru, er ég mun víkja að síðar.

Það er sitt hvað, þótt ráðh. leyfi sér að rökræða um æðsta dómstól síns eigin lands, eða annara þjóða. Það er viðurkennd regla, að ráðh. má alls ekki viðhafa niðrandi ummæli um stofnanir annara þjóða. Auðvitað hefir hæstv. dómsmrh. enga þekkingu á því, hvað ráðh. sé leyfilegt og hvað ekki, heldur er hann vanur að gefa tilfinningum sínum lausan tauminn og verða sér til minnkunar, bæði utanlands og innan. Setur það stimpil smánar og ódugnaðar á hið unga þjóðfélag vort, að annar stærsti flokkurinn í landinu skuli velja sér svo óhæfan ráðh., að hann sé til minnkunar fyrir land og þjóð.

Þá hafa menn einnig hneykslazt mjög á árás þeirri á Pál Halldórsson skólastjóra, sem er í grg. frv. Er það einnig óvenjulegur skortur á velsæmi, að ráðh. skuli grípa til þess í grg. fyrir frv. að gera persónulega árás á nafngreindan heiðursmann. Og hverjar eru varnir hæstv. dómsmrh. í þessu máli? Já, hann segir, að ef Páll Halldórsson vilji ekki sætta sig við ummælin, þá skuli hann endurtaka ummælin í blaði, og svívirða hann þar aftur, svo að hann geti farið í mál. En Pall Halldórsson má vara sig! segir hæstv. dómsmrh., því að ég hefi valdið og máttinn!

Þessi maður er embættismaður stjórnarinnar og undir hennar vald gefinn. Hún getur því sjálfsagt vikið honum frá. En hæstv. ráðh. má vita það, að hann má vara sig á sínu eigin valdi, eins herfilega og hann hefir misbrúkað það. Ég veit varla, hversu lengi flokkur hans lætur honum haldast uppi að misbjóða svo öllu velsæmi eins og hann gerir. Sumir segja nú reyndar, að hæstv. ráðh. sé að versna. En mér fyrir mitt leyti finnst það allt á sömu bókina lært.