11.04.1931
Efri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í C-deild Alþingistíðinda. (1773)

137. mál, fimmtardómur

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Það gladdi mig, að hv. frsm. meiri hl. skyldi aðallega mæla með þeim nýmælum frv., sem við erum sammála um, og skoða ég það sem tákn þess, að hann muni ekki setja sig á móti þeim brtt., sem ég flyt við frv. Kemur mér þetta að vísu óvart, því að ef þessi nýmæli skipta mestu máli hjá hv. meiri hl., hefði aldrei þurft til þess að koma, að allshn. klofnaði í málinu. Hinsvegar kom það glöggt í ljós í n., að meiri hl. vildi ekki ganga inn á nokkrar breyt. á frv., og var ég af þeim ástæðum útilokaður frá samvinnu við meðnm. mína um málið, og flyt því sérstakt nál. á þskj. 350, og í sambandi við það brtt. á þskj. 347, þar sem ég ber fram brtt. við frv. í 18 liðum.

Mér þykir rétt að gera grein fyrir því strax, af hverju ég valdi þá leið að flytja brtt. við frv. í stað þess að flytja nýtt frv., þar sem upp væru tekin þau nýmæli þessa frv., sem ég get fallizt á. Hefði það síðara óneitanlega verið mér nær skapi, því að fæst nýmæli frv. eru þann veg vaxin, að ég geti léð þeim stuðning. En ástæðan til þess, að ég valdi þá leið að bera fram brtt. við frv., er sú, að ég tel meiri von til að fá samþ. brtt. við frv. en að koma fram nýju frv. Þó að ég óttist flokksfylgið, vænti ég þess, að stjórnarflokkarnir standi ekki á móti þeim brtt., sem horfa til bóta á frv. Ég treysti því, að í máli sem þessu, sem snertir hag og heill allrar þjóðarinnar, láti stjórnarflokkarnir réttsýnina sitja í fyrirrúmi fyrir flokksaganum.

Frv. var mikið rætt við 1. umr., og sé ég því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um málið almennt nú við þessa umr., en skal snúa mér að því að skýra brtt. mínar. — Fyrsta brtt. mín varðar nafn dómstólsins og gengur út á það, að það nafn, sem dómstóllinn nú ber, haldist. Til vara hefi ég lagt til, að dómstóllinn verði nefndur yfirdómur. Fyrir mér vakir það, að nafn dómstólsins feli í sér einhverja skilgreiningu á stofnuninni. Skiptir þetta að vísu ekki miklu máli hér innanlands, en út á við hefir það mikla þýðingu, að menn skilji það af nafni dómstólsins, að hér sé dómstóll, sem sé hliðstæður efstu dómstigum í öðrum löndum. Auk þessa hefir verið bent á það, að fimmtardómsheitið er rangnefni, því að fimmtardómur hinn forni átti í engu sammerkt með æðsta dómstigi okkar nú. Mætti alveg eins taka upp heitið fjórðungsdómur í stað hæstaréttarheitisins, ef endilega á að seilast til fornaldarinnar eftir nafni á dóminn. Hvorttveggja er jafnfjarstætt. Að vísu er það ekki með öllu ástæðulaust, þó að því sé haldið fram, að orðið hæstiréttur sé ekki allskostar góð íslenzka. Á ég þar ekki aðeins við lýsingarorðið, sem myndar fyrra hl. þessa orðs, heldur við þá merkingu, sem hér er lögð í orðið réttur. Fer þar mjög frá hinni fornu merkingu orðsins, en þar sem orðið hinsvegar hefir komizt inn í málið í þessari merkingu í samböndum eins og sjóréttur, gestaréttur o. fl., býst ég ekki við, að hægt verði að útrýma því. En séu menn svo viðkvæmir í þessum efnum, að eyru þeirra þoli ekki að heyra orðið hæstiréttur, hefi ég lagt til, að tekið verði upp heitið yfirdómur. Hefir það heiti það til síns ágætis, að það segir rétt til um dómstigið í aðalatriðum. Að vísu ber það ekki með sér, að hér sé um æðsta dómstig að ræða, en af því má hinsvegar ráða, að til þessa dómstóls megi skjóta málum frá lægri dómstólum.

Næsta brtt. mín gengur út á það, að 2. gr. frv. falli niður. Eins og ljóst má vera, er þetta frv. ekki nema smávægileg breyting á hæstaréttarlögunum.Ég fæ því ekki skilið, að það þurfi að leggja hæstarétt niður, þó frv. verði samþ., því að rétturinn starfar áfram eftir sem áður, þó að undir breyttu nafni sé. Þótt breytt sé um nafn á réttinum, er hann ekki þar með lagður niður. Mætti þá eins halda því fram, að það yrði að hafa stjórnarskipti í för með sér, ef lagt væri niður ráðherraheitið og tekið upp heitið ráðgjafi í staðinn. Ég býst við, að þetta ákvæði hafi verið sett í frv. í fyrra með það fyrir augum, að hægt væri að skipta um dómara í réttinum. Nú er tilgangur frv. annar, og ætla ég, að það sé af vangá sprottið, að þetta ákvæði var ekki fellt niður úr frv., er það nú var lagt fyrir þingið í annað sinn. Hljóta allir að sjá, að þetta ákvæði er vitleysa ein, þar sem frv. að öðru leyti gerir ráð fyrir, að hæstaréttardómararnir, þeir sem nú eru, sitji áfram í réttinum eftir sem áður. Það er því sjálfsögð skylda þm. að fella þetta ákvæði frv. niður, enda vænti ég þess fastlega, að þessi brtt. mín verði samþykkt.

Þriðja brtt. mín er við 4. gr. frv. og er þess efnis, að hinum föstu dómurum réttarins verði fjölgað upp í fimm, í stað þess, sem frv. gerir ráð fyrir 3 fastadómurum, eins og er, og 2 aukadómurum, sem teknir séu frá lagadeild háskólans. — Ég tel varasamt að slá saman svo ólíkum störfum sem kennarastörfum og dómarastörfum. Þótt það sé gott, að lagakennarar háskólans komi í skörðin, er aðaldómarar forfallast, er varasamt að leiða út af því þá reglu, að þeir hljóti ex ipso að vera góðir dómarar. Þeir geta verið það, en það þarf ekki að gera ráð fyrir, að þeir séu það ávallt. Auk þessa er á það að líta, að ef lagakennarar háskólans eru teknir í hæstarétt sem fastir varadómarar, kemur til með að vanta þar dómara, þegar hinir venjulegu dómarar réttarins forfallast, en sú reynsla, sem fengizt hefir með starfsemi hæstaréttar, lætur engan í vafa um það, að oft muni þurfa á aukadómurum að halda. Og það er vitanlega mikils virði, hvernig um val þeirra fer, þegar svo ber undir. Auk þess alls ber einnig að líta á það, sem oft hefir verið bent á í þessu sambandi, hversu erfitt er að framkvæma þessa tilhögun. Þar sem rétturinn á sjálfur að ákveða það í hverju einstöku tilfelli, hvenær þessir aukadómarar skuli til kvaddir, er þar með vakin tortryggni gagnvart réttinum, enda er oft erfitt að segja um það fyrirfram, hvort mál verður flókið til úrskurðar eða ekki. Svo er yfirleitt um flest fógetamál og önnur mál, er lítt hafa verið rædd fyrir undirréttinum. — Þessi tilhögun hefir verið rokstudd með því, að her væri um sparnað að ræða. Kann það að vera rétt eins og sakir standa, en ég fyrir mitt leyti efast um, að svo verði, er til lengdar lætur. Hæstaréttardómum fer sífjölgandi með ári hverju. Síðastl. ár voru kveðnir upp ca. 100 hæstaréttardómar, og eftir aukningunni undanfarið má gera ráð fyrir, að kveðnir verði upp 130–150 dómar þegar á næstu árum, enda er skiljanlegt, að dómunum fjölgi eftir því, sem atvinnulífið verður margbrotnara og flóknara. Þó að erfitt sé að ákveða, í hve morgum tilfellum af 100 aukadómarar verði til kvaddir, hygg ég, þar sem ganga verður út frá, að þeirri reglu verði fylgt um kvaðningu þeirra, að þeir verði kvaddir til að taka sæti í réttinum, þegar vafi getur leikið á, hvort svo eigi að gera eða ekki, hvað þá, ef það er auðsýnt, að ekki sé of mikið í lagt, þó að gert sé ráð fyrir, að aukadómarar dæmi í öðruhverju máli. Yrðu það þá bráðlega um 60 mál á ári, sem aukadómarar væru kvaddir til dóms í, og þar sem það yfirleitt eru hin stærri mál, sem koma fyrir hæstarétt, er ekki um háa þóknun að ræða, þó að aukadómurunum væri ætlað 100 kr. að meðaltali fyrir hvert mál. Næmi þetta alls 12000 kr. á ári, og er þar komin hærri upphæð en nemur einum dómaralaunum. Nú hefir það komið til orða oft hér áður að leggja niður ritaraembættið við hæstarétt. Átti ég tal um þetta við einn af núv. dómurum hæstaréttar um daginn, og taldi hann, að þetta væri ekki frágangssök, þó nokkrir erfiðleikar væru á því. Ritari hæstaréttar hefir um 4000–5000 kr. laun á ári, og ef embætti hans væri lagt niður, væri þarna komið hátt upp í laun hins dómarans. En jafnvel þó útgjöld ríkissjóðs ykjust sem svaraði launum eins dómara við það, að fastadómarar réttarins yrðu fimm, má ekki taka svo mjög tilllit til þess, ef um aukið réttaröryggi er að ræða, eins og hlyti að leiða af dómarafjölguninni. Ég vænti þess því, að hv. þm. geti fallizt á þessa brtt. mína, þegar þeir hafa athugað, hve lítinn aukinn kostnað það hefir í för með sér fyrir ríkið, þó að dómurum hæstaréttar verði fjölgað eins og ég legg til.

Í þessari brtt., sem ég nú hefi verið að tala um, felst einnig önnur smávægileg breyting frá frv., og er hún sú, að forseti hæstaréttar sé ekki kosinn til skemmri tíma en eins árs í senn. Frv. gerir ráð fyrir, að forseti réttarins sé kosinn til eins árs. En nú getur það komið fyrir, að forsetastaðan losni á miðju starfsári, og er þá hentugra að rétturinn hafi heimild til að kjósa forseta fyrir það, sem eftir er af því ári, og næsta starfsár. Sjálfsagt virðist að forsetaval eða forsetastarf að jafnaði miðist við starfsár.

Næstu 3 brtt. mínar, við 5., 6. og 7. gr. frv., eru bein afleiðing af þessari brtt. minni við 4. gr., og þarf ég því ekkert um þær að segja. Kem ég þá að 7. brtt. minni, sem er við 8. gr. frv. Er hún í 4 stafliðum. Fyrsti stafliður er bein afleiðing 2. brtt. minnar, við 2. gr. frv., og þarf því ekki skýringar við, en í niðurlagi þeirrar málsgr., sem þessi brtt. á við, er nýmæli eitt, sem kveður svo á, að maður, sem sýnt hafi „verulega yfirburði í lögfræði með vísindalegri starfsemi“, skuli dómgengur í hæstarétt, enda þótt hann hafi aldrei gegnt þeim störfum, er annars veita aðgang að dómaraembættinu. Það verður því vitanl. ávallt vafasamt, að maður, þótt sýnt hafi „yfirburði í vísindalegri starfsemi“, hafi nokkra sérstaka dómarahæfileika til að bera. Ég vildi þó ekki leggja til, að þetta ákvæði frv. yrði fellt niður, þar sem það gerir hvorki til né frá, ef prófraunin er látin haldast, eins og till. mínar gera ráð fyrir. Sé prófraunin hinsvegar felld niður, er þetta ákvæði með öllu óhæft, því að það liggur í höndum veitingarvaldsins að skera úr því, hvort viðkomandi maður hefir sýnt yfirburði í vísindamennsku eða ekki.

Um siglingafræðina þarf ég ekki að ræða, þar sem hv. meiri hl. hefir lagt til, að það ákvæði frv. verði fellt niður, og ég því tel vafalaust, að svo verði gert. Hinsvegar get ég ekki fallizt á þau rök, sem hv. frsm. meiri hl. færði fyrir þessu. Hann sagðist ekki treysta sér til að fara þessa leið, fyrr en skipulag væri komið á kennslu í þessari grein við háskólann. Ég er þeirrar skoðunar, og ég hygg, að fleiri séu mér þar sammála, að námskeið í siglingafræði gefi minni tryggingu fyrir því, að þetta verði leyst vel af hendi, heldur en navigationspróf. Væri og rétt afleiðing af þessu, að námskeið í lögfræði væri nægilegt til að gera menn hæfa til þess að gegna dómarastörfum. Er sérstakur hugsunarháttur á bak við þetta, sem ég skal ekki fara nánar inn á.

B-liður þessarar 7. brtt. minnar fer fram á það, að aftan við 4. lið 8. gr. frv. verði bætt orðunum: þegar þeir fá veitingu fyrir embættinu. — Skal ég geta þess, að hæstv. dómsmrh. lét svo um mælt við 1. umr., að það væri veitingarskilyrði um setu í hæstarétti, að umsækjandi væri ekki yngri en þrítugur og ekki eldri en sextugur, svo að þetta er ekki nema sjálfsögð leiðrétting, sem ég vænti, að verði samþ. — C-liður þessarar brtt. er bein afleiðing brtt. minnar við 2. gr. frv. og þarf því ekki frekari skýringar við. Kem ég þá að d-lið brtt., um dómaraprófið. Er það sú brtt., sem mestu máli skiptir. Var þetta atriði rætt mjög ítarlega við 1. umr. og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að taka hér upp aftur þau rök nú, sem þá voru færð fyrir nauðsyn dómaraprófsins.

Sumir hafa sagt, að ef dómaraprófið héldist, væri dómstóllinn einráður um það, hverjir yrðu dómarar. Þetta er mesti misskilningur. Það er mjög ólíklegt, að nokkurt dómaraefni falli við prófraunina, meðan framkvæmdarvaldið hefir þetta aðhald, því að það sendir vitaskuld ekki aðra til prófs en þá, sem líklegir eru til að standist prófið. Hæstaréttardómarar, sem eiga að sjá um prófið, eiga eingöngu að líta á hæfileika og kunnáttu dómaraefnis, en um skoðanir hans og mannkosti geta þeir ekki dæmt, heldur er það framkvæmdarvaldsins að gera það. Auðvitað gæti það komið fyrir, að menn sem skorti mannkosti kæmust í dóminn, en ef svo færi væri framkvæmdarvaldinu þar um að kenna, því því ber að sjá um, að svo verði ekki. Ég er sannfærður um, að hver heilvita maður, sem vill líta á þetta mál með sanngirni, hlýtur að sjá að það er heppilegra að gefa framkvæmdarvaldinu ekki of lausan tauminn í þessu efni. Það er ekki þar með sagt, að framkvæmdarvaldið þurfi endilega að misnota aðstöðu sína, þótt prófraunin verði afnumin, en það gæti óneitanlega komið fyrir, og það getur jafnvel verið sterk freisting fyrir það að gera það. Ég vænti þess því, að þegar hv. þdm. hafa gefið sér tíma til þess að athuga þessa brtt. til hlítar, þá sjái þeir sér fært að greiða henni atkv., ef þeir vilja meta réttlætið meira en flokksfylgið.

Um lok 8. gr. er það að segja, að ég sé ekki ástæðu til þess að gera brtt. við hana, meðan ekki er útséð um örlög dómaraprófsins. Ef það verður fellt, þá er sjálfsagt að víkja ekki frá hinu skilyrðinu, að dómaraefni skuli hafa fyrstu einkunn, því það er þó út af fyrir sig ofurlítil trygging fyrir betra mannvali í réttinn en ella. En ef dómaraprófið helzt, þá má þetta ákvæði standa, og þess vegna hefi ég ekki flutt brtt. við það að svo stöddu, en mun gera það síðar, ef brtt. mín um dómaraprófið verður felld.

Þá kemur næst örlítil brtt. við 14. gr., sem fjallar um launakjör dómara í hæstarétti. Er lagt til, að þau verði ákveðin 12000 kr. á ári, auk dýrtíðaruppbótar eftir gildandi launalögum. Í frv. í fyrra var lagt til að hækka launin upp í 12000 kr. auk dýrtíðaruppbótar. Það þarf nú ekki rök að því að leiða, að það er öldungis nauðsynlegt að launa þessar stöður svo vel, að þær verði heldur eftirsóttar en hitt. Það er nú einu sinni svo, að hæfir menn gefa ekki kost á sér til slíkra starfa, nema því aðeins, að þeir fái viðunanleg laun, því að þeim er í lófa lagið, ef um duglega lögfræðinga er að ræða, að ná í miklu hærri árstekjur en hæstaréttardómarar hafa. Þess vegna er þetta alveg sjálfsögð breyt. þegar það er athugað, hvað launakjörin eru mikið atriði í þessu máli. Þetta hefir verið þeim ljóst, sem sömdu frv. í fyrra, en síðan hafa orðið skoðanaskipti hjá hæstv. stj. um þetta atriði, og það með nokkuð einkennilegum hætti, eins og sjá má á grg. frv., þar sem færðar eru ástæður fyrir því, að ákvæði frv. í fyrra um launahækkun er fellt niður í frv. því, sem hér liggur fyrir. Í gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. um fimmtardóm, sem lagt var fyrir Alþingi 1930, voru ákvæði um, að laun fimmtardómenda skyldu vera nokkru hærri en nú gerist í hæstarétti. Sömuleiðis að fimmtardómsritari skyldi vera fastur embættismaður. En með því að það kom í ljós, að það voru andstæðingar málsins, sem fúsastir voru að hækka laun dómenda og ritara, þykir ekki ástæða til að halda þeirri breytingu fram til þrautar nú. Má alltaf bæta launin síðar, einkum ef í ljós kæmi, að sæmilega álitlegir menn hliðruðu sér hjá að fara í réttinn, nema launakjörin væru bætt“.

Með öðrum orðum er það beint tekið fram, að þetta ákvæði frv. hafi verið fellt niður af því, að það hafi komið í ljós, að andstöðuflokkur stj. væri því fylgjandi. Maður myndi nú ekki hneykslast á slíku, þótt maður heyrði það af vörum einhvers óvandaðs stjórnmálabullara, að hann væri með eða móti einhverju máli eftir því, hvort andstæðingarnir væru móti því eða með. En þegar maður heyrir slíkt úr sæti dómsmálaráðherrans, þá er vissulega ástæða til alvarlegrar umhugsunar, og því fremur, sem þessi maður, sem svona hugsar, að minnsta kosti var leiðandi maður eins stærsta stjórnmálaflokksins í landinu. Slíkt vitnar um rotið stjórnarfar í landinu og lágar siðferðiskröfur flokksmanna hæstv. dómsmrh. En þetta skiptir ekki beint máli í þessu sambandi. Aðalatriði málsins er það, að það er varhugavert að hafa launin svo lág, að ekki sé full trygging fyrir því, að fullkomlega hæfir menn fáist í þessar stöður. Menn verða að gera sér það ljóst, að þegar um svo þýðingarmiklar og ábyrgðarmiklar stöður er að ræða, þá má ekki horfa í nokkur þúsund króna árlega, ef líkur eru fyrir því, að betur takist um mannaval í dóminn með því að hafa launin fremur rífleg. Ég vænti þess, að þegar menn hafa athugað það, að stj. dró þetta nýmæli til baka einungis fyrir þá sök, að andstöðuflokkurinn var því hlynntur, en ekki af því, að henni hefði að öðru leyti snúizt hugur um þetta atriði, þá muni menn geta greitt þessari brtt. minni atkv.

Næsta brtt. mín er um að fella niður 25.–27. gr. frv., þar sem svo er mælt fyrir, að málaflutningsmönnum við æðsta dómstól landsins beri að bindast félagssamtökum undir einskonar yfirstjórn dómsmálaráðherra. Ég fæ ekki séð, hvaða nauðsyn rekur til þess að lögbinda félagsskap innan þessarar stéttar fremur en annara, auk þess sem þessi stétt hefir sitt félag innbyrðis og hefir haft yfir 20 ár. Ég legg því til, að þessi ákvæði frv. verði felld niður. Ýms fleiri ákvæði eru í þessum gr. frv., sem verða að teljast mjög varhugaverð, vægast sagt, og hefi ég því lagt til, að greinarnar falli burt.

Mér sást yfir að gera brtt. við 24. gr. frv., síðari málsl., þar sem sagt er, að dómsmrh. „geti“ svipt málaflutningsmann leyfi, ef dómstóllinn leggi það til. Ég mun síðar flytja brtt. um það, að í stað „getur“ komi: skal.

Það, sem á yfirborðinu virðist vaka fyrir hæstv. dómsmrh. með því að lögskylda þessa stétt til félagssamtaka, er það, að skapa aðhald um almennt velsæmi innan stéttarinnar. Ég get ekki kannast við, að þessi stétt hafi gefið sérstaka ástæðu til slíkra varúðarráðstafana, enda hefir málaflutningsmannafélagið jafnan reynt að halda uppi velsæmi innan stéttarinnar og litið eftir því, eftir föngum, að félagsmenn ræki störf sín með samvizkusemi og ráðvendni. Ég hygg, að þessi starfsemi félagsins hafi borið tilætlaðan árangur, og ég sé því enga skynsamlega né frambærilega ástæðu til þess að lögskylda þessa stétt til nýrra félagssamtaka.

Eins og ég drap á áðan, eru ýms fleiri ákvæði í þessum gr. frv., sem eru mjög varhugaverð. T. d. er eitt ákvæði í 26. gr. frv., sem engri átt nær. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnin hefir og rétt til að ákveða þóknanir málaflutningsmanna eða málskostnað, ef slíkt er undir hana borið af málaflutningsmönnum eða viðskiptamönnum þeirra“.

Með þessu er stjórn félagsins gefið úrslitavald um það, hvað málaflutningsmenn megi heimta fyrir starfa sinn; þetta er sérstaklega varhugavert, því að stjórn stéttarfélags er tæplega ætlandi að vera öldungis óhlutdrægur dómari um atriði, er snerta annarsvegar hagsmuni manna innan stéttarinnar. Auk þess er hér um hreint dómstólamál að ræða, og í senn ástæðulaust og ísjárvert að draga slík mál úr höndum dómsvaldsins.

Ennfremur er það stórlega athugavert ákvæði í 27. gr., þar sem segir, að stjórn slíks félags, sem um ræðir í þessum greinum, geti rekið menn úr félaginu, um skeið eða fyrir fullt og allt, sem út af fyrir sig er ekkert við að segja. En síðan segir svo í greininni, að málaflutningsmanni sé rétt að skjóta úrskurði félagsstjórnar um sekt eða missi réttinda til dómsmálaráðherra til fullnaðarúrskurðar. Þetta ákvæði er fjarri öllu viti. Hér er um hreint dómstólamál að ræða og mál, sem samkv. eðli sínu er almennt mannréttindamál. Það nær engri átt að draga slíkt mál undan úrskurðarvaldi dómstóla landsins. Yfirleitt er það mjög óeðlilegt að setja málaflutningsmenn undir eftirlit dómsmrh., því að störf þeirra eru ekki framkvæmdarvalds-eðlis, heldur heyra þau undir dómstólana, og ef setja ætti þessa stétt undir sérstakt eftirlit, þá eru það dómstólarnir, sem ættu að hafa það eftirlit með höndum.

Næstu brtt. leiðir aðallega af þeim breyt., sem till. mínar vilja gera á frv. 10. brtt., við 37. gr., er afleiðing af brtt. við 1. og 2. gr. Sama er að segja um 11. brtt., við 39. gr.; hún er einnig afleiðing af brtt. við 1. og 2. gr. — 12. og 13. brtt. eru og afleiðingar af áður komnum brtt. Ennfremur er 14. brtt., við 64. gr., afleiðing af brtt. við 2. gr., og 15. brtt. leiðir af brtt. við 4. gr., ætla ég. Brtt. við 66. gr. er afleiðing af brtt. við 2. gr. Brtt. við fyrirsögn frv. hefi ég áður gert grein fyrir í sambandi við 1. brtt. mína við 1. gr.

Að lokum vil ég drepa á nokkur ákvæði í 10. kafla frv., sem ég er ekki viss um, hvernig skilja beri. Vildi ég mælast til þess við hæstv. dómsmrh., að hann gerði grein fyrir því, hvernig þessi ákvæði eru hugsuð. Fjallar kafli þessi um dómsuppkvaðningu, atkvæðagreiðslu og dóma. Eru það einkum 2. og 3. málsl. 53. gr., sem mér virðist mjög torskildir og tvíræðir. Segir þar svo, að ef atkvæði séu jöfn um niðurstöðu dóms, skeri forseti úr. Ég vonast til að hæstv. dómsmrh. upplýsi, hvernig þetta getur komið fyrir, og ennfremur, ef ágreiningur verður um upphæð peningagreiðslu, eins og 2. málsl. fjallar um og segir, að í þeim tilfellum skuli meðaltalið verða niðurstaðan. Þetta er mjög óákveðið og ef til vill mjög varasamt ákvæði, og má vel vera, að ég flytji brtt. við þessa gr. við 3. umr.. ef mér þykir þess við þurfa.

Ég gleymdi að geta þess, að 13. brtt., sem fer fram á að fella burt úr 52. gr. orðin „og fimmtardómsritari“, er ekki að því leyti einungis afleiðing af áður komnum brtt., eins og ég sagði áðan. Mer finnst þetta vera dálítið vafasamt, að leyfa ritara réttarins að vera við ráðagerðir, þegar af þeirri ástæðu, að ritarinn er hér ekki fastur embættismaður. Það er því ekki nægilegt að vísa til þess, að þetta er venja t. d. í Noregi. Í þessari sömu gr. er annað ákvæði, sem verður einnig að teljast mjög varhugavert, þar sem gert er ráð fyrir því, að varpa skuli hlutkesti um þá röð, sem dómarar skuli greiða atkvæði í. Það er vitanlegt, að aðalvinnan lendir hjá þeim, sem fyrstur greiðir atkv., því að dómararnir eru venjulega sammála. Ég held, að það verði betri regla, sem nú er, að forseti dómsins ákveði, hver skuli fyrstur greiða atkv.

Ég hefi þá drepið á brtt. mínar í aðaldráttum. Vænti ég þess, að þegar hv. þdm. hafa kynnt sér þetta mál til nokkurrar hlítar, þá muni þeir komast að þeirri niðurstöðu, að brtt. mínar séu til bóta yfirleitt, og sumar til stórbóta, og að þeir muni þess vegna greiða þeim atkv. þegar þar að kemur.