11.04.1931
Efri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í C-deild Alþingistíðinda. (1774)

137. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi ástæðu til þess að þakka hv. meiri hl. n. fyrir afgreiðslu þessa máls, enda eru það nú hinir sömu menn, sem voru í n. í fyrra, og munu þeir því sennilega hafa getað byggt nokkuð á því, sem þeir gerðu þá, hvað athugun og undirbúning þessa máls snertir. Sú brtt., sem þeir gera um það, að ekki sé krafizt sérþekkingar í siglingafræði af dómaraefnum, fyrr en háskólinn getur veitt slíka fræðslu, má vel vera rétt sem stendur, en hv. meiri hl. viðurkennir þó, að þannig ætti þetta að vera, eins og frv. gerir ráð fyrir, alveg eins og með bókfærslumenntun lögfræðinga, sem til þessa hefir verið stórlega ábótavant, enda vanrækt að sjá fyrir sæmilegri kennslu í þessari grein í lagadeildinni, lögfræðingunum til stórskaða síðar meir. Það er áreiðanlegt, að það mun koma að því, að sjálfsagt þyki, að menntaður lögfræðingur beri skyn á sjófræði og siglingafræði, sem og bókfærslu. Hér er því einungis um tímaspursmál að ræða.

Þá kem ég að brtt. hv. minni hl. Þær eru margar og mynda nokkurnveginn samfellt kerfi innbyrðis, og ef þær verða samþ., gerbreyta þær frv. Í fyrra var Íhaldsflokkurinn eindregið á móti opinberri atkvæðagreiðslu og barðist gegn því með offorsi. Nú hefir flokkurinn fallið frá því, líklega meðfram fyrir áhrif frá Dönum, sem eru í þann veginn að koma opinberri atkvgr. á hjá sér. Í Danmörku voru það einungis hæstaréttardómararnir í Kaupmannahöfn, sem beittu sér gegn þessari nýbreytni, enda er það mjög að vonum, því að gamlir menn eru jafnan lítið gefnir fyrir nýjungar og breytingar, þegar um það var rætt hér, hvort taka skyldi upp munnlegan málaflutning, voru

yfirdómararnir hér mjög mótfallnir því, en þingið kom því fram, þrátt fyrir mótmæli þeirra. Ég bendi á þetta til þess að sýna, hvað þó hefir áunnizt síðan í fyrra í þessum efnum, og virðist Íhaldsflokkurinn í þessu atriði hafa orðið fyrir áhrifum frá almenningsálitinu í landinu annarsvegar, og þetta til samans valdið því, að flokkurinn hefir látið undan og þar með stigið stórt spor í rétta átt. Ég held, að á sama veg fari um hin önnur nýmæli frv.; þau ná fram að ganga, þá er tímar líða. Ef t. d. að þessu sinni á að halda áfram að hafa æðsta dómstólinn „klíku“ utan við þjóðfélagið, eða t. d. halda við röngu nafni dómsins, þá mun það kosta Alþingi langvinna baráttu hin næstu árin, en sem auðvitað endar með því, að þingið sigrar og kemur þeim umbótum fram, sem það telur nauðsynlegar.

Ég ætla nú ekki að fara nákvæmlega út í þessar brtt. Flest er þetta þrautrætt áður. Þó viðurkennir hv. minni hl., að hæstaréttarnafnið sé dálítið óviðfeldið, en honum finnst óhugsandi annað en að nafn æðsta dómstóls okkar Íslendinga verði að vera bergmál af heiti dönsku dómstólanna, ef ekki þýðing á orðinu „Höjesteret“, þá þýðing af orðinu „Overret“. Ég held, að það sé dálítið óheppilegt fyrir þá menn og þann flokk, sem vill slá fast á strengi þjóðernis og sjálfstæðis, að beita sér svo mjög gegn þjóðlegum breytingum á nafni æðsta dómstólsins. Ég er viss um, að þjóðerniskennd Íslendinga mun ekki þagna fyrr en hún hefir unnið sigur í þessu efni, fyrr en að fullu er brúað milli nútíðarinnar og lýðveldistímabilsins. Sú kennd, sem ekki getur þolað óíslenzkt og óviðeigandi nafn á sínum æðsta dómstól, sú þjóðernislega réttlætis tilfinning, sem studd er af heilbrigðri skynsemi, mun áreiðanlega vinna sigur í þessu efni, hvort sem það verður á þessu þingi eða síðar.

Ég vil ekki segja, að 2. gr. frv. sé í raun og veru stórt atriði, en það er hinsvegar einkennileg tilhneiging hv. frsm. minni hl. n. og annara flokksmanna hans að vilja halda í þetta ranga óíslenzka heiti á dómstólnum.

Um brtt. hv. minni hl. við 4. gr., á þá leið að fjölga þegar fastadómurum upp í 5, skal ég ekki fjölyrða, en það er áreiðanlegt, að fyrir því eru a. m. k. engar knýjandi ástæður, og það atriði mætti gjarnan bíða og takast til athugunar, en það eru a. m. k. tvær ástæður á móti því. Fyrst er það, að fjölgun dómaranna hefði áreiðanlega allmikinn kostnað í för með sér, einkum ef samtímis á að hækka laun dómaranna, en hin er sú, að í svo fámennu landi sem okkar, er ekki jafnan á hverjum tíma völ hæfra manna til að taka sæti í réttinum, er fullnægi þeim kröfum um fræðilega þekkingu og persónulega reynslu, sem gera verður til æðstu dómara þjóðarinnar.

Ef gengið er út frá því, að dómarar hætti störfum á 65 ára aldri og á það er litið, að allir dómarar hæstaréttar hafa innan skamms náð því aldurstakmarki, þá skiptir það ekki svo litlu máli frá fjárhagshlið skoðað, ef bæta á í hópinn, e. t. v. samhliða hækkuðum launum, kannske 4 mönnum á háum launum. Ennfremur hefir einmitt dómurinn sjálfur viðurkennt, að mörg mál séu svo einföld, að ekki sé ástæða til að hafa fleiri en 3 dómara. Það virðist, að alltaf sé opin leið síðar til þess að fjölga dómurunum, ef þörf er á, en að þessi leið sé varfærnari, sem frv. bendir á. Annars sýnist það einkennilegt, að maður úr þessum flokki skuli einmitt verða til þess að bera fram till. um fjölgun dómenda, og gera með því tilraun til að ónýta verk samflokksmanns síns, Jóns heitins Magnússonar, er barðist fyrir fækkun dómenda í hæstarétti niður í 3.

Allmargar breyt. hv. minni hl. eru afleiðing af till. um fjölgun dómenda, og verða því þeirri till. samferða.

Ef Alþingi treystir sér til að fjölga dómendum í í, þá er náttúrlega ekkert við því að segja, en það kostar vitanlega sína peninga.

Sú leið, sem frv. bendir á í þessu máli, er skynsamleg millileið eins og nú standa sakir og virðist eðlilegt spor í áttina.

Hv. minni hl. vill í brtt. sínum við 8. gr. frv. ekki, að dómarar hæstaréttar séu undanþegnir þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir inngöngu í fimmtardóm, og er það dálítið einkennileg brtt. Þá vill hann endilega bæta skýringu við 30 og 60 ára aldursákvæðin, sem er að vísu óþörf, en meinlaus, og skal ég ekki fjölyrða um það.

Þá vill hv. minni hl. halda við gildandi ákvæðum um dómaraprófið, þó að flestir fróðir menn í þeim efnum líti svo á, að niðurfelling þess sé eitt hinna sjálfsögðustu umbóta. Það er fyrir löngu þrautreynt, að það er ekki mikið hægt að leggja upp úr úrskurðum réttarins sjálfs í þessum efnum. Landsyfirrétturinn skildi ekki á sínum tíma yfirburði munnlegs málflutnings fram yfir skriflegan, en Alþingi skildi það; aldarhátturinn krafðist þess. Hjá nágrannaþjóð okkar, Norðmönnum, eru þessi íhaldsákvæði um dómarapróf felld úr lögum og samskonar ákvæði og í frv. tekin í staðinn, og einnig ákvæði um opinbera atkvæðagreiðslu dómenda í málum. Eins og hv. minni hl. tók fram, er hæstiréttur Dana sá dómstóll, sem heldur fast í ákvæðin um dómarapróf og leynilega atkvgr., en slíkur afturhaldsandi er í beinni andstöðu við siðferðiskröfur nútímamenningarinnar.

Hver þjóð hlýtur að eiga kröfu til þess að fylgjast með gerðum svo þýðingarmikillar stofnunar sem hennar æðsti dómstóll er. Hún sættir sig ekki við það, að hann sé slitinn úr lífrænu sambandi við hana, sé lík í lestinni. Þetta veit ég, að hv. minni hl. skilur, en ég skil það á hinn bóginn, að hann eigi erfitt með að gefast upp og viðurkenna þennan sjálfsagða rétt, eftir það sem á undan er gengið, er hann hefir orðið að beita sér fyrir skilningi síns flokks, er stendur á þessu úrelta menningarstigi.

Hv. minni hl. hélt því fram, að dómstóllinn mundi helzt aldrei nota sjálfsköpunarrétt sinn með því að fella mann við dómarapróf. En hvert gagn er þá að dómaraprófi? Það kom ljóst fram hjá hv. 4. landsk., að dómurinn mundi, þegar um próf væri að ræða, aðeins líta á ytri hlið á störfum mannsins, á viss formsatriði, en ekki á manngildi hans eða hæfileika. Annars er það undarlegt, að stjórn og dómstóll skuli líta á málið frá svo ólíkum sjónarmiðum og úrskurða eftir gagnólíkum forsendum.

Eins og hver maður getur skilið, getur engin frjáls þjóð búið við þá stofnun, sem ekki má breyta, sem ekki má skapa í samræmi við aldarhátt og menningu.

Ég tók í fyrra það dæmi við umr. um þetta mál, að ef það kæmi fyrir, að dómurum í hæstarétti dytti í hug að taka sem innlegg í máli fyrir dómstólnum skýrslu frá framliðnum mönnum, ef þeir kannske fengju í sig þær „grillur“, að koma mætti með málsvörn í máli handan um haf dauðans, þá gerðu þeir sig vitanlega seka í hlægilegri vitleysu, en við því væri samt ekkert að segja eins og nú standa sakir.

Stjórn eða hæstiréttur eru hvorugt alfullkomnar- stofnanir, en munurinn er sá, að stjórnir fara og koma, þær standa undir aðhaldi almenningsálitsins og atkvæði borgaranna, en dómarar í hæstarétti, eins og fyrirkomulagið er nú, eru slitnir úr lífrænu sambandi við sitt þjóðfélag. Þeir eiga sem minnst að hafa saman við það að sælda, þeir mega ekki hafa afskipti af þjóðmálum, ekki taka þátt í opinberum störfum, sem raunar er kannske ekki að lasta, en svo eiga þessir menn að velja sína samverkamenn mann fram af manni. Þessir dómarar, sem ekki telja sér skylt eða ekki vilja rökstyðja sína dóma, þeir mundu áreiðanlega ekki frekar telja þörf á að rökstyðja það, hvers vegna þeir felldu mann frá dómaraprófi.

Ég býst við, að hv. minni hl. segi, að Norðmenn hafi valið illa sína dómara, en ef hann væri kunnugur skoðunum Norðmanna sjálfra, þá fengi hann að vita það, að norski hæstirétturinn þykir betri nú en meðan dómaraprófið var í lögum. Óánægjan var orðin þar svo hávær yfir skipun réttarins og fyrirkomulagið svo dautt fyrir þjóðinni, að ekki einu sinni hinum afturhaldssömustu hægrimönnum dettur í hug að halda fram dómaraprófi.

Norska fyrirkomulagið er nýtt og sniðið eftir kröfum tímans; það er fyrirkomulag, sem þjóð okkur náskyld tekur upp og reynist vel. En okkar fyrirkomulag er sniðið eftir fyrirkomulagi hjá fjarskyldari þjóð og hennar úreltu reynslu.

Þá skal ég koma að brtt. hv. minni hl. við 14. gr., þar sem hann er að heimta hærri laun fyrir dómarana. Hann vill fá hærri laun, enga aðra breytingu. Mér dettur ósjálfrátt í hug frásögn úr frægu skáldriti eftir Ibsen, um mann, sem er að drukkna. Hann vill biðja til guðs og ætlar að hafa yfir „faðir vor“, en hann man það ekki; hann man ekkert nema orðin „gef oss í dag vort daglegt brauð“. Eða þarf hæstiréttur máske meira daglegt brauð fyrir umhyggju sína með dánar- og þrotabúum?

Hv. minni hl. biður aðeins um hærri laun; hann sér ekki, að þurfi neinar umbætur — aðeins hærri laun. Ég fyrirlít þennan lága hugsunarhátt og ég vil álíta, að lágum hugsunum hæfi lág laun.

Þá vill hv. minni hl. ekki hafa ákvæði frv. um félag málaflutningsmanna. Þau eru sett í frv. til þess að reyna að hafa bætandi áhrif á siðferði innan þessarar stéttar og eru sniðin eftir fyrirmyndum í nærliggjandi löndum. Með þessum ákvæðum eru málaflutningsmennirnir við fimmtardóm settir undir eftirlit stjórnar síns félags og félagið undir eftirlit landstjórnarinnar. Þetta fyrirkomulag yrði vafalaust til stórbóta, því þó að því verði ekki neitað, að margir nýtir menn eru innan þessarar stéttar, þá eru til ýmsar misfellur þar, sem þörf væri að laga og félagi málaflutningsmanna væri auðvelt að leiðrétta. Það getur verið, að stjórn félagsins sé í frv. gefið fullmikið vald til þess að ákveða taxta málaflutningsmanna, og er ég fús til þess að eiga samstarf við hv. minni hl. um breytingu á þeim ákvæðum.

Brtt. hv. þm. við 64., 65. og 66. gr. eru afleiðing af öðrum brtt., sem falla, ef þær brtt. verða felldar, og þarf ég ekki að fjölyrða um þær.

Mín niðurstaða af athugunum á afstöðu meiri og minni hl. n. er sú, að nefndarhlutarnir geti orðið sammála um eitt þýðingarmikið atriði, og það er hin opinbera atkvgr. Hinar brtt. minni hl., hv. 4. landsk., miða allar að því, að breyta frv. í hið úrelta, gamla form, og er því ekki hægt að fallast á neitt af þeim. Hann segir, að ekki sé fært að breyta neinu öðru í núverandi fyrirkomulagi fyrir utan opinbert dómsatkvæði, nema að hækka laun dómaranna.