18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í C-deild Alþingistíðinda. (1784)

166. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er alveg rétt, sem hv. flm. sagði, að þetta er orðið talsvert alvarlegt mál fyrir okkur Íslendinga. Sú breyt., sem hér er aðallega farið fram á, er að koma kostnaðinum meira á almenning en verið hefir, og er það miðað við það, að þá verði hægt að halda sjúkdóminum í skefjum.

Ég verð að játa, að ég álít, að þetta sé þýðingarmikið mál, en hinsvegar finnst mér, að það verði að aðgætast vandlega, áður en mörgum hundruðum sjúklinga er varpað að meira eða minna leyti upp á ríkissjóð. Annarsvegar verður að líta á nauðsynina, en hinsvegar á getuna. Og ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til þess, að menn, sem sæmilega eru efnaðir, borgi ekki læknishjálp fyrir sig. Það getur ekki orðið fyrr en út úr ítrustu nauðsyn, að slíkar ráðstafanir séu teknar upp, eins og t. d. með berklavarnir.

En ég álít heppilegt, að frv. hefir komið fram, af því málið er svo stórt, að nauðsynlegt er, að bæði Alþingi og eins borgarar landsins viti, hvað hér er á ferðum. Ég er ekki alveg viss um, að það eina, sem gera þarf í þessu máli, sé það, sem hv. flm. þessa frv. stinga upp á, en það er ef til vill einfaldast.

Ég vil svo styðja það, að þessu frv. verði vísað til n. til ítarlegrar meðferðar.