18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í C-deild Alþingistíðinda. (1785)

166. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Flm. (Halldór Steinsson):

Ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., að allir sjúklingar með kynsjúkdóma skuli fá læknishjálp greidda að öllu leyti af opinberu fé. Aukinn kostnaður eftir þessu frv. verður eingöngu sá, að ætlazt er til, að eigi færri en 10 sjúkrarúm séu tryggð þessum sjúklingum. Kostnaður getur því ekki orðið tilfinnanlegur frá því, sem nú er, því að vitanlega er ætlazt til, að þeir borgi lækningarkostnað, sem hafa efni á því, alveg eins og hæstv. dómsmrh. sagðist álíta, að rétt væri, en úr því verður læknir að skera, hverjir borga og hverjir ekki. Kostnaður sá, sem þetta frv. hefir í för með sér, eykur því mjög lítið á þann kostnað, sem nú er í þessum efnum.