30.03.1931
Efri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

249. mál, merking á útfluttum saltfiski

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Ég hefi leyft mér að flytja þetta frv. um merkingu á útfluttum saltfiski. Ástæður mínar eru þær, að ég tel rétt, að hið opinbera hafi afskipti af því, hvernig sú vara er merkt. Fyrst og fremst er nú orðin lögfest merking á kjöti og ull, og sérstaklega er þörf að fá fastar reglur um merkingu á þessari voru, sem merkja þarf með tilliti til tegundar, stærðar, verkunarstigs og gæða, og verður því merkingin að vera mjög margbrotin, til þess að sundurgreining sé nægileg, og skiptir því miklu, að fundin sé sem auðveldust leið í málinu. Fram á síðustu ár hefir ekki nema tiltölulega lítill hluti saltfiskjar verið merktur við útflutning. Merki er ekki hægt að setja á annan fisk en þann, sem fluttur er út í umbúðum. Og eins og kunnugt er, eru ekki nema ein 2–3 ár síðan tekin var upp sú regla að flytja fiskinn út í umbúðum.

Það hefir verið svo og mun verða áfram, ef þingið hefir ekki afskipti af, að útflytjendur skipa fyrir um merkingu á fiskinum, eftir því sem þeir telja haganlegast fyrir sig. Útflytjendur hafa sitt merkið hver og breyta tíðum um merki frá ári til árs. Kemur það tíðum fyrir, að sami framleiðandi selur jafnvel 4 útflytjendum fisk sama árið, og verður seljandinn þá að breyta um merkingu á fiskinum eftir vilja hvers útflytjanda. Aðaltilgangur þessa frv. er að samræma merkingu á fiskinum og að sama aðalmerki geti gilt fyrir alla útflytjendur, þó svo, að útflytjendur geti sett sitt merki á hvern pakka, 2–3 stafi, í stað þess að þeir hafa sett heilt orð eða tvö orð auk tölustafa á hvern pakka. Merkingin, sem hér er gert ráð fyrir, er þannig t. d., að stórfiskur nr. 1., fullþurr, sé merktur: „l. A. 1.“ og þar undir orðið „Ísland“ á miðjum pakka, til þess að sýna, að hér sé um íslenzka voru að ræða. Útflytjandi hefir þá rétt til að setja merki sitt á efra horn pakkans til vinstri handar, en sé annar seljandi en útflytjandi, má setja merki seljanda í efri horn pakkans til hægri handar. Annars gæti komið þar merki landsfjórðungs eða útflutningsstaðar.

Sama gildir um aðra flokka fiskjar. Breyting verður aðeins á tölustöfum og bókstöfum, þegar flokkað er eftir tegund, stærð, verkunarstigi eða gæðum. Þarna er um að ræða merkingu, sem getur orðið föst að öðru leyti en breyta þarf til um merki seljanda, sem oftast er sama og framleiðandi, og merki útflytjanda.

Ég held, að það verði ekki varið, að það fyrirkomulag, sem nú ríkir í þessum efnum, er ekki hagstætt fyrir þá, sem fisk hafa til sölu, og þyrfti að bæta úr því. Hitt, að ég hafi fundið réttu leiðina að öllu leyti, er sjálfsagt vafamál, en þá stendur til bóta að finna aðra hagkvæmari merkingu. En ég skal geta þess, að þessi aðferð er fundin upp af manni, sem mjög mikið hefir fengizt við útflutning á fiski, og það tel ég talsvert mikla tryggingu fyrir því, að hér sé stigið í rétta átt. Eftir eðli málsins geri ég ráð fyrir, að þetta frv. ætti að lokinni umr. að fara til sjútvn., og legg ég til, að því verði vísað þangað.