13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í C-deild Alþingistíðinda. (1805)

249. mál, merking á útfluttum saltfiski

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

N. hefir orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. með lítilsháttar breytingum.

Fyrsta breyt. er sú, að í staðinn fyrir, að í 3. gr. frv. 3. málsgr. er gert ráð fyrir, að útflytjandi fiskjar hafi rétt til að setja merki sitt á fiskpakka, sem út eru fluttir, þá sé hann skyldur til þess. — Breyt. af sama tægi er við 4. málsgr. sömu gr., þar sem talað er um, að sé annar seljandi en útflytjandi, þá megi hann setja sitt merki á fiskpakkana, en n. vill, að hann sé einnig skyldugur til þess.

N. hefir athugað frv. gaumgæfilega og telur bót að því að ákveða fast um merkingu á þeim fiski, sem út er fluttur, og láta það ekki vera háð vilja hvers útflytjanda, eins og verið hefir.

Í 2. gr. frv. er lagt til, hvernig fiskinn skuli merkja eftir tegund, þurrkunarstigi og gæðum. N. hefir ekki talið ástæðu til að gera breyt. við það. Vegna þess að þetta er á byrjunarstigi, mun e. t. v. þykja hentara að taka upp önnur merki síðar, en það verður ekki fundið út, hvað hentast er í þessum efnum, nema með því að reyna eitthvað.

Við 1. umr. málsins talaði ég um nauðsynina á því, að hið opinbera hefði afskipti af merkingu fiskjar, og sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það frekar en ég gerði þá, ef ekki koma fram raddir, sem gefa mér tilefni til þess að fara ítarlegar út í þá hugmynd, sem stendur hér á bak við. Ég gat þess þá, að till. í frv. hefðu verið samdar af manni, sem hefði unnið að fisksölu og merkingu á fiski um margra ára bil, og eru það því nokkuð sterk meðmæli með frv., að það er byggt upp eftir till., manns, sem hefir þekkingu í þessum efnum.