26.03.1931
Efri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í C-deild Alþingistíðinda. (1814)

256. mál, laun embættismanna

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það, sem hæstv. ráðh. sagði viðvíkjandi kröfu n. um undirbúning launalaganna, fannst mér varla frambærilegt. Hann sagðist engu geta lofað, þar sem kosningar færu í hönd. En þetta er mál, sem hver stj. á að vinna að, án tillits til þess, hvort kosningar eru í nánd. Færi svo, að ný stj. tæki við, vildi ég einnig láta það verða skilaboð til hennar, ef þetta frv. nær samþykki, að hún undirbúi þetta mál. Það eru tilmæli fjhn. til hverrar stj., sem situr að völdum, að láta ekki þannig standa með eilífum framlengingum.

Annað var það, sem hæstv. ráðh. nefndi, og gæti verið ástæða, en það er, að gengismálið er ekki enn leyst. Ég skal engu spá um, hvort það mál verður afgr. á þessu þingi, en þó tel ég sennilegt, að því verði skipað einhverntíma á þessu tímabili. Það er því alveg óhætt að byrja á undirbúningnum, því að miklum gögnum þarf að safna, til þess að launalögin komi réttlátlega niður.