28.03.1931
Efri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í C-deild Alþingistíðinda. (1834)

274. mál, framfærslulög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Við hv. 6. landsk. þarf ég fátt að ræða. Í síðustu ræðu sinni fór hv. þm. að afsaka þau kuldalegu orð, sem mér fannst hann beina til frv. Hv. þm. getur átt von á því, að ummæli hans komi alveg rétt í Alþýðubl., og tíðindamaður blaðsins, sem hér situr, er næg trygging fyrir því. En skilji aðrir ummæli hv. þm. eins og ég, gæti ég trúað, að mörgum hefði fundizt anda kalt til frv. í fyrstu ræðu þm. Og sérstaklega í niðurlagi ræðu sinnar gerðist þm. málsvari fyrir því, að taka smáu skrefin, og að mér fannst, andmæla því, að taka svo stór stökk, sem frv. fer fram á. (GL: Það hefir þá bara verið tilfinning.). Já, en þá tilfinning eða álit, sem mér fannst ég geta dregið af orðum hv. þm.

Við hv. 3. landsk. vil ég segja það, að engin ástæða er til að ætla, að þetta frv. sé borið fram til að sýnast. Þetta er 7. árið, sem við höfum borið fram breytingar þessu svipaðar við fátækralögin, og þessar brtt. og þetta frv. hefir inni að halda þær skoðanir, sem Alþýðuflokkurinn hefir haldið fram í þessum málum, bæði á þingi og utan þings. Og þær lítilsháttar breytingar til bóta, er gerðar voru á fátækralögunum 1927, voru fram knúðar af umr. þeim, er Alþýðuflokkurinn hefir komið á stað um þetta mál. Bæði íhöldin hafa orðið að beygja sig fyrir því almenningsáliti, sem Alþýðuflokkurinn hefir skapað í þessu og fleiri málum. Svo er þessu t. d. farið um 21 árs kosningarrétt. Sú krafa hefir verið borin fram af Alþýðuflokknum frá upphafi, og nú er svo komið, að hinir flokkarnir hafa ekki þorað annað en ljá henni fylgi sitt líka. Það er almenningsálitið utan þings, sem úrslitum ræður. Það má vel, vera, að í því efni, sem hér um ræðir, sé það ekki enn nægilega sterkt til þess að allt landið verði gert að einu framfærsluhéraði, en það almenningsálit skapast fyrr eða síðar með því að bera málið fram á þingi og tala um það í tíma og ótíma og halda því sívakandi. Það má vel vera, að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi. En það vantar áreiðanlega ekki nema herzlumuninn til þess að stefna Alþýðuflokksins sigri í þessu máli, og því teljum við varhugavert að vera að stíga smáskref til endurbóta á fátækralöggjöfinni, því að slíkt er ekki til annars en að tefja fyrir gagngerðum umbótum. Það er rétt, að frv. kemur seint fram á þessu þingi, en hvorki hv. 3. landsk.hv. 6. landsk. hefir leyfi til að segja, að við berum það fram til að sýnast. (GL: Ég hefi aldrei sagt það.). Nei, ekki beint, en mér fannst vera hægt að lesa það á milli línanna.

Hv. 3. landsk. hafði þá sömu aðferð og hann er vanur, að segja, að allt standi ómótmælt, sem hann hefir sagt, hversu oft sem búið er að hrekja öll hans rök. Þetta er venja málaflutningsmanna fyrir rétti, og þykja þar ef til vill góðar og gildar, en í þingsalnum eiga þær miður við.

Hv. 3. landsk. sagði, að flaustursbragur væri á frv. Ég skal ekki deila við hann um þetta, en þó að einhver smíðalýti kunni að vera á frv., eru þau ekki meiri en svo, að hægðarleikur væri að laga frv. svo í n., að innihald og efnisniðurröðun þyrfti engum misskilningi að valda. Hv. 3. landsk. á sæti í þeirri nefnd, sem væntanlega fær frv. til meðferðar, og hann er svo góður nefndarmaður, er hann vill það við hafa, að með hans aðstoð ætti að vera hægt að gera frv. vel og greinilega úr garði.

Því heyrist oft fleygt, að stjórnarfrv. séu með nokkrum flaustursbrag, og er aðstaða til samningar þó betri þar en hjá einstökum þm. Stjfrv. eru oftast samin af nefndum eða sérfróðum mönnum, er hafa nægan tíma fyrir sér, en þingmannafrv. hinsvegar samin í hjáverkum á stuttum tíma. Ég held, að við flm. getum því látið okkur þessa aðfinnslu hv. 3. landsk. í léttu rúmi liggja.

Hv. 3. landsk. var að afsaka afskipti sín af fátækramálum og sagði, að frá sér hefði farið aðeins eitt bréf um þessi efni. Ég skal ekki deila um þetta við hann, en ótrúlegt þykir mér, að ekki liggi meira eftir hann í þessum efnum en eitt bréf, eftir svo langa hreppsstjórn. Ætli hér geti ekki staðið líkt á og segir í sögunni um prestinn, þegar biskupinn lagði galdrabækurnar fyrir hann og spurði hann, hvort hann þekkti stafina. Prestur kvaðst ekki þekkja einn staf, en gaf síðar þá skýringu, að þetta hefði hann sagt af því, að hann hefði ekki þekkt einn staf, heldur alla. Það getur vel verið, þótt hv. 3. landsk. hafi ekki skrifað nema eitt bréf, að hann hafi lagt á hundrað ráð til að losa sína sveit við fátæklinga og koma þeim á aðrar sveitir.

Út af ummælum hv. 3. landsk. um verklýðsfélögin vil ég segja það eitt, að það er ósköp þýðingarlítið fyrir hann að vera að ýfast við þeim, því að þau standa nákvæmlega jafnrétt eftir sem áður fyrir það. Þau skapa kauptaxtann ýmist í samráði við atvinnurekendur eða þá hvað sem atvinnurekendur segja. Þetta er þeirra valdsvið, sem nú orðið er viðurkennt af flestum hér og alstaðar í öðrum löndum. Það er því miður viturlegt hjá hv. 3. landsk., að ætla að fara að setja sig upp á móti taxta verkalýðsfélaganna. Eftir kosningum að dæma, er Alþýðuflokkurinn 1/5 hluti þjóðarinnar, og eru þó fleiri í verklýðsfélögunum en flokknum. Mér þætti gaman að vita, hvort hv. 3. landsk. er alvara með það, að vilja ganga fram hjá allt að 1/3 landsmanna í löggjöfinni.