31.03.1931
Efri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í C-deild Alþingistíðinda. (1840)

295. mál, tannlækningar

Flm. (Jón Jónsson):

Hv. þm. Snæf. helt því fram, að fólk mundi ekki eiga illt með að leita tannlækna, þó að þeir væru ekki búsettir úti um land, vegna þess að þeir væru oft á ferð, en ég hefi nú litið svo til, að þeir væru aðeins einstöku sinnum á ferð, og þá aðeins þar, sem mest er að gera og helzt um hábjargræðistímann, þegar fólk hefir mest að gera og á óhægast með að hitta þá. Og það er mikill munur á því fyrir fólk, hvenær þeir eru á ferð.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki á færi slíkra manna að ákveða, hvenær skyldi setja gervitennur í menn. En ég vil benda hv. þm. á það, að í frv. er fyrirbyggð hætta af þessu, því að þar er gert ráð fyrir, að þetta skuli gert í samráði við viðkomandi héraðslækni. Það atriði er því með öllu tryggt, þar sem líka þarf leyfi landlæknis, og það er hart, ef menn trúa honum ekki til að veita þessar undanþágur réttilega. Þessu er því svo í hóf stillt, að það er alveg óhætt að lofa frv. að ganga áfram.