13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í C-deild Alþingistíðinda. (1867)

351. mál, afstaða foreldra til óskilgetinna barna

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég þakka hv. deild fyrir leyfið.

Frv. þetta lá fyrir síðasta þingi. Kom það þá, eins og nú, of seint fram og náði ekki fram að ganga. Var það þá, eins og nú, borið fram að tilhlutun mæðrastyrksnefndarinnar, sem hefir nokkuð kynnt sér hagi fátækra barnsmæðra og orðið þess vör, að þeim gengur oft allerfiðlega að fá goldin meðlögin með börnum sínum.

Það getur átt sér margar orsakir og ekki æfinlega víst, að þær séu fyrst og fremst viljaleysi eða kæruleysi hlutaðeigandi manna, þó að það eigi sér vitanlega stað, en það geta líka verið aðrar orsakir, svo sem fjarvera mannsins, fjárþröng, heilsubilun eða ómegð. Undir öllum slíkum kringumstæðum er augljóst, að erfitt getur verið að fá greidd meðlög hjá þessum mönnum, og hefir mæðrastyrksnefndin orðið þess áskynja, að mörg móðirin hefir liðið bjargarleysi fyrir sig og barn sitt af þessari ástæðu. Þótt lög mæli svo fyrir, að barnsmeðlag skuli greitt af sveitarsjóði, þegar faðirinn bregzt skyldu sinni af einhverri ástæðu eða er ófær til að greiða meðlagið, þá mun mörg stúlkan hafa veigrað sér við því í lengstu lög að fara þá leiðina, ekki sízt á meðan þau ákvæði laganna eru gildandi, að sveitinni væri ekki skylt að greiða barnsmeðlagið, fyrr en leitað hefði verið eftir meðlagsgreiðslu á meðal framfærsluskyldra vandamanna barnsómagans og gengið úr skugga um, að ómaginn kæmist ekki af án styrks.

Hér var um mjög óviðkunnanlegt ákvæði að ræða, sem ennþá stendur í 19. gr. fátækralaganna, og töfin, sem oft og einatt leiddi af því, og þjarkið, sem því var samfara oftast nær, kom sér venjulega mjög illa, eins og skiljanlegt er, þegar þess er gætt, að hér var jafnan brýn og bráð þörf, þar eð hlutaðeigandi er svo að segja blásnauð, munaðarlaus og úrræðalaus stúlka með smábarnið í fanginu. Það var því mikil bót í máli, er stjórnarráðið gaf í fyrra gildandi úrskurð um, að sveitasjóðir skyldu hlaupa undir bagga og leggja út barnsmeðlögin án þess að leita eftir getu vandamanna, sem alloft reyndist árangurslítið.

Ég gæti nefnt dæmi, sem sýndu, hvaða vandræði stöfuðu af þessu ákvæði 19. gr. fátækralaganna fyrir utan þá ósanngirni að ætlast til þess, að t. d. lúnir foreldrar eða móðir stæði straum af tilkostnaði við framfærslu barnabarnsins, en faðir þess losnaði við sínar sjálfsögðu skyldur.

Sem betur fer, er nú bætt úr þessu misrétti með fyrrnefndum úrskurði stjórnarráðsins.

En það, sem þetta frv. fer fram á, er að breyta því lagaákvæði, að meðlagsfúlga, sem sveitin greiði barnsmóður fyrir hönd barnsföður, sé miðuð við meðalmeðlag í þeirri sveit, sem barnið dvelur í.

En eins og kunnugt er, er það meðlag ákveðið fyrir þrjú ár í senn af atvinnumálaráðuneytinu eftir tillögum sýslu- og bæjarstjórna.

Við það væri þó ekkert að athuga, ef þessi meðalmeðlög væru nokkurnveginn rífleg. En það eru þau venjulega ekki, heldur þvert á móti.

Fyrir síðastl. 3 ár voru þau ákveðin hér í bænum:

Fyrir börn frá 1–4 ára .... 270 kr.

— — — 4– 9 — . . . . 215

— — — — 9–14 — . . . . 250

— — — — 14–16 — . . . . 60

— Hér ræðir um helming meðgjafarinnar, þann helming sem föðurnum er gert að greiða. Að sjálfsögðu ber þó móðurinni að annast um hinn helminginn.

Nú vita það allir að verkakaup karls og konu er harla ólíkt, þar sem konan ber oftast meira en helmingi minna úr býtum en karlmaðurinn. Virðist það því allórétt, að hún eigi að bera sömu gjöld sem hann, og það er mjög eðlilegt, að móðurinni veitizt erfitt að greiða meðlag með barni sínu af sínu lága kaupi, enda veit ég, að margar barnsmæður hafa reytt sig og rúið og gengið alls á mis til þess að geta staðið í skilum með barnsmeðgjöfina. Og þar að auki verða þær að borga hærri meðgjöf heldur en faðirinn, þegar meðlag hans er miðað við meðalmeðgjöfina.

Segjum t. d., að stúlka ráðstafi barni sínu á barnaheimilið hérna í bænum. Þar er mánaðarmeðgjöfin 60 kr. á mánuði. Upp í þessar 60 kr. koma svo kr. 22.70 á mánuði, meðalmeðgjöf sveitarinnar. Er þá ekki um annað að gera en að móðirin borgi mismuninn, og er fljótséð, að hann verður alls ekki svo lítill yfir allt árið. M. ö. o., barnsmóðirin greiðir allt að því helmingi meira með barni sínu en barnsfaðirinn, þegar meðlag hans er miðað við það meðalmeðlag, sem ég hefi hér talað um. Að vísu má til sanns vegar færa, að það megi ráðstafa barni á ódýrari hátt en hér er gert ráð fyrir, en að því er ég bezt veit, mun það ekki vera hægt hér í grennd að koma barni í góðan stað fyrir öllu minna en 50 kr. á mánuði.

Hafi stúlkan hinsvegar barn sitt sjálf og veiti viðtöku þessum 22 kr. og 70 au. mánuð hvern, þá mun ekki þurfa að lýsa því fyrir hv. þdm. hvaða býlífi hún lifir í, því að ekki er þess að vænta, að stúlka, sem bundin er yfir barni, geti unnið sér mikið inn. En af þessu getur hæglega leitt sitt af hverju, sem ég eyði ekki orðum að að sinni.

Nú munu allflestir meðlagsúrskurðir hljóða upp á eitthvað ríflegri upphæð en meðalmeðgjöf tiltekur, enda þótt einhver hliðsjón kunni að vera höfð af henni. Það yrði því líklega í mörgum tilfellum nokkur bót fyrir þær stúlkur, sem hér eiga í hlut, ef sveitinni yrði gert að greiða meðlagið eftir úrskurði valdsmanns, en ekki eftir meðalmeðgjöf.

Nú kann einhver að óttast, að með þessari breyt. yrði sveitarsjóðum bundinn baggi aukinna útgjalda, og í sumum tilfellum játa ég, að svo kunni að verða. En með henni yrði betur tryggður réttur og tilvera vesalings barnanna, þeirra þjóðfélagsborgara, sem eiga sér ekki annars úrkosta en að flýja á náðir sveitarinnar Þegar á morgni æskunnar, og ef það yrði örlítil hjálp til þess að gera þá að nýtari og hraustari mönnum en ella myndi, þá virðist mér hér vera lagt í sjóð, sem á sínum tíma mun geta borið þjóðinni góða vexti.

2. gr. frv. fer fram á, að frestur til að krefjast barnsfararkostnaðar verði lengdur úr 6 mánuðum í 12 mánuði.

Það hefir komið fyrir, ekki ósjaldan, að stúlkur hafa misst af barnsfararfúlgunni sökum þess, að þær höfðu ekki varað sig á því, að gjaldfrestur á greiðslu barnsfararkostnaðar er aðeins 6 mánuðir, en barnsfaðernismál má draga að höfða í eitt ár eftir að barnið fæðist. Sýnist því öll sanngirni mæla með því, að frestur þessi verði lengdur eins og frv. fer fram á.

Ég orðlengi þá ekki meira um málið að sinni, en óska, að því verði vísað til hv. allshn. að lokinni 1. umr.hv. nefnd hefir þegar með höndum mál svipað þessu, og vil ég þá jafnframt láta í ljós þá eindregnu ósk, að hv. nefnd fari sem fyrst að skila af sér þeim málum. Ég álít að þau mál séu ekki þýðingarminni fyrir þjóð vora en önnur mál, sem hafa verið til umræðu í þessari hv. deild og allmiklum tíma varið til.