07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (1884)

91. mál, sveitargjöld

Magnús Guðmundsson:

Ég bjóst við, að hv. flm. myndi leggja til, að málið færi til fjhn. Annars hefði ég sennilega ekki kvatt mér hljóðs.

Það er rétt hjá hv. flm., að þetta mál var borið upp í mþn. í skattamálum. Við nm. gátum ekki orðið sammála um það og klofnuðum í þrjá hluta. Þarf því hv. þm. Ísaf. ekki að vera eins afbrýðissamur út af sambandi okkar, míns og hv. flm., og hann virtist vera um daginn út af frv. um tekju- og eignarskatt. En útlit er fyrir, að stj. hafi ekki viljað fylgja hv. flm. að málum, úr því að hún tók ekki að sér að flytja frv. Hv. flm. sagði, að útsvörin næmu einum þriðja af gjöldum ríkissjóðs. Nú munu útsvörin venjulega nema um 4 millj. Eftir þessu getur ekki verið miðað við árið 1930, því að þá fóru gjöldin langt fram úr 12 millj., eins og kunnugt er.

Aðalatriðið í frv. hv. flm. er tilraun hans til að losna við niðurjöfnun „eftir efnum og ástæðum“. Ég skal játa, að sú aðferð hefir sína galla, þar sem margir gjaldendur eru. í Rvík er hún t. d. heldur grófur mælikvarði. En í sveitum, þar sem fámennt er og hver þekkir annan, ætla ég, að engan mælikvarða sé hægt að finna betri. Ég hefði getað fylgt hv. flm. í því, að taka tekju- og eignarskattinn einfaldan til sveita og bæja eftir sömu reglum og til ríkissjóðs og jafna svo hinu niður eftir efnum og ástæðum. En ég get ekki verið meðmæltur svo stóru stökki sem lagt er til í frv. Eftir því á að taka tekju- og eignarskattinn tvöfaldan til bæjar- og sveitarfélaga, en eftir 5. gr. má þó hækka þennan tekjustofn um 50%. Þetta leiðir til þess, að útsvörin geta orðið tekju- og eignarskatturinn þrefaldur. Og þar af leiðir það, að ég fæ ekki betur séð en allar tekjur þeirra manna, sem hátekjumenn gætu kallazt, færi í greiðslur tekju- og eignarskattsins. (HJ: Og hrökkva ekki til). Það er alveg rétt hjá hv. þm., þær hrökkva ekki til. Ég veit, að hv. flm. er kunnugt um þetta og að hann svarar, að svona mikið verði hvort sem er að greiðast, annars geti hrepparnir ekki staðizt útgjöld sín. Mér finnst eðlilegast, að útsvörin séu greidd eftir því sem þarfir sveita og bæja verða á hverjum stað og tíma. Held ég, eins og ég áður hefi tekið fram, að heppilegast sé að jafna niður gjöldunum eftir efnum og ástæðum, og er ekki í minnsta vafa um, að það verður farsælast. Þó skal ég geta þess, að ég er honum sammála um tekju- og eignarskattinn að vissu leyti. (HStef: Þeir hvíla á sama stofni). Þeir hvíla á sama stofni, en þó ekki að öllu leyti.

Hinsvegar er mér mjög illa við þá ráðstöfun, að afnema þau lög, sem nú eru um sýsluvegasjóði, því að það er öllum vitanlegt, að margar og miklar framkvæmdir hafa verið gerðar í skjóli þessara laga, sem gott hafa haft í för með sér fyrir sveitarfélögin. Og ég fyrir mitt leyti er þess fullviss, að sýslufélögin eru fúsari að gera ýmsar framkvæmdir, ef þau fá sjálf að ráða, hvernig þeim skuli hagað. Ég hefi orðið var við allmikinn ugg í bændum upp á síðkastið við það, ef skattmatið hækkaði, og er ég viss um það, að þeim þætti það slæm sending að fá fasteignaskattinn tvöfaldaðan. Og svo þetta sérstaka gjald, 1% af brúttotekjum umfram 800 kr. fyrir hvern mann, er gjaldandi hefir fram að færa. Mér er ekki alveg ljóst, hvað er skilið við þetta. Sennilega er átt við allar tekjur manna án tillits til gjalda til að afla þeirra.

Hv. flm. eyddi nokkrum tíma ræðu sinnar í það að sýna, hvað útsvörin kæmu ójafnt niður, en með þessu frv. verður engin breyt. á því. Sú eina breyt., sem á þessu gæti bót ráðið, er sennilega sú, að gera allt landið eitt framfærsluhérað, að ríkissjóður taki að sér öll gjöld héraðanna og allar tekjur þeirra renni svo til ríkissjóðs.

Af ástæðum þeim, sem ég hefi hér nefnt, get ég ekki fylgt þessu frv.