07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (1888)

91. mál, sveitargjöld

Sveinn Ólafsson:

Ég get verið hv. flm. frv. þakklátur fyrir það, að hafa með því gert tilraun til að finna fastan tekjustofn fyrir sveitarsjóðina. Ég hefi oft til þess fundið við niðurjöfnun útsvara, hve óheppilegt það er, að sveitarsjóðirnir skuli engan fastan tekjustofn hafa. Einkum er þetta þó tilfinnanlegt síðan fátækratíundin var úr lögum numin. En þótt ég lýsi almennri ánægju yfir því, að tilraun sé gerð til að bæta úr þessu, þá verð ég þó að geta þess, að ég felli mig ekki við öll ákvæði þessa frv. Og ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Skagf., að aukaútsvörin séu réttlátlegust, ef trygging fengist fyrir því, að sanngjarnlega væri lagt á gjaldendurna. Ef aukaútsvörin eiga að falla niður með öllu og fastur skattur að koma í þeirra stað, þá gæti svo farið, að skattgjaldið yrði miklu þyngra á þeim, sem miður eru færir til að bera þungar byrðar, en ella mundi, ef jafnað væri niður eftir „efnum og ástæðum“. Ég fyrir mitt leyti tel æskilegast, að talsverður hluti af útsvörunum fengist með föstum tekjustofni, en þó ekki framar en svo, að nokkuð vítt svigrúm væri eftir fyrir niðurjöfnun, til þess að fá réttlát hlutföll eftir getu gjaldenda, svo sem kunnugum væri fært að meta. — Ég skal geta þess, að mér er kunnugt um það, að í nokkrum sveitarfélögum er farið að beita þeirri aðferð, að nokkur hluti útsvaranna er tekinn eftir skattskrá; þó mun það einungis vera tiltölulega lítill hluti. Mætti sjálfsagt nota þá aðferð meira en gert hefir verið, en þó ekki eins mikið og ráð er fyrir gert í þessu frv. Mér finnst ákvæðið um tvöfaldan tekju- og eignarskatt viðsjárvert. Ef ég hefði verið flm. þessa frv., þá hefði ég ekki lagt til, að hann væri ákveðinn meira en einfaldur og teldi þó nógu djúpt tekið í árinni. Svipað er að segja um fasteignaskattinn, þó ég telji reyndar, að þar sé ekki eins hátt skotið yfir markið. Ég vildi skjóta þessum aths. fram, áður en frv. fer til n. Ég held, að réttara væri að vísa því til allshn. en til fjhn. Mér finnst, að eftir eðli sínu eigi það frekar þar heima. — því var líka skotið að mér núna samstundis, að útsvarslögin hefðu á sínum tíma verið hjá allshn., en þetta mál er þeim alveg hliðstætt og á því að fara til allshn.