07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

91. mál, sveitargjöld

Bernharð Stefánsson:

Mér finnst langþýðingarmesta atriðið af þeim, sem hv. flm. nefndi í ræðu sinni, það, hve misjöfn útsvörin eru í sveitum landsins. Að þessu er líka nokkuð vikið í grg. frv. En ég sakna þess mjög, að engin till. er í frv. um að bæta úr því misrétti. Ég vildi því skora á hv. flm. að gera till. um þetta, jafnframt því, sem ég vil skora á þá n., sem fær frv. til meðferðar, að athuga það gaumgæfilega og einnig að taka þessa hlið til athugunar.

Það hefir komið fram í umr., að eina leiðin til að jafna þetta misrétti væri sú, að gera allt landið að einu framfærsluumdæmi, eða jafnvel að öll gjöld til fátækraframfæris rynnu í ríkissjóð, og hann stæði síðan straum af öllu fátækraframfæri. Ef þetta væri eina leiðin, þá er vitanlega ekki hægt að koma því fyrir í þessu frv. En ég held, að nokkuð mætti vinna í þessa átt og fella ákvæði í þetta frv., sem jöfnuðu nokkuð mismuninn. Ég gæti hugsað mér fyrirkomulagið eitthvað á þann hátt, að því meiri sem sveitarþyngslin væru á einum stað, þeim mun meiri hluti af tekju- og eignarskattinum gengi til sveitarþarfa, en minna þá í ríkissjóð. En meira þá til ríkissjóðs þaðan, sem lítil sveitarþyngsli væru. Ég get jafnvel hugsað mér, að þar sem sveitarþyngslin eru mest, gengi allur skatturinn til sveitarsjóðsins.

Einn hv. þm. sagði, að eftir þessu frv. gæti vel svo farið, að gjaldþegn yrði að greiða 104 af hundraði af tekjum sínum í skatta. Þetta er eflaust rétt. En ég get sannað það, að það hefir komið fyrir úti um land, að menn verði að greiða hærra útsvar heldur en afgangi tekna nemur, þegar frá hefir verið dregið það, sem skattfrjálst er til tekjuskatts. Ég hygg, að menn gjaldi þannig oft ekki einungis 104 af hundraði, heldur mörg 100 af hundraði. (MG: Af hverju lifa þeir menn?). Af skattfrjálsum tekjum. Skattskýrslurnar sína, að ég fer hér með rétt mál. Það er áreiðanlegt, að misréttið milli sveitarfélaganna er mjög mikið og fer versnandi með ári hverju. Og ég tel, að þingið geti ekki öllu lengur hliðrað sér hjá því að finna upp eitthvað, sem úr því dregur. Vil ég því endurtaka áskorun mína til hv. flm. og n., að ganga ekki fram hjá þessari hlið málsins við meðferð frv.