07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (1892)

91. mál, sveitargjöld

Magnús Guðmundsson:

Mér fannst hv. flm. vera nokkuð gustkaldur út af orðum mínum, en ég mælti sannarlega ekki öðruvísi til frv. en það átti skilið. Hann sagðist ekki hafa orðið var við einlægan vilja um samstarf í þessu máli. Ég get ekki viðurkennt, að það sé rétt; ég hefi þegar tekið fram, að ég hefi gert honum tilboð um að láta tekju- og eignarskattinn renna jafnháan til sveitarfélaganna eins og ríkissjóðs nú. En hann vildi það ekki. Það var hugsað hjá mér sem tilraun, en hann hafnaði því tilboði. Hann vill ekkert annað en bað, sem stendur í frv., og sagði, að óséð væri, hvað stj. vildi með þetta mál. Ég dreg þá ályktun, að úr því, að stj. hefir ekki flutt það, vilji hún ekki gera það að sínu máli.

Hv. flm. skildi ekki, hvers vegna ég talaði um gjöld 1930. Það var af því, að þá voru gjöldin óvanalega há. (HStef: Ég tók meðallag). Hefir hv. þm. fengið bréf fyrir því, að gjöldin verði lægri en á síðustu árum? Ég hefi ekki fengið bréf fyrir því. Hann kvaðst ekki skilja, af hverju mér væri illa við að nema burt lögin um sýsluvegina. Það er af því, að ef þau lög eru úr gildi numin, missa sýslufélögin kröfu gegn ríkissjóði um jafnt framlag á móti. Ég veit, að hann mundi segja, að sjálfsagt væri að hækka tillagið til sýsluveganna. En ég er ekki ánægður með það svar. Ég sé í fjárl.frv. stj. fyrir 1932, að það á að strika út framkvæmdir til vega. Það er allt annað að eiga kröfu til ríkissjóðs um ákveðna upphæð en að fara til þingsins í hvert skipti og æskja veitinga fyrir þessu fé. Ég verð að segja, að það er praktískt fyrirkomulag að segja við sýslufélögin: Eftir því sem þið leggið meira á ykkur, eftir því fáið þið meira úr ríkissjóði til ykkar framkvæmda. — Það er góð stefna, en með samþykkt þessa frv. er horfið frá henni. Hann kvaðst ekki geta skilið, að þessi grunur, sem ég lét í ljós um það, að skattaframtal væri ekki alstaðar eins á landinu, væri á rökum byggður. Má þó minna hann á það, að hann sjálfur hefir tekið undir þetta í skattanefndinni. Hann hefir viljað setja undir þennan leka með því að setja yfirskattanefnd til þess að samræma skattinn um land allt. En ef þess þyrfti ekki, því hefir þá hv. þm. greitt atkv. með því að stofna til þessa kostnaðar? Það, sem liggur bak við, er, að tekjuskattslögin eru ekki framkvæmd alstaðar eins á landinu.

Annars verð ég að segja, að ég er þakklátur flm. fyrir að koma með frv., því ég viðurkenni, að hann stendur hér og forsvarar sína grundvallarstefnu, að því er tekjuskattinn snertir, en það er ekki það, sem hægt er að segja um hv. þm. Ísaf. Hann vill stanza við 50% og telur það réttmætt. En hvers vegna er það réttmætt? Það er miklu réttara hugsað hjá hv. 1. þm. N.-M., að það á hvergi að stanza nema þar, sem nauðsyn krefur. Ég verð aftur á móti að viðurkenna, að hv. þm. Ísaf. er praktískari í þessu. Hann sér, að ekki er hægt að koma þessu í gegn. Reyndar eru allir sömu gallar á till. hv. þm. Ísaf. í þessum skattamálum og hinum, sem hann nú fordæmir, en það kemur bara fram í smærri stíl, — munurinn á flísinni og bjálkanum, ekki annað.