07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í C-deild Alþingistíðinda. (1895)

91. mál, sveitargjöld

Haraldur Guðmundsson:

Það eru nokkur atriði úr ræðu hv. flm., sem ég get ekki alveg leitt hjá mér að svara.

Hv. flm. viðurkenndi, að í einstökum tilfellum gæti skatturinn skv. þessu frv. farið fram úr tekjunum, en það kæmi af því, að tekjuþörfin væri svo mikil, að hjá þessu yrði ekki komizt. Ég mótmæli þessu algerlega; þetta er rangt. Og hv. þm. veit vel, að þetta er rangt. Skattskyldar tekjur hér á landi eru milli 35 og 40 millj. kr. alls, en upphæð sú, sem hv. flm. ætlar að fá í útsvör og tekju- og eignarskatt í meðalári, er um 6 millj. kr„ eða 16–17 % af tekjunum. Það er þess vegna fjarri öllu viti, að það þurfi að fara með skattinn upp úr 100% til þess að ná þessum 6 millj. kr., auk þess sem slíkt er hugsanarangt, því ekki verður meira tekið en til er. Ef um það er að ræða, hvort ekki má finna aðrar leiðir en þær, sem þetta frv. bendir á, þá er þess að geta, að ekkert er auðveldara en að semja skattstiga, sem sýnir hvernig hægt er að taka ca. 6 millj. kr. af 35 til 40 millj. kr., þegar vitað er, hvernig tekjurnar skiptast, en um það hefir hv. flm. fengið ítarlegar skýrslur. Mig furðar þess vegna mjög á frágangi þessa frumvarps, og hefði ég búizt við því, að hv. flutningsmaður gerði það betur úr garði að þessu leyti.

Hv. flm. kvað það ekki mikið, þótt hann vildi taka 104% af tekjunum í skatt, og fullyrti, að skv. frv. mínum vildi ég taka 160% af þeim í skatt. Undarlegur skáldskapur er þetta, svo ég ekki noti sterkara orð og ónáði bjöllu forseta. Samkv. frv. mínum um tekju- og eignarskatt er gert ráð fyrir, að skattupphæðin tvöfaldist, og að viðbættu álagi sveitarsjóða þrefaldist, en ef hv. þm. heldur, að þessi hækkun sé fengin með því að þrefalda eða fjórfalda skattstigann, þá fer hann villur vegar. Slík skattspeki er honum einum sæmandi. í frv. mínu er saminn nýr skattstigi einmitt með tilliti til þess, hverjar tekjur ætlazt er til, að verði af skattinum.

Út af ræðu hv. 1. þm. Skagf. er rétt að geta þess, að stighækkandi tekjuskattur getur varla farið fram úr 50%, svo að nokkru verulegu nemi. Ef stighækkandi skattur frá 50–100% er tekinn af tekjunum, liggur í augum uppi, að því minna verður eftir að skattinum frádregnum, sem tekjurnar eru hærri, unz skatturinn verður jafnhár tekjunum, þá verður ekkert eftir. En þetta sannar auðvitað alls ekki, að ekki sé hægt að taka meiri skatt en 50%, ef skatturinn er ekki stighækkandi, enda er ekkert því til fyrirstöðu, að slíkur skattur fari upp undir 100% en tæplega yfir það, eins og í frv. hv. flm. Eðlilegasta leiðin er að semja skattstiga, sem er stighækkandi, t. d. frá 1–50%, miðaðan við flokkun teknanna, þannig að hann gefi til uppjafnaðar 16–17% af öllum hinum skattskyldu tekjum, eða eftir því, sem tekjuþörfin segir til á hverjum tíma. Eða þá að öðrum kosti að taka vissan skatt, ekki stighækkandi, af hverjum flokki teknanna, líkt og gert er í Þýzkalandi og víðar. Hitt er alveg út í loftið hjá hv. flm., að tekjuþörfin sé svo mikil, að skatturinn þurfi að fara fram úr tekjunum ! Annars er þessi fullyrðing svo fráleit, að ekki er orðum að henni eyðandi. Aðalatriðið er að mínum dómi þetta: Einlægast er að taka, þar sem um sameiginlega skattstofna ríkis og sveita og bæja er að ræða, í einu lagi og eftir sömu reglum skattinn til beggja aðila, eftir því sem því verður við komið, líkt og ráð er fyrir gert í frv. mínu. En þá verður líka að semja skattstigann með tilliti til þessa, eins og þar er gert. En þetta frv. gengur vendilega fram hjá því meginatriði málsins, og sömuleiðis skattafrv. stj.

Hv. 2. þm. G.-K. tók dæmi um það, hversu hlutafélög verða misjafnlega hart úti hvað skatt snertir, og fer hv. þm. sennilega með rétt mál í því atriði. En orsakir þessa liggja í ranglátri löggjöf og ranglátu fyrirkomulagi, að því leyti, að hlutafélög með litlu hlutafé verða að greiða miklu meiri skatt af sömu tekjum en hlutafélög með mikið hlutafé og stóra sjóði. Þetta er öldungis óviðunandi ranglæti, en á því finnst engin leiðrétting, hvorki í þessu frv. né skattafrv. hæstv. stj. í frv. mínu um tekju- og eignarskatt er hinsvegar lagt til, að úr þessu sé bætt.

Út af dæmi hv. þm. Dal. er þess að geta, að því fer mjög fjarri, að í gildandi lögum sé tekið nægilega mikið tillit til eignamismunar manna, sem hafa sömu tekjur, t. d. á manni, sem á 20 þús. kr., eða manni, sem skuldar 20 þús. kr. Til þess að laga þetta er eitt ráð, nefnilega að hækka eignarskattinn, en framhjá því er algerlega gengið í þessu frv. Hinsvegar er lagt til í frv. mínu, að eignarskatturinn sé hækkaður yfir 100%, og jafnast því þetta ósamræmi, ef það verður samþ.

Hv. 1. þm. Skagf. dró það Í efa, að skýrsla hv. flm. um útsvör og gjaldþol einstakra héraða væri rétt í öllum atriðum. Ég skal taka það fram, að ég hefi nokkuð kynnt mér þetta, og held ég, að skýrslan sé mjög nærri lagi, og fróðleg er hún á marga lund. Það er vissulega mikill munur á gjaldþoli einstakra héraða, en undarlegt má það heita, ef hv. flm. gerir sér vonir um, að þetta frv. bæti nokkuð úr í þeim efnum eða komi á meira réttlæti og samræmi í tekjuheimtun sveita-og bæjarfélaga. Þetta frv. ætlast til, að lögin um tekju- og eignarskatt séu grundvöllur undir fjáröflun sveita og bæja, en sá grundvöllur er í senn svo mismunandi og víða svo lítilfjörlegur, að lítil von er um, að tekjuþörfinni yrði fullnægt á þann veg, því að tekjuskattur heilla sveita nemur oft ekki meiru en nokkrum tugum króna, svo að jafnvel eftir hinu fráleita frv. flm. yrði þeim alls ekki séð fyrir nægum tekjum.

Ég mun ekki beitast gegn því, að þetta frv. fari Í nefnd, og virðist mér það helzt eiga heima í fjhn. Þetta frv. stendur í beinu sambandi við ýms mál, sem sú n. hefir til athugunar, t. d. öll skattafrv. mín og hæstv. stj.