09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (1902)

92. mál, erfðaleigulönd

Jón Auðunn Jónsson:

Ég get tekið undir það með hv. þm. V.-Húnv. að þetta frv. er athugunarvert að mörgu leyti. Vil ég ekki fara að endurtaka það, sem hann sagði, en vil leyfa mér að benda á eitt atriði, sem ekki kom fram í ræðu hans. En það er ákvæði frv. um, að landræktarfélögum er heimilað að taka land eignarnámi, þó bæjar- eða sveitarstjórnir sjái sér það ekki fært eða vilji ekki gera það, m. a. af fjárhagslegum ástæðum. Þykir mér þetta ákvæði mjög viðsjárvert.

Það mun vera rétt hjá hv. flm, að það er allmisjafnt, hvernig lönd eru leigð — til hve langs tíma og hvað afgjaldið er mikið. Má því vel vera, að rétt sé að setja l. um þetta efni, en út í það sé ég ekki ástæðu til að fara að svo stöddu. Ég vildi aðeins leiða athygli þeirrar n., sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að þessu ákvæði 4. gr., sem ég drap á.