09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í C-deild Alþingistíðinda. (1903)

92. mál, erfðaleigulönd

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég þarf aðeins að segja örfá orð. Andmæli hv. þm. V.-Húnv. gefa mér ekki tilefni til að svara mörgu. Ég býst við því, að um þau atriði, sem hann vék að, séu skiptar skoðanir, eins og ef til vill um fleiri ákvæði frv. Hitt hygg ég, að allir geti verið sammála um, að nauðsynlegt er, að eitthvað sé gert til að ráða bætur á þessum efnum. Ég held, að ekki leiki vafi á því meðal þeirra manna, sem kunnastir eru þessum málum hér á landi, að það ástand, sem nú ríkir hér í þessum efnum, þarf bráðra bóta við.

Hv. þm. V.-Húnv. þótti of langt gengið með þeim ákvæðum frv., að landskákir, sem ætlaðar eru til grasræktar, mættu ekki vera minni en 2 ha., og þær skákir, sem ætlaðar eru til garðyrkju, ekki vera minni en 3000 m2. Þetta er vitaskuld álitamál, og er Alþingis úr að skera, hvað hæfilegt megi þykja að ákveða um þetta atriði. Annars held ég, að ekki sé ráðlegt að setja þetta mark mjög lágt, því að slík lönd koma því aðeins þeim, sem þau taka á leigu, til verulegra nota, ef þau eru það stór, að mönnum er styrkur að þeim sér og sínum til lífsframfæris.

Þá þótti hv. þm. V.-Húnv. þau ákvæði 12. gr. ósanngjörn, að leigutaka eru ætlaðar bætur, ef leiguland hans er tekið til bygginga, en ekki þeim, sem landið lét af hendi í upphafi. Við þessu er það að segja, að landeigandi fær grunnverð landsins greitt við eignarnám þess, eftir því sem það er metið á hverjum tíma (HJ: Hvernig er því mati farið?) Um það er ekki hægt að gefa neina allsherjarreglu, vegna þess, hve staðhættir eru ólíkir víða á landinu, heldur verður þetta framkvæmdaratriði á hverjum stað. Hinsvegar er ekki nema sanngjarnt í alla staði, að leigutaki fái bætur fyrir að landið er þannig tekið af honum, því að hann er um leið sviptur arði af því, sem hann er búinn að rækta.

Þá þótti hv. þm. V.-Húnv. einnig sem ákvæði 18. gr. mundu leiða til of mikils kostnaðar. Þó skildist mér, sem hann vildi ekki mæla á móti því, að eftirlit yrði haft með þessum leigulöndum, svo að við séum að því leyti til sammála, enda er nauðsynlegt, að eftirlit sé haft með því, hvernig ræktun þessara landa er hagað o. s. frv. Vil ég í þessu sambandi skýra frá því, að þótt frv. geri ráð fyrir, að sérstökum manni sé falið þetta eftirlit, hafði mþn. það í huga, að þeim búnaðarmálastjóranum, sem um ræktunarmálin annast, yrði falið það á hendur. Ætti því ekki að þurfa að óttast það svo mjög, að mikinn kostnað leiði af þessu.

Hv. þm. N.- Ísf. þarf ég ekki að svara miklu. Það atriði, sem hann gerði að umtalsefni, var ekki stórvægilegt. Honum þótti varhugavert, að landræktarfélögunum er samkv. 4. gr. frv. heimilað að taka land eignarnámi, ef sveitarstjórnirnar vilja ekki sinna því úr svo stendur á, er það þó í fyllsta máta sanngjarnt, að félagsskap, sem lætur sig ræktunarmál skipta, sé veittur þessi réttur, enda kemur slíkt ekki til framkvæmda nema almenningsheill krefjist þess, að landið fáist. Og þar sem meðmæli eftirlitsmannsins með þessum málum eru nauðsynleg til slíks eignarnáms, ætti þar með að vera fengin nægileg trygging fyrir því, að þetta verði ekki misnotað.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að svo komnu. Þeir hv. þm., sem um frv. hafa talað, hafa tekið því fremur vel, og get ég verið þeim þakklátur fyrir þær aths., sem þeir hafa við það gert, þó að ég hinsvegar geti ekki á þær fallizt.