09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (1906)

92. mál, erfðaleigulönd

Hannes Jónsson:

Það eru nokkur atriði í 11. gr., sem mér sýnast óljós og þarfnast frekari skýringa en fram hafa komið. Þar stendur m. a. svo: „Nú verða síðar breytingar á verðgildi peninga, og skal þá hvorum aðila um sig heimilt að krefjast þess, að matsverðið og leigan sé fært til þess verðgildis, sem þá er“. Nú er verðgildi peninga ávalt að breytast, eins og kunnugt er, og hefir breytzt mjög síðastl. hálfa öld. Er þá tilætlunin, að fram fari endurmat, ef breyting verður á verðgildi gulls, eða ef íslenzk króna breytist gagnvart erlendum gjaldmæli? Þetta er ekki vel ljóst, en þarf að koma skýrt fram.

Ég hefi ekki veitt því eftirtekt, að fara ætti fram nema eitt allsherjarmat á landi, sem tekið er eignarnámi. En mér finnst hart, að menn, sem missa land á þennan hátt, njóti þess ekki í neinu, ef verðbreyting verður á landi. Hv. flm. vissi ekki, hvort land skyldi metið til eignarnáms eftir því notagildi, sem af því er, þegar það er tekið eignarnámi, eða eftir því notagildi, sem ætla má, að það geti öðlazt. Þetta virðist þó skipta allmiklu máli, og er hart, ef landeigendur njóta þess að engu, hvaða möguleikar búa í því landi, sem af þeim er tekið.

Hv. þm. Borgf. sagði, að eftir frv. gæti vel farið svo, að beitarland yrði tekið af jörðum. Ég held, að vel gæti komið fyrir, að engjar færu sömu leið, því að þær eru viðast óræktað land. Ég þekki jarðir við kaupstaði, sem hljóta að rýrna stórkostlega í verði ef óræktað land er af þeim tekið. Í óræktaða landinu liggja oft og tíðum mestu framtíðarverðmætin. Er það allhart, ef ganga á svo nærri rétti einstaklinganna, að það, sem eftir er skilið af landi, verði þeim lítils eða einskis virði. Ef ræktunarland er tekið af jörð, sem hefir nóg beitarland, kemur beitarlandið ekki að gagni. Í frv. er ekki fyrirbyggt, að þetta geti átt sér stað, og vil ég æskja þess, að hv. landbn. hindri, að svo geti farið.

Mér skilst á ákvæðum 11. gr., að ef breyting verður á leigumála, þá gangi hækkunin til sveitarsjóðanna. En hvaða réttlæti er í því? Þeir einu, sem þetta kemur við, er sá, er landið var tekið af, og sá, er landið hefir á leigu. Milliliðnum kemur þetta ekki við. Þetta ákvæði er því alveg hugsunarlega skakkt (JörB: Þetta er hugsunarlega skakkt hjá hv. þm. sjálfum).