09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (1919)

94. mál, sauðfjármörk

Jón Sigurðsson [óyfirl]:

Það má segja, að það sé óþarfi fyrir mig, sem er í landbn., að fara að standa upp hér. En það er einungis vegna þess, að ég sé engin líkindi til þess, að frv. þetta fái þar nokkra afgreiðslu. Svo er nefnilega mál með vexti, að svo að segja daglega og oft á dag er vísað málum til landbn. Störf hennar hljóta því smátt og smátt að vaxa svo mjög, að hún hætti að skila áliti nema um nokkuð af þeim málum, er þangað koma. Og er næsta hætt við, að ekki vinnist tími til að taka þetta frv., sem hér liggur fyrir, til verðskuldaðrar athugunar. Þetta frv. er nýmæli, sem ekki hefir legið fyrir nú mörg undanfarin þing, og er ég n. þakklátur fyrir að hafa hreyft þessu máli, þótt ég hinsvegar sé henni ekki sammála um leiðir til þess að ráða bót á þeirri óstjórn, er nú ríkir á þessu sviði. Hitt þætti mér einkennilegt, ef bændur gerðu sig ánægða með það, að hver gikkurinn gæti tekið sér eignarrétt á marki fjárríkustu bænda í næstu sýslu. Þetta stafar af því, að samvinnu vantar milli sýslufélaganna sjálfra. Áður fyrr var bent á tvær aðferðir til þess að bæta úr þessu. Önnur var sú, sem kennd er við Björn bónda í Grafarholti, að breyta öllu okkar markakerfi. Hin, að hafa sérstakan markavörð til að yfirlíta þessi mál. Þá aðferð hefir n. valið. Ég er þessu mótfallinn. Ég vil, að nokkrar sýslur hafi samvinnu um þessi mál, nokkurskonar lögþvingaða samvinnu um prentun markaskrár, og kjósi menn til þess að fyrirbyggja það, að nýjar sammerkingar skapist. Með þessu hygg ég, að hægt sé að koma í veg fyrir sammerkingar að mestu eða öllu leyti. Þessir menn koma fram sem markadómur, sem hægt er fyrir menn að skjóta málum sínum til, ef ágreiningur verður. Ég get tekið undir það með þessum tveim hv. þm., er töluðu nú síðast, að mér finnast markagjöldin nokkuð há, og munu þau vera helmingi hærri en í mínu kjördæmi. Það er áreiðanlega hægt að gera þetta með miklu minni kostnaði, ef kunnugir menn eru valdir, sem hvert sýslufélag treystir bezt. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði, en vildi aðeins benda á þetta, ef verða kynnu frekari umr. um þetta mál núna.