09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (1920)

94. mál, sauðfjármörk

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég get verið hv. dm. þakklátur fyrir það, að þeir hafa séð nauðsyn þessa máls og viðurkennt, að hér þurfi breyt. til batnaðar. Þótti mér vænt um að heyra slíkt frá mönnum, sem kunnugleik hafa á ástandinu. Hitt er mér vel kunnugt, að sú venja er mjög rík að líta á markið eins og helgan dóm, sem aldrei að eilífu megi breyta eða glata. Af þessu hefir svo stafað hin mesta réttaróvissa um margar sammerkingar og námerkingar.

Ég er nú að hugsa um að fara aftan að siðunum og byrja á ræðum þeirra tveggja þm., er síðast töluðu, og byrja á því að snúa mér að hv. 2. þm. Skagf. Við ræðu hans hefi ég mjög fátt að athuga. En þó er ég óviss um, að hægt verði að koma í veg fyrir sammerkingar með þeirri aðferð, sem hann og hv. þm. Borgf. héldu svo mjög fram, sem sé með héraðsdómi. Samgangnasvæðið er oft afarstórt. T. d. ef Húnavatnssýsla og Skagafjarðarsýsla og Eyjafjarðar kæmu sér upp markadómi, þá yrði Borgarfjörður og Mýrar og Árnessýsla að vera með í dómnum. (JS: Borgarfjarðar- og Árnessýsla myndu vitanlega skjóta málum sínum til þeirra, ef svo stæði á). Ég stórefast um, að þessi aðferð verði nokkuð ódýrari; er frekar viss um það gagnstæða, en skal þó játa, að kostnaðinum er dreift meira. Í stað 3 manna í Rvík koma þá a. m. k. sem svarar 3 í hverjum landsfjórðungi, þ. e. a. s. 12 menn í stað 3 alls. Og svo óttast ég, að þetta verði aldrei fullnægjandi ráð til þess að koma í veg fyrir sammerkingar, þar sem ég efast um, að tími vinnist til þess að hafa góða samvinnu milli þessara mörgu markadóma. Nær vitanlega engri átt að halda því fram, að þetta yrði ódýrara. Annars er ég tveim síðustu ræðumönnum þakklátur fyrir þann áhuga, sem þeir virðast hafa á þessu máli. En svo skal ég til þess að láta alveg ganga yfir þessa 2 hv. þm., er varð svo tíðrætt um kostnaðarhliðina, segja þeim það, að ég læt mér alveg í léttu rúmi liggja, þótt þessir mörgu markadómar verði margfalt dýrari. Ef þessir hv. fulltrúar kalla þetta yfir sig, þá þeir um það. Þessir hv. þm. notuðu sér tækifærið til þess að snúa út úr orðum mínum og víkja að mér á miður sæmilegan hátt, og er þeim það sízt of gott, ef þeir hafa smekk fyrir slíku og telja það helzt við eiga. Skal ég geta þess, að við í n. höfum vitneskju okkar um kostnaðinn við prentun markaskrárinnar eftir gegnum manni, sem gott vit hefir á þeim hlutum. Ætlaði hann, að kostnaðurinn myndi nema sem svaraði 40 þús. kr. við það að prenta öll mörk landsins. (Raddir í salnum: Það nær ekki nokkurri átt!). Gert var ráð fyrir nokkrum kostnaðarauka í byrjun, en við vildum láta þetta fyrirtæki bera sig og álítum, að ekki bæri að horfa í, þótt einstakir menn yrðu að greiða nokkru meira fyrir prentun markanna en áður hefði verið; það munaði hvort sem væri aldrei miklu. Ef það er rétt, að gjöldin við þetta verði miklu minni, er hægt að miða gjöld markeiganda við það.

Hv. þm. Borgf. talaði um markadóm Þingeyinga og Eyfirðinga, en um hann vil ég segja það, að hann er, eins og ég áður hefi bent á, ekki allskostar fullnægjandi, þó til bóta sé. Þá var hv. sami þm. að vita þann hugsunarhátt, að ég léti mig litlu skipta, hvað þessar breyt. kostuðu. Ég bjóst ekki við, að hann myndi misskilja orð mín, og hélt, að honum væri það fyllilega kunnugt, að stundum er eyririnn sparaður, en krónunni kastað, og einmitt í þessu mundi svo reynast mörgum fjáreigandanum, ef smákostnaðarauki við prentun marka yrði látinn valda því, að ekki verði ráðin bót á þessu máli. Annars mun ég ekki gera það frekar að umtalsefni.

Ég er þá búinn að drepa á aths. þeirra hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. Og þótt þeir vilji snúa ýmsu á aðra leið, þá er ég þeim samt þakklátur fyrir það, að þeir vilja athuga málið og viðurkenna þörfina á því, að eitthvað sé gert til að kippa því í lag.

Þá skal ég stuttlega víkja að þeim hv. þm., sem fyrstur hreyfði andmælum gegn frv. Það var hv. þm. V.-Húnv. Hann vék nú að nokkru öðru en þessu máli, sem hér liggur fyrir. En þar sem hann gerði það nokkuð á sérstakan hátt, þá get ég verið fáorður um það. En ég vil segja það eitt, að ég tel bað rétt af honum, þegar hann vill láta ljós sitt skína á þennan hátt, að kasta hnútum sínum til þeirra, sem lifandi eru, en ekki að þeim, sem eru dánir. Það getur verið réttmætt að kasta þeim að núverandi þm. Árn., en hann ætti að stilla sig um að kasta þeim að fyrrv., dánum þm. þess héraðs. (HJ: Eru allir þm. Árn. dauðir?). Nei! Hv. þm. þykir líklega það eitt á skorta, að við erum ekki allir dauðir. En ég skal ekkert kvarta. Hv. þm. má gjarnan þjóna lund sinni eftir því sem hann hefir skaplyndi og manndóm til. Um till. mínar á meðferð landsfjár samanborið við hans till. skal ég ekki dæma sjálfur. Aðrir, sem eftir okkur koma, munu um það dæma. Og ég mun bíða þess dóms rólegur.

Mér þótti vænt um eitt atriði í ræðu hv. þm. Hann sá þó nauðsynina á því, að eitthvað sé gert til þess að losna við það vandræða-og ófremdarástand, sem hinar tíðu sammerkingar og námerkingar valda. En ég er hræddur um, að hv. þm. hafi ekki lesið frv. og hafi því átt erfitt með að gera sér grein fyrir einstökum atriðum þess. Af því leiðir þá líka, að aths. hv. þm. voru á misskilningi reistar. Hann hélt t. d., að prenta ætti allar markaskrár árlega. Máske hefir honum orðið mismæli. En þar sem markatöflur hverrar sýslu á að prenta 5. hvert ár, þá koma vitanlega nokkrar markaskrár út árlega. Verkið við þetta verður vitanlega mest á fyrstu umferðinni. En þegar því er lokið og búið er að koma skipulagi á mörkin, verður verkið vitanlega miklu minna úr því.

Þá þótti hv. þm. illt, ef hans kæru Húnvetningar misstu sín mörk fyrir það, að markaskrár Borgfirðinga væru prentaðar á undan. En þetta er alger misskilningur. Það á engin áhrif að hafa, hvor taflan verður prentuð á undan. Í frv. er gert ráð fyrir því, að erfðamörk hafi fyllstan rétt, þá aldur marka o. s. frv. — Hitt getur verið álitamál, hvort mest beri að meta þessi atriði, eins og þm. gerir ráð fyrir. Ég hygg þó rétt, að arfur og aldur ráði að öðru jöfnu.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta nú. Mér þykir vænt um, að hv. þm. hafa viðurkennt, að þörf sé á umbótum í þessu efni. Það má vera, að eitthvað greini á um leiðir. En að öllu vandlega athuguðu, þá held ég þó, að markið náist bezt með till. okkar. Við vildum aðeins tryggja það, að verkið yrði unnið sem bezt. Ef önnur leið finnst jafngóð, þá er ekkert við það að athuga, þótt hún sé farin.