09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í C-deild Alþingistíðinda. (1921)

94. mál, sauðfjármörk

Bernharð Stefánsson:

Hv. meðflm. minn er nú búinn að taka af mér ómakið við að svara þeim aths., sem fram hafa komið gegn frv. Enda er það svo, að þótt ég sé meðflm. þessa frv., þá er ég þó ekki svo bundinn við hvert atriði þess, að ég geti ekki verið rólegur, þótt aths. séu við það gerðar. Það getur því vel verið, að ég í landbn. geti fallizt á ýmsar breyt. á frv. Er líka gott, að aths. komi fram, ef þær eru gerðar með velvild til málsins.

Það var aðallega eitt atriði hjá hv. þm. Borgf., sem kom mér til að kveðja mér hljóðs. Hann minntist á, að samvinna hefði verið í nokkur ár milli Eyfirðinga og S.-Þingeyinga um samvinnu markaskráa og taldi, að þetta hefði gefizt vel. Virtist hv. þm. út frá þeirri reynslu helzt hallast að því, að slíkum markadómum yrði komið upp víðsvegar um land með samtökum sýslnanna, í stað allsherjarskipulags þess, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er rétt, að þessi markadómur er til og hefir gefizt vel, það sem hann nær. Hann hefir talsvert bætt úr ástandinu eins og það áður var, og þó ekki til fullnustu. Þótt hann hafi komið í veg fyrir sammerkingar milli S.-Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu, þá haldast þó sömu vandræðin milli Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu um sammerkingar. Þessi leið, að setja á stofn markadóma, kom til orða í mþn. En það þótti sýnt, að ef ekkert allsherjarvald væri til, sem næði yfir allt landið, þá yrði aldrei fullnaðargagn að slíku, þar sem einmitt takmörkin eru víða svo óljós um samgöngur milli héraða, að ekki er hægt að afmarka landið í sérstök svæði, þar sem engar samgöngur fjár væru á milli. Því sýndist mþn., að allsherjardómur eða yfirstjórn þessara mála fyrir landið allt, myndi koma að fyllri notum. Þó t. d. 10 markadómar væru starfandi, hver fyrir sitt afmarkaða svæði, þá mundi ekki vera þægilegt að koma þeim svo fyrir, að ekki kæmu að baga sammerkingar þeirra í milli. Eitthvert úrskurðarvald annað verður þá að vera um slíkt. Það má vera, að eitthvert einfaldara fyrirkomulag megi finna en það, sem er í frv. Er þá sjálfsagt að taka það, ef það reynist jafngott. En ég skil þó ekki í því, að það sé hægt. Ég held, að allsherjardómur sé það eina, sem dugi. Þó eitthvað megi finna ódýrara, þá verður það varla eins gott.

Ég get ekki tekið undir það, að engu máli skipti, hvort markgjaldið sé t. d. 1 eða 2 kr. En ég er viss um, að það ólag, sem nú er á þessum málum, hefir þó valdið mörgum manni miklu meiri útgjöldum en prentun marksins nemur samkv. þessu frv.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta. En ég vil þó áður en ég lýk máli mínu minnast á ummæli hv. þm. V- Húnv. Ég er hræddur um, að hann kenni mþn. í landbúnaðarmálum meira en hún á skilið, þegar hann segir, að það sé einkenni á henni, að hún vilji auka embættiskostnað. Hann drap á starf, sem lagt er til að verði stofnað samkv. laxafrv. En þessi n. hefir engin afskipti haft af því máli. Ég held, að um aukin störf sé ekki að ræða í þeim frv., sem frá þeirri mþn. hafa komið, nema í þessum tveimur, sem rædd hafa verið hér í dag. Ég held því, að það sé fullmikið sagt, að segja, að um aukin störf sé að ræða í hverju máli, sem frá þeirri n. kemur.