17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (1930)

95. mál, sjóveita í Vestmannaeyjum

Frsm. (Jón Ólafsson):

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um nál. á þskj. 161. Nefndin hefir öll verið á einu máli um það, að þetta sé hið mesta nauðsynjamál fyrir Vestmannaeyinga, og vonar, að þingið taki því vel. Það er eins og kunnugt er eitt af mestu vandkvæðum í Vestmannaeyjum að fá nóg neyzluvatn, hvað þá til þvottar á þeim fiski, sem þar berst á land. Eftir því sem útvegur óx þar og höfnin kom meir að gagni, hefir þörfin óðum aukizt. Síðasta ár öfluðust þar um 40 þús. skippund, og þá voru gerðir þar út rúmlega hundrað bátar. Við þennan mikla vöxt varð mönnum ljóst, að þetta mál þyldi enga bið. Nokkrir menn tóku sig til að koma upp sjódælu, en það eru ekki nema fáir, sem hafa afl til þess, og a. m. k. getur mjög mikill hluti útvegsmanna alls ekki fengið nægan sjó, meðan núverandi ástand helzt. — Það hefir þótt bera á því, að Vestmannaeyingar hefðu ekki eins góðan fisk og aðrir, sem hafa betri aðstöðu til þvotta. En hitt hefir sýnt sig um leið, að þeir, sem náðu nægum sjó til þvotta þar, höfðu mun betri vöru en hinir.

Þetta mannvirki, sem á að kosta rúmlega 73 þús. kr., er svo þýðingarmikið fyrir bætta fiskverkun, að búizt er við, að þeir, sem sjóveitunnar njóta, muni fá margborgaða þessa upphæð á örfáum árum.

Nefndin ber í raun og veru ekki fram neinar þær efnisbreyt. á frv., að ég þurfi að tala mikið um þær. Við 3. gr. þótti réttara að gera brtt., að í stað þess að ákveða strax ákveðið gjald fyrir visst magn sjávar, skuli láta bæjarstj. ráða því með reglugerð, sem atvmrh. síðan samþykki. Hitt eru mest orðabreyt., sem ekki hafa þýðingu fyrir málið, en þóttu eiga betur við. Ég óska, að málinu verði vísað til 3. umr. að lokinni umr.