10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í C-deild Alþingistíðinda. (1946)

104. mál, raforkuvirki

Jón Auðunn Jónsson:

Ég stend ekki upp til þess að andmæla þessu frv., heldur aðeins til að leiðrétta það, sem hv. þm. Ísaf. sagði um viðskipti rafmagnsfélagsins á Ísafirði við bæjarbúa.

Síðastl. ár var tekin saman skrá yfir það, hve mikið hluthöfum hafi verið greitt í arð frá upphafi, og reyndist það vera 31/2% á ári. Hlutir í félaginu hafa verið seldir í haust sem leið frá 25% upp í 50% hæst. Það er því augljóst, að félagsmenn hafa ekki gert sér rafmagnið að féþúfu. Það má þó vera, að full þörf sé á því, að hið opinbera hafi hér hönd í bagga, en það má ekki verða á þann hátt, að menn skirrist við að leggja fé í fyrirtæki til þess að hjálpa sveitar- og bæjarfélögum, sem ekki hafa tök á að ráðast í fyrirtækin.

Rafmagnsverðið á Ísafirði hefir verið lægra en annarsstaðar, þar sem stöðvar hafa verið reknar með mótor. Í Ísafirði er verðið 1.00 kr. fyrir kílówatt, en í Stykkishólmi 1.75 kr., austanfjalls hefir það verið 2.00–2.25 kr., og á Flateyri er það 1.35 kr., en var áður 1.50. Þar sem raforkan er framleidd með mótorafli, er hún því yfirleitt dýrari en á Ísafirði.