10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

104. mál, raforkuvirki

Jón Auðunn Jónsson:

Ég get ekki séð, að bæjarbúar á Ísafirði hafi sætt verri kostum en hluthafar, þar sem þeir hafa aðeins fengið 31/2% í arð og engan eyri fyrstu 7–8 árin. Þetta eru lágir vextir af hlutafé. Auk þess er engin von, að hluthafar fái allt sitt hlutafé endurgreitt. Hv. þm. Ísaf. gat þess, að 1930 hefði rafmagnsverðið verið 1.20 kr. Það var kr. 1.10, en það hefir verið lækkað niður í 1.00 kr. Það stóð að vísu nokkuð á lækkuninni, og var það vegna þess, að félagið vildi selja bænum útileiðslur, en hann vildi ekki kaupa þær, þótt þær væru boðnar fyrir matsverð eða minna.

Ég býst við, að bráðlega verði lokið starfsemi þessa félags, vegna þess að vatn verði fengið til rafveitu, og að því leyti komi þetta frv. ekki til framkvæmda þar. Það væri viðkunnanlegast, að slík fyrirtæki væru rekin af bæjarfélaginu eða sveitarfélaginu sjálfu. En bæjarstj. á Ísafirði vildi ekki ráðast í þetta fyrirtæki. Bæjarbúar voru leiðir yfir því að fá ekki rafmagn, og tóku þá nokkrir þeirra sig saman og söfnuðu 90 þús. kr. hlutafé, sem nú er búið að skrifa niður í 54 þús. vegna tapa, sem félagið hefir orðið fyrir. Eitt stórt fyrirtæki átti í því 20 þús. kr., en varð að selja hlut sinn fyrir 4–5 þús. kr.