13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

112. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Magnús Jónsson):

Þetta litla frv. er svo ljóst, að ekki þarf að fylgja því úr hlaði með mörgum orðum.

Eins og kunnugt er, eru málefni tveggja aðalatvinnuvega vorra, landbúnaðar og sjávarútvegs, athuguð í sérstökum n. innan þingsins. Nú álít ég, að kominn sé tími til þess, að þriðji atvinnuvegurinn, iðnaðurinn, sem nú er farinn að aukast hér á landi að talsverðum mun, fái líka sérstaka fastanefnd, sem taki málefni hans til meðferðar.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en vil aðeins óska þess, að frv. verði látið ganga til 2. umr. og allshn., að þessari umr. lokinni.