13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

117. mál, útsvör

Flm. (Jón Ólafsson):

Það er svo um þetta mál sem mörg önnur, að ekki er hægt að gera svo öllum líki. Það, sem einum er nauðsynlegt, getur komið illa við annan. Þó fæ ég ekki séð, að hægt sé að mæla móti því með nokkurri sanngirni, að Reykjavíkurbær fái nokkrar tekjur með þessu móti, þar sem þeir menn, sem hér er um að ræða, raka saman fé af þessum eignum sínum. Er allt öðru máli að gegna um jarðir, þar sem þetta getur verið varasamt, en því ætti að mega treysta, að sveitarstjórnirnar gengju ekki nær þeim mönnum, sem jarðir eiga og leigja, en hæfilegt má þykja. Sumar þær jarðir, sem í leiguábúð eru, eru hinsvegar leigðar svo miklum afgjöldum, að ekki nær nokkurri átt, að þau sveitarfélög, sem verða fyrir barðinu á þessu, fái ekki eitthvað í aðra hönd. Hvað Reykjavík snertir, þá stafar bænum mikil hætta af þessu, því að þeir, sem svo eru gerðir, geta komið húseignum sínum á annara nöfn og með því komizt hjá að telja fram til skatts þær tekjur, sem þeir hafa af þessum eignum sínum. Þótt ekki hafi verið mikið um þetta, hefir þó borið á því. Til dæmis hefir enginn eyrir runnið í bæjarsjóð eftir þær húseignir, sem standa á bezta stað hér í bænum og gefið hafa fullt verðmæti sitt af sér árlega nú í 20 ár. Mega menn sjá af þessu, hvílík nauðsyn Reykjavíkurbæ er á því, að þessu sé kippt í lag, og þess vegna ekki vert fyrir þá ýmsu þm., sem svo kynni að vera ástatt um, að þeir ættu kost á einhverjum landshluta, að fara að bregða fæti fyrir þetta frv.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en mér er ekki grunlaust um, að þetta ákvæði, sem hér er farið fram á, að verði tekið upp í útsvarslögin, hafi verið fellt undan á sínum tíma, vegna þess, að einhverjir hafi verið að gæta hagsmuna sinna á kostnað annara.