13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

117. mál, útsvör

Hannes Jónsson:

Ég get að ýmsu leyti verið samþ. hv. flm. í þessu máli. Þó fæ ég ekki séð, að það sé minni ástæða fyrir sveitirnar en bæina að tryggja sér útsvarsrétt af öllum fasteignum innan sveitarinnar, þó eigendur þeirra séu búsettir í öðrum sveitum. Með þessu móti yrði hverju bæjar- og sveitarfélagi tryggður fastur stofn til útsvarsálagningar, sem ekki breyttist eftir heimilisfangi eigendanna. Ég veit þess dæmi, að álögumöguleikar hrepps hafa rýrnað svo af þessum ástæðum, að til vandræða horfði. Skal ég þó ekki fara frekar út í þetta. Hinsvegar vildi ég biðja þá n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún taki til rækilegrar athugunar ýms önnur ákvæði útsvarslaganna, sem ekki veltur á minna um. Ég veit þess dæmi, og þau ekki svo fá, að menn telja sig til heimilis í öðrum sveitum en þeir búa í, til þess að komast hjá að greiða útsvör. Teldi ég heppilegast, að sett yrðu einhver ákvæði í l. um að menn yrðu að dvelja svo og svo lengi árlega í sömu sveit, til þess að geta talið sig þar til heimilis. Væri þá girt fyrir það, að menn með þessu móti gætu komið sér undan að greiða réttmæt gjöld.