13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í C-deild Alþingistíðinda. (1963)

117. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Það er að vísu alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. og þm. Borgf. hafa tekið fram, að með þessu frv. er ætlazt til að ganga inn á nýja braut í þessum útsvarsmálum. En þó að þetta sé nýmæli, sannar það ekkert um, að ekki geti verið réttmætt að ganga inn á það. Ég lít svo á, að vafasamt geti verið, hvort það verði ekki óhjákvæmilegt áður en langt um líður.

Við vitum, að sum sveitarfélög í þessu landi eru illa komin fjárhagslega, atvinna rýr og eignir litlar. Þegar svo er komið, að ómögulegt sýnist í einu sveitarfélagi að ná þeim gjöldum, sem þarf, virðast utansveitarmenn, sem þar eiga fasteignir, verða að standa undir einhverju af gjöldunum.

Sveitarfélögin eru ákaflega misjafnt sett. Oft er svo, að sterkt sveitarfélag og annað veikt liggja hlið við hlið, og það hefir borið á því, að voldugra sveitarfélagið hefir reynt að eignast fasteignir í því veikara, til þess m. a. að koma þangað mönnum, sem hætta var á að yrðu fátækrastyrksþurfar. Tækizt því þetta til hlítar, að leggja undir sig flestar jarðir í næsta hreppi og setja þangað fátæklinga, er ekki ósanngjarnt, þótt af þessum fasteignum verði greitt eitthvað í sveitarsjóð.

Svo má og benda á annað dæmi, sem beint styður þetta mál. Það er, að flest sveitarfélög leggja nú meira eða minna í kostnað til umbóta. Þessar umbætur hækka fasteignirnar í verði. Þeirrar verðhækkunar verða eigendurnir aðnjótandi. Það er því sanngjarnt, að þeir leggi eitthvað af mörkum á móti til þess sama sveitarfélags, sem hefir orðið til þess, að eignirnar hækkuðu í verði. Mér virðist eins eðlilegt að maður, sem hefir stórtekjur af fasteign í öðrum hreppi, gjaldi til sveitarþarfa eins og annar, þótt hann hafi einhverjar atvinnutekjur þar.

Ég vildi mæla sem bezt með því, að hv. allshn. afgreiði málið sem fyrst, og að eitthvað í þessa átt a. m. k. geti orðið að lögum á þessu þingi.