13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í C-deild Alþingistíðinda. (1965)

117. mál, útsvör

Flm. (Jón Ólafsson):

Það er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þetta. Við hv. 1. þm. Skagf. fæ ég tækifæri til þess að ræða í nefnd.

Hann talaði um, að æðimikill eltingarleikur hefði orðið út af því, þegar átti að leggja útsvar á menn þar, sem þeir stunduðu atvinnu aðeins um tíma. Menn kvörtuðu sáran yfir þessu og báru e. t. v. ekki réttan hlut frá borði sumstaðar, t. d. að þegar Reykjavík væri búin að taka sitt, þá væri það svo ríflegur skerfur, að þær sveitir, sem mennirnir væru útsvarsskyldir í, fengju minna en þeim bæri. Þetta kann máske að eiga sér stað um atvinnutekjur. En ég vil meina, að það sé dálítið annað að eltast við menn um atvinnutekjur þeirra heldur en þegar þeir eiga jarðeign eða aðrar fasteignir, en út af þessu varð aðalágreiningurinn.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um, að línurnar í útsvarslöggjöfinni hefðu staðið óraskaðar um langt skeið og ættu að gera það sem mest hér eftir. Það væri sjálfsagt gott, ef öll skattalögin gætu staðið óröskuð í þessu brimróti breytinga. En í þessu tilfelli held ég, að óhætt sé að treysta því, að fyrst þetta er lagt á vald sömu mönnum og hafa lagt á eftir efnum og ástæðum, þá verði menn ekki fyrir þungum búsifjum af þeirra hálfu.

Það er satt, að ekki er hægt að taka mikil útsvör af litlum jarðeignum. En þar, sem menn ávaxta fé sitt með jafngóðum árangri og húseigendur í Rvík búa við, ætti ekki að vera vorkunn að greiða nokkuð til bæjarins, enda mundi því gjaldi mjög í hóf stillt.